Meðalhiti í heiminum 2015 sá hæsti frá upphafi mælinga
Samantekt á hitatölum frá veðurstöðvum víða um heim benda til að meðalhiti árið 2015 verði sá hæsti frá upphafi mælinga.
Mælingarnar sýna að hitastig síðustu tólf mánaða er hærra en nokkru sinni áður og að meðalhitinn á jörðinni hafi hækkað öll árin frá 2011 til 2015. Ástæða hækkunarinnar er rakin til veðurfyrirbærisins El Nino og losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum sem valda hækkun á lofthita.
0,73° á Celsíus hærra en í viðmiðunarárum
Samkvæmt því sem segir í yfirlýsingu frá Alþjóðaveðurfræðistofnunni var hiti 2015 við jarðvegsyfirborð 0,73° á Celsíus hærri en meðaltal áranna 1961 til 1990 og 1° á Celsíus hærri en meðaltal á Bretlandseyjum árin 1880 til 1899.
Mælingar sýna einnig að magn koltvísýrings í andrúmslofti hefur náð nýjum hæðum og að síðastliðið vor hafi magn þess farið í fyrsta skiptið yfir 400 hluta úr milljón á norðurhveli.
Mörg met slegin
Að mati Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar er líklegt að fjöldi ólíkra hitameta verði sleginn árið 2015. Þar á meðal er líklegt að hiti sjávar verði sá hæsti frá upphafi mælinga. Samanburður á hitatölum undanfarinna áratuga þykja sanna að brennsla á jarðefnaeldsneyti og losun koltvísýrings vegna þess sé helsti orsaka valdur hlýnunarinnar. Auk þess sem hlýnun af völdum El Nino hefur verið óvenjumikil á yfirstandandi ári. Spár gera ráð fyrir að fyrirbærið El Nino muni verða enn öflugra árið 2016 og að enn eitt hitametið verði slegið á næsta ári.
Hitabylgjur verða algengar 2016
Búast má við að hitabylgjur muni valda vandræðum víða um heim á næsta ári. Til dæmis í Evrópu, Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum og að á svæðum á Indlandi geti hitinn farið yfir 45° á Celsíus í langan tíma í einu.
Niðurstöðurnar eru birtar í tengslum við loftslagsráðstefnuna í París.