Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Við framleiðslu á mjólkurdufti er á fyrsta stigi notast við  jarðhitavatn til upphitunar í gegnum varmaskipta, þá tekur við gufa sem framleidd er með rafmagni og að lokum heitt loft sem hitað er með rafmagni.
Við framleiðslu á mjólkurdufti er á fyrsta stigi notast við jarðhitavatn til upphitunar í gegnum varmaskipta, þá tekur við gufa sem framleidd er með rafmagni og að lokum heitt loft sem hitað er með rafmagni.
Fréttir 28. maí 2021

Líklega eina landið í heiminum sem framleiðir nú allt sitt mjólkurduft með grænni orku

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Nær 100% af því próteini sem til fellur í íslenskum mjólkuriðnaði er nú nýtt á einhvern hátt og mjólkurduft sem hér er framleitt er allt framleitt með grænni endurnýjanlegri orku. Ólafur Ragnarsson, framleiðslustjóri hjá Mjólkursamsölunni (MS), telur líklegt að Ísland sé eina landið í heiminum sem framleiðir allt sitt mjólkurduft með þessum hætti.

„Í janúar á þessu ári slökktum við hjá MS á síðasta olíukynnta katlinum til framleiðslu á gufu til mjólkurvinnslu. Sá ketill er á Egilsstöðum og er nú eingöngu notuð hrein endurnýjanleg raforka við mjólkurvinnslu á öllum starfsstöðvum MS,“ segir Ólafur. Við framleiðslu á mjólkurdufti er á fyrsta stigi notast við jarðhitavatn til upphitunar í gegnum varmaskipta, þá tekur við gufa sem framleidd er með rafmagni og að lokum heitt loft sem hitað er með rafmagni. Öll þessi framleiðsla er því unnin með grænni endurnýjanlegri orku. Er þetta vinnsluferli mjólkurdufts því væntanlega eitt það umhverfisvænasta sem um getur og einsdæmi í heiminum.

Hann tekur þó fram að olíukatlar séu hafðir til taks sem varaafl ef svo færi að rafmagnið færi af og þegar sinna þarf viðhaldi á rafmagnskötlunum.

Mjólkur- og undanrennuduft auk kálfafóðurs er framleitt hjá MS á Selfossi. Hjá Íslenskum mysuafurðum á Sauðárkróki, sem er í eigu Mjólkursamsölunnar og Kaupfélags Skagfirðinga, er framleitt mysuprótein úr ostamysu sem fellur til við ostagerð hjá KS á Sauðárkróki og starfsstöðvum MS á Akureyri og Egilsstöðum. Íslenskar mysuafurðir nýta þannig allt það prótein sem fellur til úr mysu í Skagafirði, Akureyri og á Egilsstöðum með vinnslu á mysudufti á Sauðárkróki.

„Í dag er því nánast hægt að tala um fullnýtingu mjólkur þar sem lítið sem ekkert er að fara til spillis hjá okkur í mjólkurvinnslunni og því ekkert um að próteini sé veitt út í fráveitukerfið,“ segir Ólafur.

Áfengisframleiðsla úr mjólkursykri

Þá eru Íslenskar mysuafurðir að taka í notkun búnað til að nýta mjólkursykur til etanolframleiðslu. Þar er nú einnig byrjað að framleiða íslenska rjómalíkjörinn Jöklu sem kominn er í verslanir ÁTVR. Búast má við að ef Jökla nær flugi á markaðinum líkt og írski drykkurinn Baileys, þá vaxi eftirspurn eftir mjólkurfitu, eða rjóma frá íslenskum framleiðendum.

Tilraunir með framleiðslu á Baileys hófust 1971 og framleiðsla hófst svo 1974. Tilraunir með Jöklu og þróun framleiðsluaðferða hafa líka staðið í nokkur ár. Til framleiðslu á Baileys á Írlandi fara árlega um 250 milljónir lítra af mjólk frá 40.000 kúm. Þá eru um 82 milljón flöskur af þessum vinsæla drykk seldar árlega til 180 landa um allan heim. Ef mjólkurfræðingnum Pétri Péturssyni verður álíka ágengt með sinn göfuga Jöklu-drykk, þá mega íslenskir kúabændur heldur betur fara að taka til hendi.

