Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Fréttir 18. september 2015
Mikil ásælni í ræktarland
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Það hrikti í öllu efnahagskerfi heimsbyggðarinnar mánudaginn 25. ágúst þegar verðbréf hríðféllu á markaði í Kína. Mikil óvissa er um framhaldið og fjárfestar reyna að finna tryggari bakgrunn fyrir sitt fjármagn en þá fölsku froðu sem oft einkennir hlutabréf og önnur verðbréf.
Á liðnum árum hafa fjárfestar víða um lönd verið að átta sig á að einhver besta tryggingin er í grunni matvælaframleiðslu heimsins. Fólk mun alltaf þurfa mat hvernig svo sem ástand fjármálakerfisins er og pólitískar sveiflur í heiminum. Því er undirstaða matvælaframleiðslunnar, þ.e. ræktarlandið sjálft, líklega besta tryggingin sem völ er á. Það verður aldrei verðlaust, nema þá að menn eyðileggi landið með eiturefnum eða fórni því á annan hátt. Án efa verða vatnsréttindi sífellt verðmætari og næst á óskalista fjárfesta. Ekki er heldur laust við að farið sé að örla á vaxandi áhuga peningamanna á íslenskum bújörðum.
Samkvæmt tölum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) er nýtanlegt landbúnaðarland um 33% alls þurrlendis jarðar eða nær 14 milljónir ferkílómetra, en einungis 9,3% eru talin hæf til akuryrkju.
Þetta land hefur vakið áhuga áhættufjárfesta, fjárfestingarfélaga og stórfyrirtækja sem ein öruggasta fjárfestingarleið sem til sé. Það þurfi jú alltaf að framleiða mat. Talið er að á næstu misserum og árum muni matvælaverð hækka mikið vegna hækkandi leigu á ræktarlandi sem er í auknum mæli að lenda í höndum fjárfesta.
Þjóðir heims reyna að tryggja sér aðgengi að mat
Fjöldi þjóða hefur sett sér það markmið að eignast ræktarland utan sinna landamæra. Þar hafa m.a. verið nefnd arabaríkin við Persaflóa, Kína, Suður-Kórea, Indland, Japan, Bandaríkin og fleiri lönd.
Aukin átök um eign á ræktarlandi
Margvíslegar fréttir hafa borist af uppkaupum á ræktarlandi á liðnum árum. Eða því sem kallað hefur verið „Land Grabbing“, það er þegar peningamenn hrifsa til sín land í skjóli fjárhagslegrar stöðu sinnar. Sumir hafa fullyrt að þessar fréttir væru verulega ýktar. Svo virðist samt sem yfirtaka og uppkaup erlendra fjárfesta á landi kunni m.a. að vera ein af undirrótum þess sem er nú að gerast í Úkraínu. Eitt er víst að þar eru Rússar að missa mikilvæg fyrri ítök í sinni gömlu matarkistu.
Þjóðverjar áhyggjufullir
Fréttamiðlar Deutsche Welle (DW) í Þýskalandi, greindu frá því 2011 að Ilse Aigner, þáverandi landbúnaðarráðherra Þýskalands (2009–2013) og fyrrverandi ráðgjafi Angelu Merkel þýskalandskanslara, að þjóðir heims yrðu að fara að verja sína þegna fyrir ásælni fjárfesta í land (land grabbing). Benti hún á að á árinu 2010 hafi Kínverjar keypt yfir 2,8 milljónir hektara af landi í Kongó. Fjölmargar aðrar þjóðir hafi tekið þátt í svipuðum kaupum, einnig Þjóðverjar. Ríkin væru dregin áfram af væntingum um að ná til sín sífellt meira landi til að framleiða mat fyrir sínar eigin þjóðir. Þetta var einmitt eitt meginstefið á ársfundi FAO í Róm það sama ár sem ráðherrann var þátttakandi í. Sagði Aigner þessi jarðakaup hluta af þeim vanda sem skapaðist vegna hlýnunar loftslags.
