Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Gæruskinn saumuð upp í ramma úti á hlaði við Ystu-Garða.
Gæruskinn saumuð upp í ramma úti á hlaði við Ystu-Garða.
Mynd / Úr einkasafni
Fréttir 6. ágúst 2020

Mikil vinna og puð að súta skinn en skemmtilegt

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Það er nóg að gera og þetta er virkilega skemmtilegt. Það að súta skinn er á við góðan sál­fræði­tíma,“ segir Þóra Sif Kópsdóttir, bóndi í Ystu-Görðum í gamla Kolbeins­staðahreppi  í Borgar­byggð, sem hefur undanfarin ár verið önnum kafin við þá iðju. 
 
Á Ystu-Görðum er rekið sauð­fjárbú með um eitt þúsund vetrarfóðraðar kindur. Þóra hefur alla tíð haft gaman af handverki, hún hefur hin síðari ár einbeitt sér að afurðum sauðkindarinnar, sútar, vinnur með horn og ull og þá er kjöt selt beint frá býli.
 
Eistnaflug uppspretta góðra hugmynda
 
„Hugmyndin kviknaði á Eistnaflugi,“ segir Þóra um tilurð þess að hún fór að súta skinn. Þar var hún á ferð með vinkonu sinni, Höllu Steinólfsdóttur, sem einnig er sauðfjárbóndi. „Við lítum á það sem orlof fyrir þreytta sauðfjárbændur að fara á Eistnaflug og þar kvikna margar hugmyndir, sumar bara nokkuð góðar,“ segir hún. „Við höfum farið í nokkur skipti og dettur alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt í hug.“
 
Þóra segir að hún hafi áhuga fyrir æði mörgu, fyrir því séu eiginlega engin takmörk, en þarna í miðri þungarokkshátíð hafi hún tekið þá ákvörðun að einblína á sauðkindina og afurðir hennar. „Ég ákvað að vera ekki að fara um víðan völl heldur setja sauðkindina og það sem hún gefur af sér í öndvegi. Það er í raun alveg meira en nóg líka, það er svo fjölbreytt handverk sem hægt er að vinna með.“
 
Þóra Sif Kópsdóttir, bóndi á Ystu-Görðum í Borgarbyggð, hefur nóg að gera við að súta skinn, eftirspurn hefur aukist hin síðari ár. Það er í tísku að eiga gæru. Mynd / Úr einkasafni
 
Mikið puð en skemmtilegt
 
Þóra fékk Lene Zachariassen á Hjalteyri til að koma og halda nám­skeið fyrir nokkrar konur á svæðinu og tókst það vel. Þóra hefur upp frá því verið að súta og kveðst hafa mjög gaman af. „Það er alveg á við góðan sálfræðitíma að súta skinn. Ferlið er langt, tekur um fimm vikur frá því skinn er tekið af lambi og þar til það er tilbúið og það eru um 12 dagar í því ferli sem maður  getur ekki neitt hlaupið frá verkinu. Alltaf eitthvað sem þarf að sinna, það þarf að þvo og skafa, skinnið þarf að liggja í pækli í töluverðan tíma og á meðan þarf að vitja þess og hræra upp reglulega, svo þarf að skola og sauma, þannig að það er heilmikil vinna á bak við hvert og eitt skinn, mikið puð en mjög skemmtilegt,“ segir Þóra.
 
Gærur í tísku
 
Hún segir töluverða eftirspurn eftir gærum hér á landi og hafi verið á umliðnum árum. „Það hefur verið vinsælt hér hin síðari ár að vera með gæru inni á heimilum, það vilja allir hafa eina gráa inni í stofu hjá sér,“ segir hún. „Gærur hafa verið í tísku og ég finn að það er mikil eftirspurn og aukin eftir að Loðskinn á Sauðárkróki, sem annaðist sútun skinna, hætti starfsemi eftir gjaldþrot. Það eykst því frekar en hitt að fólk óski eftir að ég súti fyrir það skinn.“ Þóra hefur einkum verið að súta lambsskinn, en hefur prófað önnur, hefur sútað kálfsskinn, ref og þá bíða folaldaskinn eftir sútun og eins segir hún að sig langi að prófa hreindýraskinn einhvern daginn. „Þó handbragðið sé svipað þá hefur hvert og eitt skinn sín séreinkenni,“ segir hún. 
 
Þóra bendir á að gærur hafi einkum verið nýttar til skrauts í híbýlum fólks en ekki megi gleyma því að þær eru prýðis nytjahlutur líka. „Gærurnar eru hlýrri en nokkur teppi, góðar yfir kaldar tær og það er gott að nýta þær sem undirlag til að sitja á í bílum. Möguleikarnir eru margir til að nýta þær og hafa af þeim gagn, en flestir hafa keypt þær til skrauts inni í stofu.“
 
Draumur að opna vinnustofu og taka á móti gestum
 
Þóra vinnur einnig með t.d. ull og þvær hana sjálf heima við og spinnur. Eins er hún að vinna með horn og þá er kjöt selt frá býlinu, ærkjöt er nýtt í kjötbollur á vinsælum veitingastað og aðrir hlutar seldir beint frá býlinu.Hún segir að draumurinn sé að opna vinnustofu  heima við í Ystu-Görðum til að sinna sínu og geta tekið á móti gestum þar. Nú sútar hún í fjárhúsunum og er með stóran gám úti á hlaði sem hún vinnur í. Vörur sínar selur hún undir nafninu Eldborgar kind.
 
Hægt er að fylgjast með Þóru, lífinu í sveitinni og því sem þar er verið að fást við á samfélagsmiðlum, t.d. thorakops á Snappinu og kopsdottir á Instagram. Þá er hún með síðu á Facebook. 
 
Þóra hefur unnið með horn og ull í sínu handverki og selur varninginn undir nafninu Eldborgar kind.

Skylt efni: sútun | skinn | gæruskinn

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...