Matvælastefna til umsagnar í samráðsgátt
Drög að þingsályktunartillögu um matvælastefnu til ársins 2040 voru sett í samráðsgátt stjórnvalda 10. febrúar til umsagnar.
Þar er stefnunni lýst þannig að henni sé ætlað að vera leiðandi í ákvarðanatöku til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja fæðu- og matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru. Drög stefnunnar voru kynnt á Matvælaþingi í Hörpu 22. nóvember. Þar voru fengnir aðilar úr margvíslegum áttum til að ræða og gagnrýna stefnuna í heild sinni, auk þess sem opið var fyrir spurningar almennings.
Umræður á Matvælaþingi voru svo hafðar að leiðarljósi við yfirferð stefnunnar auk athugasemda sem komu fram eftir Matvælaþing.
Hægt er að veita umsagnir um stefnuna til föstudagsins 24. febrúar.