Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Fréttir 30. mars 2017
Lífdísilverksmiðja myndi skila 15 prósenta hagnaði
Höfundur: smh
Þann 7. mars síðastliðinn skilaði dr. Vífill Karlsson, hjá Sambandi sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV), viðskiptaáætlun til Samgöngustofu um hugmynd að íslenskri lífdísilverksmiðju sem framleitt gæti 5.000 tonn af eldsneyti fyrir fiskiskipaflotann á Íslandi. Niðurstöður sýna að verksmiðjan myndi skila 15 prósenta hagnaði miðað við gefnar forsendur.
Jón Bernódusson, verkfræðingur hjá Samgöngustofu, vann á árunum 2008 til 2010 að tilraunaverkefninu Umhverfisvænir orkugjafar hjá Siglingastofnun. Verkefnið miðaði að því að kanna fýsileika þess að rækta vetrarrepju á Íslandi með það fyrir augum að nýta olíuna úr fræi hennar sem umhverfisvænan orkugjafa, sem gæti leyst dísilolíuna af hólmi fyrir fiskiskipaflotann. Niðurstöðurnar úr verkefninu gáfu fyrirheit um að lífdísilframleiðsla með þessum hætti væri vænleg. Í eðlilegu ræktunarári má reikna með að uppskerumagn á hektara verði um þrjú tonn af repjufræi.
„Greinargerð Samgöngustofu, sem viðskiptaáætlunin byggir á, er frá árinu 2014. Hugmyndin er að íslenskir bændur rækti og framleiði repjufræ í verksmiðjuna, en þar til íslensk ræktun er komin á það stig að geta fullnægt þörf verksmiðjunnar verða frækornin flutt inn til landsins,“ segir Jón.
Forsendur greinargerðar Samgöngustofu gera ráð fyrir að verksmiðjan framleiði lífdísil fyrir samgöngutæki eins og bifreiðar og skip, um fimm þúsund tonn sem er um eitt prósent af innfluttu jarðefnaeldsneyti. Lög frá 2015 heimila fimm prósenta íblöndun í jarðefnaeldsneyti. Árið 2020 hækkar hlutfallið í tíu prósent. Litið er á slíka framleiðslu sem upphafið að einhverju stærra. Í greinargerðinni kemur fram að árlega sé flutt inn til landsins um 2.000 tonn af repjuolíu og 1.500 tonn af repjumjöli. „Repjuolían er svo til eingöngu notuð til steikingar og repjumjölið fer aðallega í fóður fyrir búfénað og fiskeldi.
Til að framleiða 5 þúsund tonn af repjuolíu þarf að pressa 15 þúsund tonn af repjufræjum. Við það verða auk olíunnar einnig til um 10 þúsund tonn af repjumjöli (repjuhrati). Við pressun repjufræjanna er olían þriðjungur af massa fræjanna og repjumjölið tveir þriðju massans.
Við ræktun á repju og nepju er um helmingur lífmassans stönglar, sem nýta má sem áburð eða orkugjafa. Hinn helmingurinn eru fræin sem breyta má í olíu og fóðurmjöl. Einungis 15% af lífmassanum er olía og 85% nýtast beint eða óbeint sem fæða fyrir menn og dýr. Allur lífmassinn nýtist því sem orka eða fæða. Öll umræða um að repjuræktun valdi hækkun á matarverði eða stuðli að minnkandi ræktun til manneldis er því röng,“ segir í greinargerðinni.
Gert er ráð fyrir að stofnkostnaður verði um 500 milljónir króna, en árlegur kostnaður er talinn verða 1,2 milljarðar. Innkoman er hins vegar talin verða 1,5 milljarðar á ári – og miðað við þær forsendur væri hægt að greiða niður stofnkostnað á þremur árum. Ekki er talið að lífdísillinn muni einn og sér standa undir framleiðslunni, heldur muni aukaafurðirnar – hratið og matarolía – verða mikilvæg söluvara. Hratið sem fóður fyrir húsdýr og eldisfiska og matarolían til manneldis.
Söluvörur lífdísilverksmiðjunnar
Í viðskiptaáætluninni er eftirfarandi lýsing á söluvörunum sem verða til við lífdísilframleiðsluna:
„Lífdísill er einstakur að því leyti til að hann er endurnýjanlegur orkugjafi og umhverfisvænn og því mun æskilegri en hefðbundið jarðefnaeldsneyti. Endurnýjanlegur er hann því hann byggir á ræktun og umhverfisvænn vegna þess að hann bætir ekki við neinum gróðurhúsalofttegundum í lofthjúpinn.
Framleiðsla á lífdísil skilar aukaafurðum. Við ræktun á repju og nepju er um helmingur lífmassans stönglar, sem nýta má sem áburð eða orkugjafa. Hinn helmingurinn eru fræin sem breyta má í olíu og fóðurmjöl. Einungis 15% af lífmassanum er olía og 85% nýtast beint eða óbeint sem fæða fyrir menn og dýr. Allur lífmassinn nýtist því sem orka eða fæða.
Verksmiðjan mun afkasta 5 þúsund tonnum á ári. Til þess þarf að pressa 15 þúsund tonn af repjufræjum sem keypt verða af bændum. Við það verða auk olíunnar einnig til um 10 þúsund tonn af repjumjöli (repjuhrati) sem aukaafurð. Við pressun repjufræjanna er olían þriðjungur af massa fræjanna og repjumjölið tveir þriðju massans. Repjufóðrið er próteinrík afurð og því getur það einnig nýst vel í brauðgerð til manneldis, sem hluti í heilfóður húsdýra bænda og sem fóðurblöndun í fiskeldi.
Að auki verða til 300 tonn af glýseróli og 30 af metanóli sem aukaafurðir.
Þá gæti hluti olíunnar (5%) verið seldur sem matarolía fyrir mun hærra verð en lífdísilolían.“
Jón Bernódusson.
Olíuvinnsluferlið
-
Þegar repjufræin koma af akrinum eru þau þurrkuð þangað til rakastigið er orðið 7%.
-
Fræin eru svo sett í olíupressu þar sem tekin er úr þeim olía (35–38%) við 40°C. Hratið eða fóðurmjölið er verðmæt fóðurkaka sem nota má til fóðrunar t.d. nautgripa, svína, fyrir sauðfé eða í fiskeldi.
-
Olían er svo hreinsuð með síum eða skilvindu. Olían sem kemur úr pressunni er nefnd kaldpressuð olía og hún er hin fínasta matarolía. Ef nota á hana til matargerðar er hún hreinsuð með mjög fínum síubúnaði.
-
Olían er sett í emstrun. Tréspíra og sóda er blandað saman við olíuna. Þessi efni sjá til þess að glyserólið í olíunni sest á botninn og því má auðveldlega tappa úr olíunni. Eftir stendur lífdísillinn sem nota má á allar dísilvélar.