Lítið hægt að gera
Þá var Ilse Aigner spurð um hvort FAO hefði nokkuð að segja um að 50 milljónir hektara hafi þegar verið keyptir upp í Afríku og hvort það væri ekki of seint að gera eitthvað í málinu.
„Það eina sem við getum gert er að koma í veg fyrir sölu á meira landi, nema salan sé beinlínis til hagsbóta fyrir íbúana. Það er engin leið að þvinga þjóðir til slíks í gegnum frjálsa samninga, en við nýtum þróunaraðstoð til að reyna að koma á samvinnu sem gæti haft einhver áhrif.“
Barist fyrir afléttingu banns á landsölu til útlendinga í Úkraínu
Eini gallinn frá sjónarhóli fjárfesta er að æ fleiri lönd eru farin að setja takmarkanir á landakaup útlendinga. Þar má t.d. nefna Brasilíu, Argentínu og fleiri ríki Suður-Ameríku og í Austur-Evrópu eins og Ungverjaland. Tekist hefur verið á um málið í Úkraínu þar sem mikil þörf er á erlendu fjármagni. Þar sem slíkar fjárfestingar eru ekki heimilar reyna fjárfestar að fara aðrar leiðir, ýmist með því að fá innlenda aðila til að leppa fyrir sig viðskipti, eða ná langtíma leigusamningum með kaupréttarákvæðum.
Í október 2012 var banni á kaupum útlendinga á landi í Úkraínu, öðru en ræktarlandi, aflétt. Í maí 2015 hvatti viðskiptaráð Úkraínu (UCAB) stjórnvöld til að aflétta einnig banni við kaupum útlendinga á ræktarlandi í gegnum sérstakan landakaupamarkað sem tæki til starfa 1. janúar 2016. Þannig væri hægt að laða að erlent fjármagn til að laga efnahagsstöðu landsins.
Slíkt bann, eða öllu heldur frestur á heimild til landsölu, hefur gilt um áratugi. Var það fest í lög 2004 og framlengt síðan á þriggja ára fresti. Það mun að óbreyttu renna út 31. desember næstkomandi. Núverandi landbúnaðarráðherra, Olexiy Pavlenko sagði í apríl að að bannið kynni að verða framlengt. Mikið baktjaldamakk virðist vera í gangi til að reyna að tryggja að bannið verði ekki framlengt.
Hvað býr að baki viðskiptabanns?
Mikil umræða hefur verið um viðskiptabann Rússa á íslensk matvæli sem kom í kjölfar viðbragða Rússa við viðskiptabanni Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sem sett var á um mitt sumar 2014. Hvað raunverulega liggur að baki þessu viðskiptabanni er erfitt að segja en fróðlegt er að skoða málið í samhengi við það sem er að gerast í viðskiptum með ræktarland víða um heim.
Athygli vekur að bannið nær einkum til matvæla auk sumra tegunda hergagna. Gas er t.d. undanskilið. Það sem átti að setja pólitískan þrýsting á Rússa virðist vera að snúast upp í andhverfu sína. Rússar tóku strax þá stefnu að efla eigin landbúnað sem þýðir að danskir, finnskir og pólskir bændur eru trúlega búnir að tapa þar umfangsmikilli sölu landbúnaðarafurða sinna til langrar framtíðar.
Átökin um svörtu moldina
Á undanförnum árum hafa borist fréttir af ásælni stórfyrirtækja í Evrópu, Bandaríkjunum og Kína í ræktarland í Póllandi og í Úkraínu. Pólskir bændur hafa mótmælt þessu harðlega á undanförnum misserum eins og ítrekað hefur verið greint frá í Bændablaðinu.
Í Úkraínu er ásælni útlendinga enn meiri, enda þykir ræktarland þar vera eitt það besta í heimi. Svarta moldin (Black Soil) er það sem einkennir ræktarland Úkraínu. Þar er talið að finna megi um 30% af allri svartri mold heimsins, eða um 42 milljónir hektara. Þar er jafnframt talin vera vagga akuryrkjumenningarinnar í heiminum.
