Meðalneysla um 20 kíló
Í nýlegri skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri, sem kallast Markmið og forsendur sauðfjárræktarsamnings, þar sem fjallað er um stöðu innanlandsmarkaðar fyrir sauðfjárafurðir, segir að í dag sé meðalneysla landsmanna á kindakjöti um 20 kíló á ári.
Neysla á kjöti hefur breyst mikið undanfarna áratugi og hefur neysla á kindakjöti dregist saman en neysla á alifugla- og svínakjöti aukist.
Kindakjöt hefur hækkað
„Árið 1993 var lambakjöt ódýrasta kjötið á markaðnum en árið 2014 var það dýrara en svína- og alifuglakjöt og var nær nautakjöti í verði ásamt unninni kjötvöru en svína- og alifuglakjöti.“
Viðkvæmt fyrir verðbreytingum
Aukin innflutningur og breyttar matarvenjur hafa minnkað neyslu kindakjöts. Margt bendir til að eftirspurn eftir lambakjöti sé næmari fyrir verðbreytingum annarra kjöttegunda en breytingum á kindakjötinu sjálfu. Samkvæmt því sem segir í skýrslunni hafa auknar tekjur almennings tilhneigingu til að auka eftirspurn eftir kindakjöti.
Niðurstaða kafla skýrslunnar sem fjallar um eftirspurn eftir lambakjöti innanlands er að það sé óverðteygin, jafnvel verulega óverðteygin, vara en á saman tíma að markaðurinn þoli einhverja hækkun á verði lambakjöts.
Greiðslur til bænda
Tekjur af kindakjöti til bænda koma úr tveimur áttum. Annars vegar greiðslur sláturhúsanna fyrir innlegg og hins vegar stuðningur ríkisins. Samkvæmt skýrslunni var skipting skilaverðs til bænda árið 2012 52% beingreiðslur frá ríkinu en 48% frá sláturhúsi.