Lífið á Lýsuhóli
Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
„Við værum ekki að þessu nema okkur þætti virkilega gaman af því,“ segja hjónin Jóhanna Ásgeirsdóttir og Agnar Gestsson, sem hafa rekið hestaferðaþjónustu á Lýsuhóli á sunnanverðu Snæfellsnesi í 25 ár. Þau standa í stórræðum þessa dagana, eru oftar en ekki með fullt hús ferðamanna í gistingu, mat og hestaferðum og eru jafnframt að leggja lokahönd á nýja reiðhöll. Þau ætla þó að taka sér örlítið frí til að fylgjast með hestinum sínum á Landsmóti.
Á bænum Lýsuhóli í Staðarsveit á sunnanverðu Snæfellsnesi má finna heimilislegt þjónustufyrirtæki fyrir ferðalanga. Við bæinn standa nokkur gistihús en gestir sækja þangað til að komast á hestbak. Agnar fer með gesti í minni reiðtúra um strandir Snæfellsness og lengri hestaferðir um nærliggjandi svæði, s.s. á Löngufjörur og í Hópið.
Heima við eldar Jóhanna næringarríkar máltíðir fyrir þreytta reiðmenn. Eldhúsið er opið, í nánd við gestina, sem Jóhanna segir að sé til þess gert að halda heimilislegri stemningu. Úr matsalnum er víðáttumikið útsýni til allra átta og fyrir utan standa hestar á beit.
Eldhúsið er opið, í nánd við gestina, sem Jóhanna segir að sé til þess gert að halda heimilislegri stemningu.
„Hjartað mitt liggur í því að elda góðan mat og um leið vil ég geta fylgst með gestunum og talað við þá. Við reynum eftir bestu getu að sækja hráefni í matinn úr sveitinni, beint frá bónda og ferskan fisk,“ segir Jóhanna sem hefur aðlagað eldamennsku sína að breyttum áherslum. „Nýlega fór ég svo að læra og er orðin matartæknir. Eitt sinn var það frávik ef fólk með séróskir um mat mætti hingað, en núna eru upp undir 40% gesta grænmetisætur, með ofnæmi, vilja glúteinlaust eða laktósafrítt. Ég tók því ákvörðun um að læra þetta allt saman og námið var mjög skemmtilegt og nú vil ég halda áfram og fara í kokkanám.
Hámarkinu náð?
Árið 1993 tóku Jóhanna og Agnar við staðnum og rekstrinum af móður Jóhönnu, Margréti Hallsdóttur, og manninum hennar, Guðmundi Kristjánssyni, en þau byrjuðu með ferðaþjónustu á staðnum árið 1981.
„Við tókum við traustum hestastofni og góðu búi. Það voru þrjú herbergi hér innanhúss sem þau leigðu til ferðamanna en strax árið 1994 settum við upp þrjú lítil hús,“ segir Jóhanna en út frá þessum góða stofni hafa þau byggt og vaxið. Gistihúsin eru nú orðin 10 talsins, hestaflotinn telur 60–70 hross á járnum yfir sumarið og fyrirtækið meðal þeirra rótgrónu í hestaferðaþjónustu hér á landi.
Á efri hæð reiðhallarinnar er Jóhanna að innrétta kaffihús og bar.
Á 25 árum hefur ferðaþjónusta hér á landi kollvarpast og hafa hjónin fengið að upplifa stigvaxandi ásókn gesta til þeirra, sér í lagi síðustu ár. Jóhanna segir þó líta út fyrir að hámarkinu hafi verið náð í fyrra, því þau upplifa töluverða fækkun í ár.
„Það kemur á óvart hversu mikið minni aðsóknin er. Fyrirtæki í nágrenninu finna einnig fyrir þessu. Við höldum kannski að ástæðan sé gengi íslensku krónunnar. Svo gæti líka verið veðrið. Hver vill vera í 4–6 stiga ísskápshita, í rigningu?“ spyr Jóhanna.
Vinnureglur hestaferðaþjónustufyrirtækja
Jóhanna nefnir að með uppgangi ferðamennsku á Íslandi hafi fagmennska í hestaferðaþjónustu einnig aukist og að það sé vel.
Hún nefnir sérstaklega vinnureglur sem aðilar innan hestaferðaþjónustu hafa mótað sem fjallar m.a. um skriflegt utanumhald um almennt heilbrigði hestanna, þjálfun þeirra og notkun.
„Enda skiptir það mestu máli að við hugsum vel um hestana okkar,“ segir Jóhanna.