Íbúar Úkraínu fyrir utan Krímskaga töldust þann 1. júlí síðastliðinn vera rúmlega 42,8 milljónir. Um 31% íbúanna lifa í dreifbýlinu. Ræktanlegt land á íbúa er mjög hátt eða 0,71 hektari sem er þriðja hæsta hlutfall í heimi. Til samanburðar er það 0,38 hektara á íbúa á Íslandi, 0,16 hektarar í Noregi og 0,43 hektarar á íbúa í Danmörku.
Ræktarlandið þrisvar sinum stærra en Ísland
Úkraína er – eða öllu heldur var – að Krímskaga meðtöldum, 603.550 ferkílómetrar að stærð. Þar af er ræktarland 71,3% (samkvæmt tölum World Bank) og akurlendi um 326.700 ferkílómetrar (32,7 milljónir hektara) eða rúmlega 54% af heildinni. Ræktarlandið er því ríflega þrisvar sinnum stærra en Ísland. Ef Krímskaginn, sem nú er talinn hluti af Rússlandi er dreginn frá, þá telst 69% Úkraínu vera ræktarland.
Graslendi þekur um 78.400 ferkílómetra (13%), ávaxta-, vínrækt og plantekrur þekja um 22,500 ferkílómetra (4%), skógar þekja 94.000 ferkílómetra (15,6%) en mestu skógarnir eru á flatlendinu í norðurhluta landsins og í Karpatafjöllum og á Krímskaga þar sem skógar þekja um 27% þeirra svæða.
Skógarnir skila árlega miklum verðmætum. Samkvæmt hagstofu Úkraínu nam heildar timburframleiðslan frá janúar til júní 2015 samtals 4.268.300 rúmmetrum. Er það nýtt til helminga sem smíðaviður og sem eldsneyti. Skógarnir eru líka mikilvægir til að viðhalda jarðvegi, við vatnsvernd og endurnýjun gróðursvæða.
Áhugi fjárfesta vakinn
Yfirvöld í Úkraínu fóru markvisst að vinna að því að markaðssetja þessi gæði 2011 með uppsetningu fjölda matvælamarkaða, til að efla framleiðslu og hækka verð til útflutnings. Mykola Prysyazhnyuk, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, lýsti því yfir að hægt væri að þrefalda landbúnaðarframleiðslu landsins. Með opnun markaðar með land þyrfti ekki „nema“ um 30 milljarða dollara til að kaupa upp ræktarland í Úkraínu. Samkvæmt vefsíðu Agri Money.com hafði Yulia Tymoshenko, fyrrverandi forsætisráðherra, þó áætlað að verðmæti alls ræktarlands í Úkraínu næmi um 400 milljörðum dollara.
Núverandi landbúnaðarráðherra, Oleksiy Pavlenko, sagði í fjölmiðlum í janúar síðastliðnum að auka mætti kornframleiðsluna í landinu úr 62 milljónum tonna í fyrra í 100 milljón tonn. Varla verður það þó gert nema með ræktun á erfðabreyttum kornafbrigðum (GMO). − Það var eins og við manninn mælt, erlendir fjárfestar hafa runnið á lyktina.
Brauðkarfa Sovétríkjanna sálugu verði brauðkarfa ESB
Úkraína var brauðkarfa Sovétríkjanna sálugu og hefur síðan oft verið kölluð brauðkarfa Evrópu (Europe's bread basket). Samkvæmt frétt Russia Insider er markmið ESB-ríkjanna og fleiri nú að breyta fyrrum sovéskri brauðkörfu í evrópska brauðkörfu.
