Norrænt samstarf um fæðuöryggi
Norðurlöndin hafa tekið upp formlegt samstarf á sviði fæðuöryggis.
Sjávarútvegs-, landbúnaðar-, matvæla- og skógræktarráðherrar Norðurlandanna undirrituðu nýverið sameiginlega yfirlýsingu varðandi norrænt samstarf á sviði fæðuöryggis. Í yfirlýsingunni fjalla ráðherrarnir um mikilvægi þess að tryggja fæðuöryggi komandi kynslóða og að sú þörf muni leggja miklar kröfur á herðar norræna samstarfsins.
Hugað að aðfangakeðjum
Í tilkynningu segir að á meðal þess sem ráðherrarnir vilja stuðla að séu traustari aðfangakeðjur með aukið áfallaþol, að þróa sambandið á milli hins opinbera og einkageirans, vinna að veikleikagreiningu fyrir fiskveiðar og fiskeldi; efla vinnuna innan One Health (sem fjallar um heilbrigði fólks og dýra, fæðu og umhverfis) og efla samstarfið um viðbúnað á sviði landbúnaðar- og skógræktar. Ráðherrarnir vilji auk þess standa vörð um vinnu Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar (NordGen) við líffræðilega innviði og sérstaklega er nefnd þörfin á því að vera á verði gagnvart fjölþáttaógnum sem kunna að ógna aðfangakeðjum Norðurlandanna.
Samræma framtíðarverkefni
Í yfirlýsingunni, sem kennd er við Karlstad, er einnig fjallað um þörfina á að samræma framtíðarverkefni og fyrri samstarfsverkefni um viðbúnaðarmál og hún byggir m.a. á Hagayfirlýsingunum tveimur frá 2009 og 2013 og yfirlýsingu norrænu samstarfsráðherranna um samstarf á krísutímum frá 2022.