Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Minkalæða með hvolpa.
Minkalæða með hvolpa.
Mynd / EEE
Fréttir 22. nóvember 2019

Loðdýrarækt dregur úr kolefnisspori Íslendinga

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Samkvæmt skýrslu starfshóps um greiningu á framtíðarhorfum í minkarækt hefur nýting á fisk- og sláturhúsaúrgangi í greininni umtalsverð áhrif til að draga úr kolefnisspori. Nýting þessa hráefnis til fóðurgerðar í stað þess að urða það dregur úr kolefnisspori landsins samkvæmt útreikningum verkfræðistofunnar Eflu.
 
Minkarækt á í dag verulega undir högg að sækja vegna lágs skinnaverðs síðustu ár, en árin 2016 til og með 2019 hefur skinnaverð verið mun lægra en framleiðslukostnaður skinnanna. Meginástæða verðfallsins er offramleiðsla sem varð á heimsvísu á árunum 2011 til 2015. Þrátt fyrir erfiða stöðu er athyglisvert að samkvæmt úttekt Eflu verkfræðistofu, þá er áframhaldandi minkarækt hagstæð hvað varðar kolefnisspor Íslands. Þar er útreikningur á kolefnisspori byggður á sömu aðferðafræði og notuð er varðandi sauðfjárrækt.
 
Dregið úr losun með nýtingu á hráefni sem annars þyrfti að urða
 
Framleiðsla minkaskinna byggir á fóðri sem er að stærstum hluta samsett úr afgangshráefnum sem falla til við matvælaframleiðslu í sláturhúsum og fiskvinnslum. Þær úrvinnslustöðvar sem selja og geta selt fóður til fleiri aðila, hafa bæði getu og vilja til að vinna meira af hráefnum en nýtt eru í fóður í dag. 
 
Meðallosun minkaræktunar á Íslandi á árunum 2016–2018 var samkvæmt skýrslu Eflu verkfræðistofu um 2.060 tonn í CO2 ígildum. Losunin var nokkuð jöfn yfir tímabilið sé horft á losun á hvert framleitt skinn. Samkvæmt samantektinni sparar greinin umhverfinu 3.140 CO2 ígildistonn árlega með því að nýta lífrænan úrgang til fóðurgerðar í stað þess að hann sé urðaður. Það sparar um 144 milljónir í árlegan kostnað sem annars yrði vegna urðunar.
 
Þar sem umfang minkaræktunar hefur minnkað mikið á undanförnum árum hefur heildarlosunin minnkað töluvert. Losun metans og glaðlofts úr meltingarvegi og skít minkanna myndar samtals rúman helming kolefnissporsins. Þar fyrir utan er framleiðsla og innflutningur ýmissa íblöndunarefna í fóðrinu stærsti þátturinn, eða um 22% af kolefnissporinu. 
 
Fóðurverð til bænda hefur sveiflast nokkuð en árið 2018 var það 57 kr./kg að meðaltali hjá Fóðurstöð Suðurlands en 47 kr./kg að meðaltali hjá Fóðurstöð KS.  Bæði verð eru með flutningi til bænda. Í dag er fóðurverð með flutningi til bænda 45 kr. á kg hjá Fóðurstöð KS en 52 kr. á kg hjá Fóðurstöð Suðurlands. Hafa fóðurstöðvarnar verið að selja fóður með lítilli álagningu. 
 
 
Það kostar um 6.000 krónur að framleiða hvert skinn
 
Áætlaður kostnaður við framleiðslu hvers minkaskinns er um 6.000 kr. Þar af er fóður langstærsti hlutinn, eða um 42%, en um 50–52 kíló af fóðri þarf til að ala hvert dýr í sláturstærð.
 
Í minkarækt er skinnið megin afurðin og eru þau seld við hamarshögg á uppboði. Íslenskir minkabændur hafa nýtt uppboðshús Kopenhagen Fur í Danmörku til sölu sinna skinna.  
 
Skinnaverðið fór hæst í 12.593 krónur árið 2013
 
Á árinu 2008 voru flutt út 134.936 minkaskinn að verðmæti 502.501.664 krónur. Þá varð meðalverð á skinni 3.724 krónur. Árið 2011 voru flutt út 138.525 skinn fyrir rúmlega 1,1 milljarð króna. Þá var meðalverð á skinn 8.186 krónur. Á árinu 2013 var meðalverð á skinn komið í 12.593 krónur. Þá voru flutt út 174.463 skinn fyrir tæpa 2,2 milljarða króna. Síðan fór að halla undan fæti með lækkandi skinnaverði. 
 
