Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Mikilvægt að halda áfram góðu kornræktarstarfi
Mynd / smh
Fréttir 10. febrúar 2016

Mikilvægt að halda áfram góðu kornræktarstarfi

Höfundur: smh
Það er óhætt að segja að á síðustu misserum hafi kreppt að kornræktinni á Íslandi og blikur eru á lofti á þessu ári. Þrjár ástæður eru helstar fyrir erfiðleikum í greininni og því að útlit er fyrir talsverðan samdrátt nú í vor; veðurfarslegar, ágangur álfta og gæsa í ræktarlöndum og svo hefur orðið verðfall á korni á erlendum mörkuðum. 
 
Nokkrir kunnir kornræktarráðunautar á helstu kornræktarsvæðum landsins voru fengnir til að leggja mat á stöðu mála og horfa til framtíðar fyrir greinina.
 
Spáir samdrætti í vor
 
Sveinn Sigurmundsson hjá Búnaðarsambandi Suðurlands spáir því að kornrækt muni dragast saman í vor. „Verðfall á erlendum mörkuðum – og gengisbreytingar líka – sjá okkur fyrir ódýrara kjarnfóðri. Ég hef vonir um að gripið verði til einhverra aðgerða gagnvart álftinni en hún er skaðvaldurinn í korninu.“
 
Hafa verið erfiðleikar með að ná korninu nægilega þurru
 
Eiríkur Loftsson í Skagafirði segir að það sé rétt að það hafi verið samdráttur á síðustu árum. „Helstu ástæður eru einmitt óhagstætt tíðarfar, ágangur fugla og samkeppnisstaða við innflutt korn. Það er erfiðara en svo að spá  fyrir um hvernig þessir þættir muni þróast á komandi árum að ég treysti mér til að spá um umfang kornræktar hér á landi næstu misserin.
 
Bændur eru langmest að rækta korn til fóðurs einkum fyrir nautgripi og í einhverjum mæli fyrir svín. Oft hefur gengið erfiðlega að ná korninu nægjanlega þurru þannig að hóflegur kostnaður sé við þurrkun þess, en bæði er þurrt korn verslunarvara og jafnframt hægt að fóðra á því í sjálfvirkum kerfum fyrir kjarnfóður. Það er hins vegar illmögulegt eða ekki hægt með blautara korn sem hins vegar hentar vel saman við gróffóður fyrir kýr þar sem það er blandað saman í til þess gerðum tækjum.  
 
Hálmur er nú orðið notaður talsvert sem undirburður nú orðið og fellur hann til við kornrækt. Á sumum bæjum ræðst umfang kornræktarinnar af þörf fyrir hálm. Hækkandi verð á hálmi kann að gera kornræktina meira spennandi fyrir þá sem á annað borð stunda hana. Þörf er fyrir hálm í gerð rotmassa fyrir svepparækt.
 
Kornrækt til manneldis er stunduð í minna mæli og þar eru kröfurnar kannski minni um uppskerumagn en þroski kornsins þarf að vera góður. Þá eru kornakrar leigðir til fuglaveiða.“
 
Mikilvægt að halda áfram góðu starfi
 
„Það er kornræktinni mikilvægt að áfram sé haldið því góða starfi sem unnið hefur verið við yrkjaprófanir þannig að við vitum hvaða kornyrki eru líklegust til að standa sig við okkar aðstæður,“ segir Eiríkur.
„Kornrækt er líklegust til að vera hagkvæm ef hún er hluti af endurræktun. Ræktunin sé á landi sem gefur miðlungs eða góða uppskeru og góðan þroska við lítinn ræktunarkostnað og hóflega áburðargjöf. Kostnaður á einingu er minni ef meira er undir, að því gefnu að akrarnir séu samfelldir.“ 
 
Sveiflur á Eyjafjarðarsvæðinu
 
Guðmundur H. Gunnarsson hjá Búgarði á Akureyri segir að á Eyjafjarðarsvæðinu hafi nokkrar sveiflur orðið í kornræktinni á undanförnum árum. „Árið 2014 var sáð í um 365 hektara, en 2015 var aðeins sáð í um 275 hektara og það er árferðið sem oft hefur áhrif á það hversu miklu er sáð – en það voraði seint árið 2015. Mest var ræktað árið 2009 um 550 og hefur umfangið minnkað síðan.
 
