Mikil eftirspurn eftir lóðum
Töluverð eftirspurn er eftir húsnæði, byggingarlóðum og lóðum undir atvinnunúsnæði í Flóahreppi. Unnið er að deiliskipulagstillögu fyrir ný hverfi.
Hulda Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Flóahrepps, segir að um þessar mundir viti hún ekki um neitt leiguhúsnæði eða íbúðir til sölu í hreppnum og þær jarðir sem fara á sölu seljist líka fljótt.
„Það er verið að vinna að deiliskipulagstillögu fyrir ný hverfi í hreppnum og í farvatninu eru búgarða- og íbúðabyggðir á fleiri stöðum í sveitarfélaginu og mjög spennandi að sjá hvað verður. Fólk er að sjá mikil tækifæri í nýju brúarstæði yfir Ölfusá og bættum samgöngum í Ölfusinu á milli Hveragerðis og Selfoss.
Með þessum bættu samgöngum er Flóahreppur enn eftirsóknarverðara sveitarfélag til búsetu og fólk horfir til þeirra búsetuskilyrða sem fylgja því að setjast að rétt fyrir utan þéttbýlið þ.e friðsældar, fámennis, náttúru, umferðaröryggis, góðra skóla og fleiri þátta,“ segir Hulda alsæl með mikinn áhuga fólks að flytja í sveitarfélagið.