Lægst fór skinnaverðið í 3.106 krónur árið 2018, en þá voru seld 159.122 skinn fyrir rúmlega 495 milljónir króna. Á yfirstandandi ári hefur verðið aðeins verið að stíga og meðalverðið komið í 3.275 krónur. Enn virðist því talsvert vanta upp á að 6.000 króna framleiðsluverði verði náð.
 
Hráefni frá sláturhúsum og fiskvinnslu sem nýtt er í minkarækt sparar losun gróðurhúsalofttegunda sem annars myndast ef þetta sama hráefni er urðað.  Myndir /EEE
 
Minkabændur gegna mikilvægu hlutverki í hringrásar­kerfi samfélagsins 
 
Einar E. Einarsson, formaður  Sambands íslenskra loðdýrabænda (SÍL), telur að ávinningurinn af loðdýrarækt með nýtingu þess hráefnis,  sem annars yrði að urða með ærnum tilkostnaði, samræmist vel loftslagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar. Í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er stefnt að því að urðun lífræns úrgangs verði bönnuð í framtíðinni. 
 
Skýrsla sem loðdýrabændur fengu Eflu verkfræðistofu til að vinna um kolefnisspor minkaræktarinnar staðfestir þetta. Þar segir m.a.:
 
„Minkaræktin hér á landi er ákveðinn hlekkur í hringrásarkerfi landsins, þar sem langstærsti hluti minkafóðurs er fisk- og sláturúrgangur, sem annars væri urðaður með tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Einnig er skítur minkanna notaður sem áburður a tún sem leiðir til minni innflutnings á tilbúnum áburði. Segja má að ef sláturúrgangurinn hefði verið urðaður og tilbúni áburðurinn framleiddur og fluttur til landsins, hefði losun gróðurhúsalofttegunda verið meiri en tvöföld á við núverandi losun minkaræktarinnar, þar sem fisk- og sláturúrgangur er nýttur sem fóður og minkaskítur sem áburður. Í heildina er því umhverfislegur ávinningur af minkaræktinni.“ 
 
Um 93–94% minkafóðurs er fisk- og sláturúrgangur
 
Langstærsti hluti minkafóðurs er fisk- og sláturúrgangur úr öðrum landbúnaðar- og sjávarútvegsgreinum, eða 93-94%. Þar kemur mest frá kjúklingarækt og fiskvinnslu (aðallega ýsa, þorskur, steinbítur og karfi), en einnig er notaður afskurður úr nautum, lömbum og svínum.  Þá er talsverðu af ýmsum öðrum kolvetnum blandað í fóðrið, eins og hveiti, byggi, barði og örum afgöngum úr bakaríum. Ýmsar gerðir  af olíu- og fituefnum, t.d. sojaolía, repjuolía, steikingafita frá veitingastöðum og lýsi er einnig notað ásamt sýru sem lengir líftíma fóðursins. Þar er oftast um að ræða ediksýru, brennisteinssýru og maurasýru.  
Minkunum eru gefnar staðlaðar vítamínblöndur samkvæmt almennum ráðleggingum og eru það einu fæðubótarefnin sem notuð eru. Lyf eru nær ekkert notuð nema þeirra sé sérstaklega krafist og er það þá samkvæmt leiðbeiningum dýralækna. Lyfjum er því ekki blandað í fóðrið að staðaldri og engar bólusetningar eru stundaðar í greininni að staðaldri.
 
Minkaræktin sparar innflutning á tilbúnum áburði
 
„Sé úrgangurinn ekki notaður í minkaræktina má gera ráð fyrir að hann sé urðaður. Urðun á lífrænum úrgangi hefur með sér nokkuð stórt kolefnisspor vegna mikillar metangasmyndunar. Færa má rök fyrir því að vegna notkunar á sláturúrganginum, sem annars yrði urðaður, stuðli minkaræktin að því að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda er minni en annars væri. Auk þess er minkaskítur nýttur sem áburður svo ekki þarf að flytja inn jafn mikinn tilbúinn áburð og annars væri. Minkabændur gegna því mikilvægu hlutverki í hringrásarkerfi samfélagsins,“ segir í skýrslu Eflu. 
 