Guðmundur H. Gunnarsson.
Þótt bændur hér á Eyja­fjarðarsvæðinu – og Suður Þingeyjarsýslu – hafi orðið fyrir áfalli í kornræktinni 2015, þegar nánast allt korn eyðilagðist í frosti í lok ágúst, þá ætla, held ég, margir að halda áfram í kornræktinni. Einkum eru það þeir sem hafa verið með þetta fimm til tíu hektara og verið að rækta fyrir sitt eigið bú og sýrt kornið, sem hefur gefið góða raun sem viðbótar fóður. Þeir hafa svo nýtt hálminn til undirburðar og einnig selt til annarra bænda á svæðinu sem þurfa á hálmi að halda. Öðru máli gegnir ef til vill um þá sem hafa verið með meira undir, þetta 20–30 hektara, látið þurrka allt kornið og selt það til fóðursölufyrirtækis eins og Bústólpa á Akureyri – sem hefur tekið á móti korni frá bændum. Það eru reknar tvær þurrkstöðvar í Eyjafirði og getur verið erfitt að reka þær ef ræktunin dregst mikið saman. 
 
Það sem bændur fá greitt fyrir kornið tekur mið af verði á heimsmarkaði og ef það fer niður fyrir ákveðin mörk þá getur verið erfitt að ná endum saman í ræktuninni. Ef bændur ætla að stunda ræktun á þennan hátt þurfa þeir að ná góðum tökum á ræktuninni, það er að uppskera af þurru korni má ekki vera undir 4–5 tonn á hektara í meðalári – og svo verður að vera hægt að afsetja hálminn einnig. 
 
Til að ná góðum árangri í ræktuninni þurfa bændur að velja gott ræktunarland, hæfilega frjósamt með góða framræslu og þar sem minni hætta er á næturfrostum á vaxtartímanum ef því er viðkomið. Ekki er ráðlegt að rækta í sama landi lengur en þrjú ár, til að minnka þannig hættu á illgresi og sveppasmiti. Sá síðan í akurinn uppskerumiklum grastegundum eins og vallarrýgresi eða vallarfoxgrasi og nýta sem tún í 3-4 ár til að hvíla landið, en nýta það þá aftur til kornræktar.
 
Til að ná betri árangri í kornræktinni en verið hefur, þarf að auka ráðgjöf til bænda, til dæmis með heimsóknum bæði þegar jarðvinnslan er í gangi og á vaxtartímanum til að sjá hvernig til hefur tekist með ræktunina. En eins og ráðgjafarþjónustunni er háttað í dag þarf bóndinn að biðja um að komið sé í heimsókn og greiða fyrir það gjald, en ráðgjafinn getur ekki að eigin frumkvæði farið og heimsótt bændur. Slíkar heimsóknir geta verið mjög gagnlegar fyrir báða aðila. Ef þetta er of kostnaðarsamt fyrir ráðgjafarþjónustuna þá mætti ef til vill nýta eitthvað af þeim fjármunum sem er veitt í jarðræktarstyrki fyrir kornræktina til að mæta þessum kostnaði.“ 
 
Jónatan Hermannsson, tilraunastjóri í jarðrækt á Korpu:
Sér ekki rök fyrir samdrætti í kornrækt
 
„Við höfum alla tíð vitað að kornrækt hlýtur að bregðast ár og ár. Það hefur hún gert um aldir í grónum kornræktarlöndum og gerir enn. Önnur ræktun og fóðuröflun getur líka brugðist og gerir það,“ segir Jónatan Hermannsson, sem hefur starfað á starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands við tilraunastöðina á Korpu síðustu áratugi og unnið að kynbótum á byggi. Þar gengur starfið út á að laga korn að hinum sérstöku aðstæðum sem einkenna náttúrufar á Íslandi.
 
