Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.
Í samráðsgátt stjórnvalda er nú opið til athugasemda frumvarp um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun. Er um að ræða m.a. lagfæringar á reiknireglum auk þess sem að lengja á gildistíma laganna.
Lög nr. 160/2011 um svæðisbundna flutningsjöfnun tóku gildi 1. janúar 2012 og hafa það markmið að styðja framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.
Byggðastofnun fer með framkvæmd laganna og veitir styrki til framleiðenda á grundvelli úthlutunarreglna sem mælt er fyrir um í lögunum og reglugerð nr. 121/2019 um flutningsjöfnunarstyrki.
Málið verður í samráðsgáttinni til miðs ágúst.