Sovétríkin ráku á sínum tíma m.a. samyrkjubú með bændum og svokölluð ríkisbú í Úkraínu. Árið 1980 voru 9.067 bú í Úkraínu þar sem hvert bú hafði yfir að ráða á bilinu 5.100–5.700 hekturum. Þar af voru 9.963 samyrkjubú og 2.104 svokölluð ríkisbú. Þessi bú stóðu undir um 90% af landbúnaðarframleiðslu Úkraínu en smábændur um 10% samkvæmt opinberum tölum.
Landið fékk sjálfstæði árið 1991 í kjölfar falls Sovétríkjanna. Í framhaldinu var jarðnæði skipt upp í minni jarðir sem flestar voru þó í eigu ríkisins. Þannig urðu fljótlega til um 40.000 býli sem hvert um sig réði að meðaltali yfir um 22,6 hekturum. Eignarhald einkaaðila fór vaxandi. Fljótlega kom í ljós að býlin voru vart sjálfbær og þá skapaðist þörf á samnýtingu og leigu á jörðum. Sala á jörðum til útlendinga hefur þó verið óheimil. Erlendir fjárfestar fóru hins vegar þá leið að leigja til sín land í gegnum innlend félög, með forkaupsrétti á landi.
Eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga hvatti Alþjóðabankinn (World Bank) til að landbúnaðurinn yrði opnaður, ekki síst í austanverðri Úkraínu nær landamærum Rússlands. „It's time to think about privatisation,“ sagði Heinz Strubenhoff, fjárfestingastjóri landbúnaðarmála í Úkraínu hjá Alþjóðabankanum.
Þá var bent á af ráðgjafa hjá France's Credit Agricole Bank í Úkraínu, að íbúar landsins hefðu ekki efni á að fjárfesta í landbúnaði til að auka framleiðsluna. Ef landið yrði opnað fyrir fjárfestum myndu erlendir spákaupmenn hagnast mest á því. Úkraínskir bændur yrðu þá einungis leiguliðar fjárfesta í eigin heimalandi. Benti hann jafnframt á að þá þegar væru um 20% af besta ræktarlandinu í höndum stórfyrirtækja í gegnum langtíma leigusamninga.
Einn stærsti kornframleiðandi heims
Samkvæmt tölum FAO var Úkraína mesti kornframleiðandi Evrópu 1990 og í fjórða sæti á heimsvísu, næst á eftir Bandaríkjunum, Kína og Kanada. Árið 2013 var kornframleiðsla landsins talin vera sú þriðja mesta í heiminum og var landið í sjötta sæti hvað hveitiuppskeru varðar. Árið 2013 voru úkraínskir bændur samt aðeins taldir skila 60% uppskeru á hvern hektara í samanburði við bandaríska kollega sína og í því telja menn felast mikla vaxtarmöguleika. Er þar ekki síst horft til ræktunar á erfðabreyttu korni frá bandaríska fyrirtækinu Monsanto sem nú virðist einmitt vera farið að hasla sér völl í Úkraínu.
Í kreppunni í kjölfar falls Sovétríkjanna varð ákveðin upplausn sem olli því að uppskera í Úkraínu dróst verulega saman. Sem dæmi þá gaf hver hektari af sér um 3.510 kg af korni árið 1990, en uppskeran var komin niður í 1.930 kg á hektara árið 1999. Heildar kornframleiðsla landsins árið 1990 var rúmlega 51 milljón tonna en var komin í tæplega 25 milljónir tonna árið 1999. Þann 1. ágúst 2015 var kornuppskeran aftur komin á skrið og í rúmlega 29 milljónir tonna. Það er heldur meira en á sama tíma í fyrra og uppskerutímanum langt í frá lokið. Búist er við að uppskeran verði því vel ríflega 62 milljónir tonna í ár, en hún var 39 milljónir tonna árið 2010.
Milljónir búfjár
Í Úkraínu voru rúmlega 4,4 milljónir nautgripa þann 1. júlí 2015 og rúmlega 7,7 milljón svín. Kindur og geitur voru samtals tæplega 1,8 milljónir og alifuglar rúmlega 245,5 milljónir talsins samkvæmt tölum hagstofu Úkraínu.
