Mest gefandi að rækta fyrir fólkið sem við erum í beinum samskiptum við
Margt ferðafólk sem lagt hefur leið sína um Borgarfjörð á sumar ferðalögum kannast við sölubásinn við Sólbyrgi á Kleppjárnsreykjum – þar sem hægt hefur verið að ná sér meðal annars í nýtínd jarðarber, kryddjurtir og salat.
Síðasta sumar færðist aftur líf í hann, eftir að garðyrkjubændurnir hættu nær alveg ræktun um tveggja ára skeið – og fyrir skemmstu komu fyrstu berin í básinn á þessu sumri.
Á árunum frá 2019 til 2020 stóð básinn því að mestu auður, þegar garðyrkjubændurnir Einar Pálsson og Kristjana Jónsdóttir lögðu niður alla jarðarberjaframleiðslu. Þau fóru hins vegar aftur af stað á síðasta ári og framleiða nú nokkur tonn á ári – aðallega fyrir ferðafólkið sem á leið um þorpið, að þeirra sögn.
Óhagstæð rekstrarskilyrði og tjón
Árin 2015 til 2018 voru þau stórhuga og hófu að framleiða jarðarber allt árið með öflugri heilsárs raflýsingu enda seldist öll innlend framleiðsla auðveldlega, en lentu þá í tjóni á stöðinni í stórviðri auk þess sem ytri rekstraraðstæður voru þeim óhagstæðar. Einkum nefna þau ósanngjörn kjör sem RARIK býður upp á við dreifingu á rafmagni til þeirra.
Þau segja nú að jarðarberjaræktunin sé orðin algjör aukabúgrein, enda sé vélaverkstæði rekið á Sólbyrgi og þau annist einnig skólaakstur. Segja megi að þau séu komin aftur á þann upphafsreit frá 2013 þegar þau hófu ræktun, það umfang sem þau hafi í raun alltaf kunnað best við. „Núna höfum við þetta þannig að við tvö ráðum við þetta,“ segir Einar.
Heilmikil tækifæri í berjaræktun á Íslandi
„Það eru heilmikil tækifæri í berjaræktun á Íslandi og markaðurinn kallar eftir innlendri framleiðslu. En við hættum að vera með raflýsingu meðal annars vegna þess að okkur líkaði ekki ósveigjanleikinn hjá RARIK,“ segir Einar. Kristjana bætir við að þeim hafi verið boðið upp á þau kjör að þurfa að borga fyrir lágmarks dreifingarkostnað rafmagns allt árið, þótt þau hefðu jafnvel ekki hug á að notfæra sér þjónustuna nema hluta af árinu.
„Á tímabili upp úr árinu 2017 varð svo líka nokkuð hörð samkeppni á þessum markaði, eftir að Costco kom inn á hann, sem þrengdi talsvert að innlendu framleiðslunni,“ segir Kristjana. „Við ætlum því bara að einbeita okkur að því að sinna ferðafólkinu og nærsamfélaginu. Dóttir okkar og tengdasonur hafa til dæmis keypt Hönnubúð í Reykholtsdal og við verðum með okkar vörur þar til sölu,“ bætir hún við – en þau eru með nokkra heimavinnslu úr þeim afurðum sem eru framleiddar í Sólbyrgi, meðal annars jarðarberjasultu og sýróp.
Hún segir að þau séu í raun komin í hring í sinni ræktun og hugmyndafræðinni í kringum hana. „Við hugum nú fyrst og fremst að því að rækta fyrir fólkið sem við eigum í beinum samskiptum við – og það er miklu meira gefandi heldur en að vera að standa í einhverri verksmiðjuframleiðslu, með tilheyrandi stanslausu streði. Við verðum að gera það sem við höfum gaman af að gera.“