Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
„Okkur kúabændum líður svolítið eins og þessum núna,“ segir Carrie Mess bóndi í Wisconsin.
„Okkur kúabændum líður svolítið eins og þessum núna,“ segir Carrie Mess bóndi í Wisconsin.
Mynd / dairycarrie.com
Fréttir 8. apríl 2020

Margir flöskuhálsar í bandarískri mjólkurframleiðslu

Höfundur: ehg/TB – dairycarrie.com

Bandarískir kúabændur hafa verulegar áhyggjur þessa dagana af verðþróun á mjólk og því að framboð fylgi ekki eftirspurn. Lýsti einn þeirra, Carrie Mess, frá Wisconsin, nýlega í grein á bloggsíðu sinni undir yfirskriftinni: „Af hverju eru kúabændur að hella niður mjólk þegar mjólkurkælirinn er tómur?“

Carrie er harðorð í grein sinni og í hálfgerðum uppgjafartón vegna COVID-19-ástandsins. Segir hún bændur hafa fengið misvísandi skilaboð hvort mjólkin þeirra verði yfirleitt sótt, hvort hella þurfi henni niður og hvort eða hvernig greiðslum verði háttað í ástandinu. Sé þetta eðlilega mikil móðgun við greinina sem horfi á mikla sóun og tjón vegna lægra verðs fyrir afurðirnar. Á sama tíma séu sumar verslanir með tómar mjólkurhillur og aðrar takmarka hversu mikla mjólk neytendur geta keypt.


Carrie Mess með fjölskyldu sinni. Mynd/Paul Gero

7% af mjólk er neytt í skólum

Það er kórónuveirufaraldurinn sem skapar þessar óvenjulegu aðstæður. Carrie útskýrir það betur: „Í venjulegu árferði fer stór hluti af mjólkurvöruneyslu fram í skólum og á veitingastöðum en um 7 prósent af mjólk er neytt í skólum landsins. Þar að auki fer gríðarlegt magn af til dæmis sýrðum rjóma í mexíkósku veitingastaðina, ostur á pítsustaðina og mjólk í kaffið á kaffihúsunum.“ Nú er allt gjörbreytt og neyslumynstur almennings með allt öðrum hætti en áður.

Framleiðslulínur sem anna ekki eftirspurn á meðan aðrar standa ónotaðar

Þegar veitingastaður pantar sýrðan rjóma panta þeir í kílóavís en þegar fólk verslar sambærilega vöru í matvöruverslun er hún keypt í lítilli dós. Í framleiðslunni hjá mjólkursamlaginu eru mismunandi framleiðslulínur fyrir stærri pantanir af sýrðum rjóma og aðrar fyrir dósapökkun. Eftir að kórónufaraldurinn skall á eru fáar pantanir á sýrðum rjóma í stærri einingum svo mjólkursamlagið neyðist til að hætta að pakka vörunni í stærri einingum því fáir kaupa hana. Þess í stað er einblínt á dósaframleiðsluna því þar er aukin eftirspurn. Að endingu verður skortur á dósunum og birginn sem útvegar þær á í erfiðleikum með að afhenda þær. Hjá honum hefur mögulega hægt verulega á framleiðslunni því starfsfólkið í dósaverkmiðjunni þarf að vera heima með börnunum sínum. Þetta þýðir að mjólkursamlagið sem vinnur sýrða rjómann getur ekki framleitt eins og markaðurinn þarf. Keðjuverkun verður til þess að framleiðsluferlarnir hökta.

Sama er að segja um drykkjarmjólkina. Á meðan verslanirnar kalla eftir meiru í hillur sínar reyna samlögin að framleiða sem mest þau mega af gallons og hálfs gallons drykkjarmjólk. Framleiðslulínur sem er ætlað að pakka skólamjólkinni eru bara keyrðar einn dag í viku því það annar allri eftirspurn. Hina daga vikunnar stendur sú framleiðslulína ónotuð og þess vegna hlaðast upp birgðir af hrámjólk eða henni er hellt niður.

Breytingar á einni nóttu – enginn útflutningur og hægist á dreifingu

Það eru fleiri þættir sem hafa áhrif á keðjuna eins og til dæmis útkeyrsla á vörunum sem tekur lengri tíma vegna færra starfsfólks við að hlaða á flutningabílana. Það er ýmist heima í sóttkví eða að sinna börnum sem ekki fara í skólann.

Það eru alls staðar flöskuhálsar að mati Carrie, það tekur tíma að breyta verksmiðjunum í að framleiða það sem þörf er á þegar það verða svo skyndilegar breytingar á neyslumynstrinu.

Það sem hefur einnig mikil áhrif er að fólk fer að hamstra og þá þarf verslunin að takmarka hvað hver viðskiptavinur má kaupa mikið af mjólk. Annar stór þáttur sem veldur því að hægist á sölu á amerískum mjólkurvörum er að þær eru seldar um allan heim. Vörur sem áttu til dæmis að fara til Kína eða Mexíkó er ekki hægt að flytja út og þær fylla það litla geymslupláss sem til er vítt og breitt um landið.

Er hægt að gefa mjólkina?

Því spyr Carrie sig að því af hverju bændur og mjólkuriðnaðurinn séu að hella niður mjólk í stað þess að gefa hana þeim sem þess þurfa. Það er hægara sagt en gert því mjólkina þarf að vinna áður en hún er gefin. Forystumenn í landbúnaði í Bandaríkjunum vinna nú að lausnum með stjórnvöldum sem ætlað er að milda höggið fyrir bændur. Alls kyns hugmyndir eru uppi á borðinu, s.s. uppkaup á hráefni, bætur og að safna mjólkurdufti á lager.

Einnig er unnið að því að fá verslanir til að hætta magntakmörkunum sem hver og einn viðskiptavinur má kaupa af mjólkurvörum. Þar að auki eru ákveðin verkefni í gangi til að auka mjólkurneyslu að nýju. T.d. að útvega skólum fleiri mjólkurkæla. Allt sé þetta gert á þessum skrýtnu og erfiðu tímum svo að kúabændur þurfi ekki að sjá framleiðslu sína fara beint í svelginn.

Carrie Mess veitti góðfúslegt leyfi sitt fyrir endursögn greinarinnar og birtingu meðfylgjandi mynda.

Norrænt samstarf um fæðuöryggi
Fréttir 6. ágúst 2024

Norrænt samstarf um fæðuöryggi

Norðurlöndin hafa tekið upp formlegt samstarf á sviði fæðuöryggis.

Greina þörf á tæknilausnum
Fréttir 31. júlí 2024

Greina þörf á tæknilausnum

Evrópskt netverk um stafræna nýsköpun og gagnatækni fyrir búfjárrækt sem byggir ...

Allt fæst í kaupfélaginu
Fréttir 30. júlí 2024

Allt fæst í kaupfélaginu

Ólíkt því sem áður var eru verslanir í eigu kaupfélaga orðnar sjaldgæfar. Á Hvam...

Stórþörungar í matvæli
Fréttir 29. júlí 2024

Stórþörungar í matvæli

Verkefninu Seafoodture, um stórþörunga í matvæli, hefur verið hleypt af stokkunu...

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.