Þá var kjötframleiðslan frá janúar til júlí 2015 komin í nærri 1,8 milljónir tonna. Mjólkurframleiðslan var komin í rúmlega 6,3 milljónir tonna og er þetta hvorutveggja heldur lakari framleiðsla en í fyrra.
Miklir hagsmunir í húfi
Miklir hagsmunir eru í húfi þegar kemur að yfirráðum yfir þessu dýrmæta landi. Það varðar aðgengi að matvælaframleiðslu, fæðuöryggi þjóða og peningahagsmuni fjárfesta. Það er því ekkert skrítið að samfara aukinni eftirspurn eftir góðu ræktarlandi skuli Úkraína vera orðinn miðdepill átaka.
Hvaða „prinsipp“ er verið að tala um?
Á Íslandi og víðar í Evrópu hefur verið dregin upp sú einfalda mynd af stöðunni að átökin snúist eingöngu um pólitík og hugmyndafræðilegan ágreining ráðamanna í Rússlandi og á Vesturlöndum. Einnig persónulegt valdapot Pútíns, forseta Rússlands. Þá er mikið talað um það „prinsipp“ að Rússar virði landamæri sjálfstæðra ríkja.
Sams konar rök voru notuð þegar ákveðið var að ráðast inn í hið olíuríka land Írak. Í bakhöndinni höfðu menn árás Íraka á Kúveit sem afsökun. Bæði Rússar og vesturlönd hafa með álíka rökum barist um Afganistan sem vitað er að býr yfir gríðarlegum auðlindum í formi málma. Menn pössuðu sig þó mjög á að nefna aldrei að efnahagslegir hagsmunir hafi verið undirrót átakanna. Átökin í báðum þessum löndum snerust gjörsamlega í höndum innrásarherja. Sömu sögu er að segja af Líbíu og Sýrlandi.
Hlaðið var undir öfgasinnaða hryðjuverkahópa á báða bóga sem hvorki vesturlönd né Rússar hafa lengur nokkra stjórn á. Afleiðingin er hrein skelfing og uppgangur hryðjuverkahópa eins og Isis. Örvinglaðir flóttamenn flýja nú ógeðið hundruðum þúsunda saman frá þessum svæðum og inn í Evrópu. Sér engan veginn fyrir endann á þeim vanda sem það getur skapað.
Athygli vekur að ekki skuli vera sett viðskiptabann á Sádi-Arabíu sem fullyrt hefur verið að styðji Isis-samtökin fjárhagslega. Það skyldi þó aldrei vera að ríkir olíuhagsmunir risafyrirtækja og ríkja á vesturlöndum spili þar stóra rullu?
Viðskipti með land í Úkraínu auðvelduð með aðstoð ESB
Nú er svo komið að umtalsvert úkraínskt ræktarland er komið undir yfirráð útlendinga, oftast annarra en Rússa. Þar með eru komin rök fyrir afskiptum erlendra ríkja. Að sjálfsögðu eykst um leið krafan á að þessir fjárhagslegu hagsmunir verði varðir með hervaldi ef ekki vill betur. Þar njóta menn væntanlega stuðnings úkraínskra þjóðernissinna. Á sama tíma horfa Rússar fram á að missa aðgengi að þessu mikilvæga ræktarlandi.
Evrópusambandið hefur komið með beinum hætti að borðinu samkvæmt frétt EU CO-OPERATION NEWS. Er það gert í gegnum sérstakt verkefni sem kallað er „Aðstoð við þróun opins og gagnsæs markaðar með land í Úkraínu“. Það mun væntanlega stuðla að enn frekari innkomu erlendra fjárfesta á ræktarlandi á svæðinu. Verkefnið hófst í september 2014 og átti að ljúka í september 2015. Undirtónninn í þessari aðstoð er að bæta efnahag Úkraínu og tryggja fæðuöryggi og þá væntanlega um leið að tryggja aðgengi ESB-landanna að brauðkörfunni góðu.
