Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Einar Pálsson og Kristjana Jónsdóttir í Sólbyrgi á Kleppjárnsreykjum hafa gert ræktunina að aukabúgrein.
Einar Pálsson og Kristjana Jónsdóttir í Sólbyrgi á Kleppjárnsreykjum hafa gert ræktunina að aukabúgrein.
Mynd / smh
Fréttir 11. júlí 2022

Mest gefandi að rækta fyrir fólkið sem við erum í beinum samskiptum við

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Margt ferðafólk sem lagt hefur leið sína um Borgarfjörð á sumar­ ferðalögum kannast við sölubásinn við Sólbyrgi á Kleppjárnsreykjum – þar sem hægt hefur verið að ná sér meðal annars í nýtínd jarðarber, kryddjurtir og salat.

Sölubásinn við Sólbyrgi var fullur af góðgæti þegar ljósmyndara bar að garði.

Síðasta sumar færðist aftur líf í hann, eftir að garðyrkjubændurnir hættu nær alveg ræktun um tveggja ára skeið – og fyrir skemmstu komu fyrstu berin í básinn á þessu sumri.

Á árunum frá 2019 til 2020 stóð básinn því að mestu auður, þegar garðyrkjubændurnir Einar Pálsson og Kristjana Jónsdóttir lögðu niður alla jarðarberjaframleiðslu. Þau fóru hins vegar aftur af stað á síðasta ári og framleiða nú nokkur tonn á ári – aðallega fyrir ferðafólkið sem á leið um þorpið, að þeirra sögn.

Óhagstæð rekstrarskilyrði og tjón

Árin 2015 til 2018 voru þau stórhuga og hófu að framleiða jarðarber allt árið með öflugri heilsárs raflýsingu enda seldist öll innlend framleiðsla auðveldlega, en lentu þá í tjóni á stöðinni í stórviðri auk þess sem ytri rekstraraðstæður voru þeim óhagstæðar. Einkum nefna þau ósanngjörn kjör sem RARIK býður upp á við dreifingu á rafmagni til þeirra.

Þau segja nú að jarðarberja­ræktunin sé orðin algjör aukabú­grein, enda sé vélaverkstæði rekið á Sólbyrgi og þau annist einnig skólaakstur. Segja megi að þau séu komin aftur á þann upphafsreit frá 2013 þegar þau hófu ræktun, það umfang sem þau hafi í raun alltaf kunnað best við. „Núna höfum við þetta þannig að við tvö ráðum við þetta,“ segir Einar.

Heilmikil tækifæri í berjaræktun á Íslandi

„Það eru heilmikil tækifæri í berjaræktun á Íslandi og markaðurinn kallar eftir innlendri framleiðslu. En við hættum að vera með raflýsingu meðal annars vegna þess að okkur líkaði ekki ósveigjanleikinn hjá RARIK,“ segir Einar. Kristjana bætir við að þeim hafi verið boðið upp á þau kjör að þurfa að borga fyrir lágmarks dreifingarkostnað rafmagns allt árið, þótt þau hefðu jafnvel ekki hug á að notfæra sér þjónustuna nema hluta af árinu.

Fyrstu berin í Sólbyrgi þetta sumarið koma fremur seint, þar sem engin raflýsing er nú í húsunum.

„Á tímabili upp úr árinu 2017 varð svo líka nokkuð hörð samkeppni á þessum markaði, eftir að Costco kom inn á hann, sem þrengdi talsvert að innlendu framleiðslunni,“ segir Kristjana. „Við ætlum því bara að einbeita okkur að því að sinna ferðafólkinu og nærsamfélaginu. Dóttir okkar og tengdasonur hafa til dæmis keypt Hönnubúð í Reykholtsdal og við verðum með okkar vörur þar til sölu,“ bætir hún við – en þau eru með nokkra heimavinnslu úr þeim afurðum sem eru framleiddar í Sólbyrgi, meðal annars jarðarberjasultu og ­sýróp.

Hún segir að þau séu í raun komin í hring í sinni ræktun og hugmyndafræðinni í kringum hana. „Við hugum nú fyrst og fremst að því að rækta fyrir fólkið sem við eigum í beinum samskiptum við – og það er miklu meira gefandi heldur en að vera að standa í einhverri verksmiðjuframleiðslu, með tilheyrandi stanslausu streði. Við verðum að gera það sem við höfum gaman af að gera.“

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...