Jónatan Hermannsson.
„Við þekkjum þetta.  Árangur gengur í bylgjum, væntingavísitala fer upp og niður. Samt er engin ástæða til að halda að allt sé að fara í hundana. Varðandi veðurfarshliðina þá hef ég reynt að meta öryggi kornræktar eftir því hve oft hún hún gæti brugðist á tilteknu árabili.  Eðlilega er það mismunandi eftir stöðum.  Ég hef metið það svo að á bestu stöðum væri öryggið um 95 prósent, það er að kornrækt gæti brugðist eitt ár af hverjum 20. 
 
Kornið brást í fyrsta sinn í 24 ára sögu þess hér á Korpu sumarið 2013 vegna kulda, votviðris og almennrar óáranar.  Hvassviðri tók kornið að einhverju marki undir Eyjafjöllum það sama haust en það hafði ekki gerst í áratugi.  Kornið í Eyjafirði eyðilagðist í haust er leið í frosti og það er í fyrsta sinn sem það gerist í 26 ára sögu kornræktar þar í héraði. Tungusveit í Skagafirði hefur enn ekki orðið fyrir áfalli af þessu tagi og hefur korn þó verið ræktað þar í aldarfjórðung.
 
Ágangur fugla áhyggjuefni
 
„Ágangur fugla að hausti er vissulega áhyggjuefni og þarfnast aðgerða. En þessi ágangur er tengdur veðurfarinu þannig að eftir því sem kornskurður dregst þá hefur fuglinn betri tíma til að valda spjöllum,“ segir Jónatan.
 
„Til viðbótar því að fæla fuglinn eða valda honum aldurtila má vinna gegn spjöllum með því að skera korn snemma. Til að gera það mögulegt þarf að vera með eins fljótþroska korn og í boði er og nýta hvern dag þegar haustar. Betra er að hirða eitthvað af korninu linþroska en láta það verða úti.
 
Sunnanlands og vestan voru í haust til dæmis sjö dagar nánast þurrir og samfelldir um miðjan september – 12.–18. að báðum meðtöldum – og kornskurðarveður alla dagana. Ekki veit ég hvernig þeir hafa verið nýttir en ljóst var þá að ekki var eftir neinu að bíða.
 
Kannski vantar hina heilbrigðu streitu í kornræktina, þá sömu streitu og fylgir sauðburðinum.
Verð á erlendum mörkuðum er breytilegt eins og við höfum lengi vitað. Niðursveifla verðsins um þessar mundir er að einhverju leyti tengd lækkandi olíuverði. En sú verðþróun kemur sér líka vel fyrir íslenska kornbændur með lækkuðu áburðarverði og minni kostnaði við vélavinnu.“
 
Borgar sig þó alltaf að rækta hálm
 
Jónatan sér ekki rök fyrir því að menn dragi saman í kornræktinni núna. „Við höfum þegar byggt upp góða verkþekkingu og kornræktin er auk þess orðin snar þáttur í ræktunarmenningu landsins.  Þau áhrif verða ekki ofmetin. Í landinu er að auki fyrir hendi vélbúnaður sem gerir allt framhald kornræktar tiltölulega einfalt. Sumum hefur ævinlega tekist að ná góðu korni á réttum tíma.
 
Og þótt frjósi og rigni þá má lengi ná hálminum. Ég man góðan kornbónda segja á fundi að þótt það borgaði sig kannski ekki að rækta korn, þá borgaði sig þó alltaf að rækta hálm.“  

Skylt efni: kornrækt

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...