Gríðarlegar fjárfestingar
Samkvæmt tölum hagstofu Úkraínu námu beinar erlendar fjárfestingar í landinu frá janúar til júlí 2015 samtals rúmlega 42.851 milljón dollara, eða sem nemur rúmlega 5,5 billjónum íslenskra króna (5,5 milljón milljónum kr.). Athygli vekur að hlutfallslega mesta fjármagnið rennur í gegnum Kýpur eða rúmlega 12.274 milljónir dollara, en Kýpur er einmitt þekkt skattaskjól áhættufjárfesta af ýmsum toga sem fela vilja slóð sína.
?
Næstmest fjárstreymið kom frá Þýskalandi eða 5.489 milljónir dollara. Síðan kom Holland með 5.108 milljónir og Rússland með tæplega 2.686 milljónir dollara. Undanskildar eru fjárfestingar á Krímskaga sem Rússar telja nú sitt land og hagstofan kallar „tímabundið yfirtekið sjálfstætt lýðveldi á Krím“.
Ekki er auðvelt að finna upplýsingar í gögnum hagstofu Úkraínu í hversu miklum mæli þessar fjárfestingar tengjast kaupum eða leigu á ræktarlandi.
Í tölum um fjárfestingar Úkraínumanna erlendis kemur fram að í heild var fjárfest fyrir rúmlega 6.254 milljónir dollara. Vekur athygli að megnið af því fé hefur runnið í gegnum Kýpur eða nærri 5.818 milljónir dollara.
Snýst um milljónir hektara
Á síðasta ári greindi Okland Institute frá því að vel yfir 1,6 milljónir hektara ræktarland í Úkraínu væri þá komið í hendur aðila sem væru með höfuðstöðvar í öðrum ríkjum. Var þá talið að kaup eða leiga útlendinga á ræktarlandi væru enn meiri eða nær 2,2 milljónum hektara.
Í frétt Okland um málið var greint frá því að fjárfestar á bak við þessa leigutöku eða landakaup kæmu frá ýmsum löndum. Til dæmis væri Trigon Agri í Danmörku með tök á 52.000 hekturum, en fyrirtækið er skráð á verðbréfamarkaði NASDAQ í Stokkhólmi. Er fyrirtækið sagt hafa byggt upp sjóð til þessara kaupa með finnsku áhættufjármagni. Stærstu hluthafarnir á bak við þetta félag voru þá JPM Case í Bretlandi með 9,5%, Swedbank með 9,4%, UB Securities í Finnlandi með 7,9%, Euroclear Bank í Belgíu með 6,6% og JP Morgan Clearing Corp í Bandaríkjunum með 6,2%.
Fyrirtækið á einnig stærsta kúabú í Eistlandi með miklu landi og vel á annað þúsund mjólkurkýr. Þá keypti fyrirtækið 36 þúsund hektara land í Penza í Rússlandi í fyrra.
Þá var greint frá því að United Farmers Holding Company sem er í eigu fjárfesta í Sádi-Arabíu, réðu yfir 33.000 hektara ræktarlandi í Úkraínu í gegnum fyrirtækið Continental Farmers Group PLC.
Eins hafði fyrirtækið Agro Generation í Frakklandi keypt 33.000 hektara land í Úkraínu, en 6% hlutur í því félagi var í eigu fjárfestingafélagsins Sigma Bleyzer í Texas í Bandaríkjunum.
Eftirlaunasjóðurinn NCH Capital í Bandaríkjunum var sagður vera með hald á 450.000 hekturum í fyrra, en sjóðurinn hóf að ásælast land í Úkraínu 1993, strax eftir fall Sovétríkjanna.
Fjárfest í gegnum innlenda leppa
Erlendir fjárfestar hafa líka fjárfest í gegnum félög með úkraínskri stjórn. Sum þeirra eru talin undir stjórn nýríkra úkraínskra oligarka sem fela slóðir sínar í erlendum skattaparadísum.