Atlas er stoltið
Hrossaflotinn á Lýsuhóli er nær alfarið heimaræktuð hross.
Leggja Almar og Jóhanna því metnað í að ná fram eilítið öðrum eiginleikum en gengur og gerist við ræktun keppnishrossa. Þó skarast áherslurnar í megindráttum. Það sýnir sig ekki síst í því að þeirra þekktasti gæðingur, Atlas frá Lýsuhóli, er meðal keppenda á sínu fjórða Landsmóti í A-flokki og kemur að þessu sinni inn á mót næstefstur á stöðulista.
Atlas frá Lýsuhóli, er meðal keppenda á sínu fjórða Landsmóti í A-flokki. Hann verður undir stjórn Jóhanns Kr. Ragnarssonar. Hér tekur Lárus Ástmar Hannesson, formaður LH, gæðinginn til kostanna á Fjórðungsmóti Vesturlands árið 2017.
Jóhanna segir að þau séu að rifna úr stolti yfir árangri Atlasar. „Atlas er sú hestgerð sem við viljum standa fyrir. Um leið og hann er þessi þvílíkur gæðingur þá er hann svo jákvæður og öruggur, traustur og þolmikill. Þótt hann sé viljugur þá er hann þjáll og meðfærilegur, við myndum treysta honum með börnum.“
Agnar og Jóhanna byggja ræktunina á ljúfum hryssum, afrakstur metnaðarfullrar ræktunar móður hennar og Guðmundar Kristjánssonar. Við val á stóðhestum segir Jóhanna þau aðallega skoða eiginleika geðslagsins og þjálni. Þau horfi minna í byggingu hestsins. Þau leiti heldur ekki langt yfir skammt, og noti gjarnan gæðinga úr sömu sveit.
„Grasið er ekki endilega grænna hinum megin á landinu.“
Gæðingurinn Atlas var ekki heima við þegar viðtalið var tekið, enda að undirbúa sig undir Landsmót. Jóhanna sýnir hér hins vegar veglegan farandgrip sem þau fengu á dögunum, en hann stendur fyrir besta fimmgangshest hestamannafélagsins Snæfellings, sem Atlas fékk nú sjöunda árið í röð. Verður það víst seint leikið eftir.
Styrkur í nýrri reiðhöll
Það sem vekur kannski hvað mesta eftirtekt þegar litið er í heimsókn á Lýsuhól er glæsileg aðstaða fyrir hrossin.
Fallega upplýstur hleðsluveggur, sem er upprunalega gamall fjósaveggur, rammar inn rúmgott hesthús en þar má einnig finna vatnshlaupabretti og víbragólf, búnað sem finnst nær eingöngu á stórum tamningastöðvum.
„Ég held að ég noti mest víbragólfið. Á kvöldin, eftir langa daga standandi í eldhúsinu, má finna mig hér,“ segir Jóhanna hlæjandi en hún segir að búnaðinn noti þau fyrir hesta sem eru í mikilli þjálfun, auk þess sem þau taki oft að sér hross sem eru að jafna sig eftir meiðsli. Þá þjóni Lýsuhóll tilgangi heilsustöðvar.
„Ég held að ég noti mest víbragólfið. Á kvöldin, eftir langa daga standandi í eldhúsinu, má finna mig hér,“ segir Jóhanna en í hesthúsinu á Lýsuhóli má einnig finna vatnsgöngubretti.
Það er ekki allt. Því nýlega reis reiðhöll á Lýsuhóli. Hún er hin glæsilegasta, 40x25 m að stærð og má þar m.a. finna gönguhringekju. Með henni vonast hjónin til að geta styrkt vetrarþjónustu Lýsuhóls.
„Við sjáum fyrir okkur að geta boðið fólki að koma á hestbak á veturna, geta fengið kennslu og æft sig og farið svo í reiðtúra þegar veður leyfir,“ segir Jóhanna en auk þess vilja þau bjóða nemendum úr nærliggjandi skóla upp á reiðnámskeið og halda mannamót í höllinni og glæða þannig sveitina lífi.
„Við höldum að allt sem við bjóðum upp á geti styrkt hvort annað. Gistiþjónustan styrkir hestaferðirnar og öfugt. Fólk hefur líka áhuga á sveitalífi og hér getur það verið með, það er hugmyndin með að halda þessu heimilislegu en það skiptir okkur öllu máli. Svo er ekki verra hvað ég hef rosalega gaman af því að elda,“ segir Jóhanna og skenkir soðinni ýsu og kartöflum á disk blaðakonunnar.