Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Fréttir 12. maí 2020
Meiri hrossaútflutningur á fyrri hluta ársins 2020 en í áratug
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 voru 494 hross flutt úr landi, eða 70 fleiri en á sama tímabili í fyrra. Það er 17% aukning samkvæmt fréttatilkynningu Horses of Iceland. Þá voru fleiri hross flutt út fyrstu þrjá mánuði ársins 2020 en á sama tímabili nokkurt annað ár síðastliðinn áratug.
Kemur þessi góði árangur í útflutningi á íslenskum hrossum í kjölfar mikils útflutnings á síðasta ári. Árið 2019 var besta árið í hrossaútflutningi í níu ár.
Fólk getur keypt hross frá Íslandi og látið flytja þau nánast hvert sem er, þrátt fyrir ferðatakmarkanir sökum COVID-19 faraldursins.
Árið 2019 var besta árið í hrossaútflutningi í níu ár, en þá voru 1509 hross flutt úr landi, fleiri hross en nokkuð annað ár síðasta áratug að 2010 undanskildu. Að meðaltali er verðmæti útfluttra hrossa um einn milljarður á ári. Í fyrra – og einnig árin á undan.
Fóru langflest hross, eða 640, til Þýskalands. Þar á eftir kom Svíþjóð með 224 hross og Danmörk með 172 hross. Horses of Iceland hefur einmitt haft þessa markaði í forgangi í sínu markaðsstarfi, auk þess að sækja á aðra og nýja markaði.
Á fyrsta ársfjórðungi 2020 voru 494 hross flutt úr landi: 169 í janúar, 157 í febrúar og 168 í mars. Í tölunum frá mars 2020 eru 27 hross sem flutt voru út í rannsóknarskyni. Samanlagt eru þetta 70 fleiri hross en flutt voru út á fyrsta ársfjórðungi 2019, eða 17% aukning milli ára.
Árið 2019 voru 424 hross flutt úr landi á fyrstu þrem mánuðunum. Það voru 120 í janúar, 132 í febrúar og 172 í mars. Þetta kemur fram í samantekt frá WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins.
„Fínt að gera“
„Það hefur verið fínt að gera,“ staðfestir Eysteinn Leifsson hjá Export Hestum.
„Það er klárt mál að Horses of Iceland hjálpar gríðarlega mikið til við að vekja athygli á hestinum á heimsvísu. Þetta er verðmætt, að vera í sameiginlegu markaðsátaki. Ein og sér hefðum við [hagsmunaaðilar] ekki þetta afl eða þennan sýnileika sem Horses of Iceland hefur sannarlega veitt okkur,“ segir Eysteinn. „Við sjáum líka hvað fólk fylgist mikið með – hvað verkefnið hefur marga fylgjendur á samfélagsmiðlum – sem styður við markaðsstarfið. Auk þess er farið á sýningar. Allt er gert á faglegan og flottan hátt.“
Horses of Iceland
Markaðsverkefnið Horses of Iceland var stofnsett árið 2015 til að auka verðmætasköpun í tengslum við íslenska hestinn, styrkja ímynd hans í vitund fólks um allan heim og byggja upp sterkt vörumerki, Horses of Iceland.
Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins og starfar með verkefnastjórn sem skipuð er fulltrúum úr hestasamfélaginu, Félagi hrossabænda (FHB), Landssambandi hestamannafélaga (LH), Félagi tamningamanna (FT), auk útflutningsaðila og fulltrúa frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Samtökum ferðaþjónustunnar.
Þann 2. apríl síðastliðinn var samstarfssamningur Horses of Iceland og íslenska ríkisins formlega framlengdur um 18 mánuði.