Þá hefur verið bent á, m.a. í Russia Insider, að úkraínskir embættismenn hafi verið að nýta aðstöðu sína í landakaupamálum. Er þar t.d. bent á Yury Kosyuk, eiganda MHP, eins stærsta landbúnaðarfyrirtækisins í landinu hafi verið yfirmaður í forsætisráðuneytinu 2014 og barist fyrir afléttingu á sölubanni lands til útlendinga.
Í skoðanakönnun sem Ukraine Agribusiness Club lét gera í maí síðastliðnum kom fram að 70% bænda í Úkraínu voru á móti afléttingu landsölubanns til útlendinga 2016. Um 56% þeirra voru á móti slíkum áformum um alla framtíð. Andvígastir slíkum áformum voru þeir bændur sem skuldsettastir voru.
Roman Topolyuk, landbúnaðarsérfræðingur hjá Concord Capital, bendir á að það séu einkum stórfyrirtæki með mikil ítök í landbúnaði vegna veðsetninga sem vildu aflétta banninu.
Monsanto veðjar á Úkraínu
Í grein eftir Vlatimir Platov í New Estern Outlook í lok apríl á þessu ári var greint frá því að bandaríska risafyrirtækið Monsanto væri farið að fjárfesta í stórum stíl í úkraínskum landbúnaði. Monsanto er lang öflugast á heimsvísu í framleiðslu á erfðabreyttu korni sem það á jafnframt einkarétt á. Bandaríska fyrirtækið Cargill Agrarian Holding er líka að hasla sér þar völl sem og DuPont Chemical Concern.
Frederic Mousseau, yfirmaður Oakland Institute í Kaliforníu, segir að það sem er að gerast í Úkraínu megi jafna við að vestræn fyrirtæki séu hreinlega að kaupa upp landið. Vestrænir bankar og sjóðir hafa lánað miklar fjárfúlgur til stjórnvalda í Úkraínu og fái væntanlega í staðinn breytingar á strangri landbúnaðarlöggjöf, m.a. hvað varðar bann við ræktun á erfðabreyttum matvælum og notkun skordýraeiturs.
Á vefsíðu Oriental Review fyrr á þessu ári var greint frá því að bandaríska landbúnaðarrisafyrirtækið Monsanto væri um það bil að ná fótfestu í Úkraínu. Hafi fyrirtækið róið að þessu öllum árum ásamt fyrirtækjunum DuPont, Pioneer og John Deer sem öll hafi verið að reyna að koma sér inn á þennan stærsta landbúnaðarmarkað í Austur-Evrópu.
„Þetta mun fljótlega gjörbreyta framboði á landbúnaðarvörum innan ESB-landanna og landbúnaðarframleiðslu og eyðileggja stöðu evrópskra bænda,“ segir í umfjölluninni.
Í nóvember 2013 lagði bandalag akuryrkjufyrirtækja í Úkraínu fram uppkast að lögum sem heimila áttu notkun erfðabreyttra korntegunda.
Bændur í samtökum úkraínskra kornframleiðenda virðast uggandi yfir stöðunni, en OR vitnar í tilkynningu frá þeim. Þar segir m.a. að leyfum til beitingar líftækni í landinu muni fjölga á komandi árum samkvæmt samkomulagi Bandaríkjanna og ESB (Article 404). Það hafi ESB samþykkt í blindni sem bestu lausnina hvað varðar landbúnaðarstefnuna. Það mun gera úkraínska bændur háða kornafbrigðum frá Bandaríkjunum. Það sé afleiðing af óvæginni herferð fyrir innleiðingu á líftækninni (GMO) á innri markaði ESB.
Í grein OR er sagt að Monsanto veðji á stóraukna ræktun á erfðabreyttu korni í Úkraínu. Þar muni fyrirtækið beita fyrir sig áhrifum í gegnum lánastarfsemi. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn með aðstoð Alþjóðabankans og annarra fjármálastofnana tryggi nú öll sín lán í veðum í úkraínsku landi. Þá séu heimabankar farnir að skilyrða lán til bænda með því að þeir noti eingöngu ákveðin kornafbrigði í sinni ræktun. Það vilji bara svo einkennilega til að framleiðandi þeirra kornafbrigða sé enginn annar en Monsanto.
