Mikil matarkista
Aldís Hafsteinsdóttir tekur við af Jóni G. Valgeirssyni. sem sveitarstjóri í Hrunamannahrepp
Aldís hefur verið bæjarstjóri Hveragerðis í sextán ár og er formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Ég hlakka mikið til að taka við starfi sveitarstjóra í Hrunamannahreppi og er bæði auðmjúk og stolt yfir því að ný sveitarstjórn skuli hafa leitað til mín varðandi starfið. Ég þekki auðvitað vel til helstu verkefna sveitarfélaga almennt. Ég er Árnesingur og stolt af þeim uppruna. Í gegnum störf mín undanfarin ár þekki ég afar vel til okkar fjölmörgu sameiginlegu verkefna bæði í sýslunni en einnig á Suðurlandi almennt, þannig að það má kannski segja að þó ég flytji nú um set þá er ég enn á heimavelli. En sveitarfélög eru ólík og því verður það mitt fyrsta verk að fara um sveitarfélagið, kynnast enn betur nýrri sveitarstjórn og íbúum sveitarfélagsins, heimsækja bændur, fyrirtæki og stofnanir og þannig reyna að átta mig enn betur á staðaranda og sérstöðu sveitarfélagsins.
Hrunamannahreppur er um margt einstakt samfélag. Sumir myndu segja að hér slái hjarta Árnessýslu. Mikil matarkista, einstaklega blómlegt landbúnaðarhérað, þar sem fjölbreytt starfsemi er stunduð, bæði hefðbundinn landbúnaður en ekki síður er hér gríðarlega mikil garðyrkja sem mér þykir auðvitað áhugavert, komandi frá Hveragerði. Á sumrin margfaldast íbúatalan þegar allt fyllist af ferðamönnum, sem komnir eru til að njóta veðurs eins og það gerist best á landinu.
Styrkleikar sveitarfélagsins eru sú mikla fjölbreytni sem hér er bæði hvað varðar atvinnulíf en einnig hvað varðar lífsgæði íbúa almennt. Svo má ekki gleyma því að Hrunamenn eiga sína eigin hitaveitu, hér eru ríkir möguleikar til orkuöflunar og uppbyggingar á því sviði. Mér sýnist líka sem hér sé gott og jákvætt samfélag sem ég hlakka svo sannarlega til að kynnast betur.
Tækifæri Hrunamannahrepps felast ekki síst í því að koma þessum gæðum sveitarfélagsins á framfæri bæði við þá sem hafa hug á að reka fyrirtæki en ekki síður við almenning í landinu, sem kannski er ekki alveg nógu vel meðvitaður um að Hrunamannahreppur er ákjósanlegur til búsetu allt árið um kring. Vegbætur á Suðurlandi og þá ekki síst nýr Suðurlandsvegur koma til með að stytta vegalengdir enn frekar.
Gatnagerð og úthlutun lóða í framhaldinu er meðal fyrstu verka nýrrar sveitarstjórnar og að halda áfram að byggja upp góða innviði svo tryggt sé að íbúar og fyrirtæki njóti framúrskarandi þjónustu. Einnig myndi ég vilja fylgja fast eftir nauðsynlegum vegaframkvæmdum í sveitar félaginu og þá má ekki gleyma að Hrunamannahreppur nær langt inn á hálendið og Kerlingarfjöll eru til dæmis hluti af sveitarfélaginu þar sem nú á sér stað mikil uppbygging,“ segir Aldís.
Hrunamannahreppur er 1.375 ferkílómetrar. Þar búa nú um 820 íbúar. Um 450 manns búa á Flúðum þar sem grunn- og leikskóli er staðsettur, íþróttamannvirki og önnur þjónusta. Meginatvinnuvegir sveitarfélagsins eru landbúnaður, þ.m.t. garðyrkja, iðnaður og ferðaþjónusta.