Matvælaeftirlit yrði á ábyrgð MAST
Heilbrigðiseftirlit munu færast til stofnana ríkisins verði að tillögum starfshóps um fyrirkomu lag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælaeftirliti.
Það er niðurstaða skýrslu sem Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra boðaði til kynningar um málefnið sl. þriðjudag.
Tillagan felur í sér að allt eftirlit með hollustuháttum og mengunarvörnum ásamt matvælaeftirliti verði hjá stofnunum ríkisins. Í dag er dagleg framkvæmd eftirlitsins að verulegum hluta í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga en meginábyrgð á framkvæmd og samræming hjá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun.
„Það er ljóst eftir mörg og ítarleg samtöl við aðila sem eftirlitið snertir frá ýmsum hliðum að ósamræmi í framkvæmd eftirlits er of mikið, stjórnsýsla er of flókin og yfirsýn skortir,“ segir í skýrslunni.
Í tillögu starfshópsins er hins vegar gert ráð fyrir því að ábyrgð á eftirliti með hollustuháttum og mengunarvörnum færist frá heilbrigðiseftirliti til Umhverfisstofnunar og eftirlit með matvælum færist frá heilbrigðiseftirliti til Matvælastofnunar. Telur hópurinn að sú sviðsmynd sé líklegust til að tryggja nauðsynlega samræmingu, að því er fram kemur í skýrslunni.
Þar kemur jafnframt fram að horft hafi verið til byggðarsjónarmiða varðandi mögulega færslu verkefna frá sveitarfélögum til ríkisstofnana. „Að því gefnu að starfsfólk sem nú sinnir opinberu eftirliti hjá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga fái forgang um störf hjá miðlægum eftirliststofnunum telur starfshópurinn þá hættu vera óverulega að opinberum störfum á landbyggðinni fækki.“