Bandarískir fjárfestar róa á þessi sömu mið. Þannig var greint frá því fyrr á þessu ári að þeir hafi keypt 50% hlut í fjárfestingasjóðnum Siguler Guff & Co í úkraínsku borginni Illichivsk. Sjóðurinn sérhæfir sig í útflutningi landbúnaðarafurða.
Monsanto hefur sýnt áhuga á að flytja höfuðstöðvar sínar til Bretlands eða Sviss af skattalegum ástæðum og væntanlega líka til að fá beinan aðgang að Evrópumarkaði. Þann 15. ágúst síðastliðinn bárust fréttir af því að yfirtökutilboði Monsanto á svissneska landbúnaðar- og líftæknifyrirtækinu Syngenta upp á 47 milljarða dollara hafi verið hafnað. Syngenta er með gríðarleg ítök í landbúnaði og á þar fjölda einkaleyfa og um allan heim. Þá hefur það fjárfest gríðarlega í margvíslegri akuryrkju, m.a. í Brasilíu, Zambíu, Arentínu, Kína, Indónesíu, Jövu, Þýskalandi, Póllandi, Svíþjóð og í fjölda annarra landa.
Falleg markmið á pappírunum
Í desember 2013 greindi fulltrúi Monsanto frá því á US-Ukraine-ráðstefnu í Washington að fyrirtækið teldi mikilvægt að skapa jákvætt andrúmsloft í Úkraínu og hvetti til fjárfestinga og frekari þróunar í landbúnaði. Sett var í gang svokallað alþýðlegt þróunarverkefni í landinu sem kallað var „Kornkarfa framtíðarinnar (Grain Basket of the Future’)“. Var verkefnið sniðið fyrir íbúa dreifbýlisins „svo þeir fengju að kynnast því hvernig þeir geti bætt stöðu sína sjálfir í stað þess að bíða eftir ölmusu“. Sannarlega falleg markmið til að flagga opinberlega.
Fréttamiðillinn NOVOROSSIA Today (Nýja-Rússland) sagði að þessi „stuðningur“ væri hins vegar augljóslega miðaður við að koma stóru bandarísku landbúnaðarrisunum til góða. Það yrði í gegnum skilyrt lán Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) og Alþjóðabankans sem ætlað væri að lyfta banni af sölu jarða til einkageirans og útlendinga. Til gamans má geta þess að nafnið Novorossiya var eitt sinn notað yfir það landsvæði sem nú heitir Úkraína.
Áhyggjur − en samt ekki
Þýskir embættismenn hafa, vegna innleiðingar heimildar til að nota erfðabreytt afbrigði í Úkraínu, viðrað ótta sinn um að þannig muni erfðabreytt matvæli koma bakdyramegin inn í Þýskaland í gegnum þýskt eignarhald í úkraínskum landbúnaði. Þar yrðu Þjóðverjar í verulegum vanda því opinberlega er mikil andstaða þar í landi við ræktun og nýtingu á erfðabreyttu korni. Þetta er m.a. einn helsti ásteytingarsteinninn í viðræðum um fríverslunarsamning við Bandaríkin. Stjórnvöld í Kiev eru samt sögð hafa litlar áhyggjur af þessu. Ekki er heldur annað að sjá en að með afstöðu sinni „kói“ Íslendingar með án mikillar íhugunar á öllu því sem þarna er að gerast. Passi þar fyrst og fremst að ganga í takt við ESB, Bandaríkin, svokallaðar vinveittar þjóðir á vesturlöndum og um leið fjölþjóðleg stórfyrirtæki. Gallinn er, að ekki er víst að það fari endilega saman við íslenska þjóðarhagsmuni.