Verðhækkanir á mjólkurdufti í kjölfar COVID-19

Á hverju ári eru framleidd nokkur hundruð tonn af mjólkurdufti á Íslandi. Mest er selt úr landi, en heimsmarkaður hefur verið mjög flöktandi undanfarin ár og verð oft lágt. Ólafur segir að nú sé heimsmarkaðsverð á mjólkurdufti tiltölulega hátt sem skýrist að mestu af COVID-19. Víða hefur starfsemi legið niðri vegna skorts á mannskap í mjólkurvinnslum vegna faraldursins. Þannig greindi BBC í Bretlandi frá því að bændur þar í landi hafi þurft að hella niður mjólk í stórum stíl vegna ástandsins. Forbes, Reuters og Bloomberg greindu frá svipuðum fréttum víða um lönd.

Sjónvarpsstöðvarnar ABC og NBC í Bandaríkjunum greindu frá sams konar atvikum þar í landi en aðallega vegna samdráttar í mjólkurneyslu heimila og í sölu til mötuneyta. Þar var talað um að hellt væri niður 1,5 til 2 milljónum lítra á dag.
Þetta leiddi m.a. til minni framleiðslu á mjólkurdufti og því hefur gengið hratt á birgðir sem leitt hefur til verðhækkana á próteini að undanförnu.

Heimsmarkaðsverð á mjólkurdufti hefur hækkað verulega á síðustu mánuðum

Heimsmarkaðsverð á mjólkurdufti dróst saman að meðaltali um 4,5% á síðasta ári vegna verðlækkana frá Asíulöndum eins og Kína, Bangladess, Malasíu og Singapúr. Síðari hluta árs 2020 fór verð á mjólkurdufti hins vegar að hækka verulega á ný samkvæmt tölum CLAL.it. Þannig var meðalverðið á tonni af mjólkurdufti komið í 3.254 evrur nú í byrjun maí 2021, en fór lægst að meðaltali í 2.720 evrur í nóvember 2020.

Frá ársbyrjun 2008 fór meðalverð á mjólkurduftinu lægst í 1.725 evrur á tonnið í febrúar 2009. Hæst fór verðið aftur á móti í febrúar 2014 þegar meðalverðið komst í 3.700 evrur á tonnið.

Þegar litið er til einstakra landa, þá komst meðalverðið á mjólkurdufti til manneldis í Þýskalandi hæst í 3.290 evrur á tonnið um síðustu mánaðamót. Þar í landi var verðið á undanrennuduftinu til manneldis á sama tíma í 2.595 evrum fyrir tonnið.

Aukning í mjólkurframleiðslu í heiminum á síðasta ári

Samkvæmt tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sam­einuðu þjóðanna (FAO), jókst mjólkurframleiðsla í heiminum um 2% á milli áranna 2019 og 2020 og endaði í 906 milljón tonnum. Aukning varð á öllum svæðum nema í Afríku.

Milliríkjaviðskipti með mjólk jukust um 1,2% á síðasta ári og námu 79 milljónum tonna í mjólkurígildum. Aukningin er að mestu til komin vegna aukins innflutnings Kína, Alsír, Sádi-Arabíu og Brasilíu. Þar af er Kína langstærsta innflutningsland á mjólkurvörum og fluttu þeir inn 17 milljónir tonna af mjólkurígildum í fyrra. Það er 7,4% aukning á milli ára sem skýrist af aukinni neyslu á íbúa að meðaltali. Þeir juku einnig verulega innflutning á mysudufti sem notað er í svínafóður.

Á síðasta ári var mest framleitt af mjólk í Asíu, eða 379 milljónir tonna, og nam aukningin þar 2,6%. Næstmest var framleitt í Evrópu, eða 236 milljónir tonna, og þar var aukningin 1,6% á milli ára. Norður-Ameríka var í þriðja sæti með 111 milljón tonn sem var 2,1% aukning frá 2019.

Þá jukust viðskipti á mjólkur­dufti, mysu og ostum verulega á síðasta ári, en sala á undanrennudufti og smjöri dróst saman.

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...