Ráðherrar skipuðu starfshóp til að greina framtíðarhorfur
 
Skipaður var starfshópur þann 19. febrúar síðastliðinn til að greina framtíðarhorfur í minkarækt. Hópurinn var skipaður af Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.  Við vinnu sína var teyminu ætlað að eiga náið samstarf með fóðurstöðvum sem hafa milligöngu um útvegun fóðurs til minkabænda. Hópinn skipuðu þau Ásta Pálmadóttir, frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Kjartan Hreinsson, frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Arnar Már Elíasson frá Byggðastofnun og Einar E. Einarsson frá Samtökum loðdýrabænda. Teymið hefur nú skilað af sér skýrslu en haldnir voru 10 fundir um málið. 
 
Fjórar tillögur til að styðja við greinina
 
Starfshópurinn setti á blað fjórar tillögur sem ætlað er að mæta þeirri erfiðu stöðu sem minkaræktin er í um þessar mundir og um leið að styðja markmið ríkisstjórnarinnar til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í stað þess að eyða fjármunum í urðun sem veldur losun gróðurhúsalofttegunda er lagt til að þeir peningar verði nýttir til fóðurgerðar fyrir loðdýrabú og styrki þá um leið þessa búgrein.
 
Frá 2014 hefur minkabúunum fækkað um tvo þriðju, eða úr 31 í 10. Sumir loðdýrabændur hafa hætt starfsemi og þá tekið á sig áföllin af tekjutapinu, en önnur bú hafa hreinlega orðið gjaldþrota. Þar á meðal eru bú sem höfðu náð mjög góðum tökum á loðdýraræktinni og þóttu til fyrirmyndar í greininni. Helstu tillögur starfshópsins eru byggðar á núverandi stjórnarsáttmála og aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum frá september 2018. Þær eru eftirfarandi:
 
Gerður verði umhverfissamningur við greinina til þriggja ára með það að markmiði að nýta kosti hennar til eyðingar á lífrænum úrgangi frá matvælaframleiðendum.
 
Úrvinnslustöðvar hráefna til fóðurgerðar og aukinnar úrvinnslu á hráefnum verði sérstaklega efldar og styrktar.  Í það fari samtals 116 milljónir króna á ári.
 
Framleiðendur fái greiðslur fyrir minkaskítinn að sambærilegri upphæð og útreiknaður kostnaður kolefnisspors við framleiðslu og innflutning á samsvarandi magni af tilbúnum áburði.  Samtals 28 milljónir króna á ári.
 
Minkabændum verði tryggt jafnræði að sérstökum lánum Byggðastofnunar og að afborgun þeirra verði tryggð þau ár sem skinnaverð nær ekki tiltekinni upphæð. Heildarfjárhæð er óljós, en á 10 ára tímabili yrði hún ekki hærri en 10 milljónir króna á ári án vaxta.
 
Aukaafurðir úr minkaræktinni
 
Minkabændur hafa reynt að búa til hliðargreinar við minkaræktina og má þar t.d. nefna framleiðslu á græðandi smyrslum úr minkafitu, sem Urðarköttur í Skagafirði hefur t.d. markaðssett. Það bú tengist samnefndum rekstri minkabús formanns Samtaka íslenskra loðdýrabænda. Einnig hefur verið reynt að framleiða lífdísil úr fitunni sem skröpuð er innan af leðurhlið skinnanna, en árangurinn er misjafn. Sú fita sem ekki er nýtt á þennan hátt er urðuð.  
 
Skrokkar minkanna sem til falla á Íslandi hafa að mestu verið urðaðir. Hér tíðkast ekki að framleiða úr minkakjöti fæðu til manneldis, þó slíkt þekkist m.a. í Kína og Víetnam. Víða erlendis eru skrokkar þó endurunnir og úr þeim gert kjötmjöl sem notað er í gæludýrafóður. Á Íslandi var eitt sinn reynt að þurrka hluta af skrokkum og gera úr þeim gæludýrafóður. Þeirri framleiðslu hefur nú verið hætt og eru því nær allir minkaskrokkar urðaðir hér á landi. Örlítið fer í kjötmjölsframleiðslu en hlutfallið er óþekkt og því eru allir skrokkar sagðir urðaðir í dag. Þá er hver skrokkur tæp 2 kg, en eldi hans er búið að farga 48 kg af hráefnum sem annars hefðu verið urðuð. 
 
Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...