Mikilvægt að koma upp öflugum fjallskilasjóði í Langanesbyggð
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Mikilvægt er að koma á öflugum fjallskilasjóði til að hægt sé að viðhalda girðingum, réttum, aðhöldum og gangnamannakofum, segir í fundargerð landbúnaðarnefndar Langanesbyggðar.
Fram kemur í bókun nefndarinnar að nefndin hafi þegar komið með tillögu um hvernig hægt væri að koma upp öflugum fjallskilasjóði, en það var gert á fundi nefndarinnar á liðnum vetri.
Nú þegar liggur fyrir kostnaðaráætlun á allar jarðir sveitarfélagsins og fylgdi hún með fundargerð frá því í mars síðastliðnum. Jafnframt hefur nefndin lagt til að tekin verði upp gjaldtaka fyrir fé sem smalast úr nágrannasveitarfélögum og verði það gjald í samræmi við hverja kind í Langanesbyggð.
Ástandið versnar ár frá ári
„Afar mikilvægt er að koma þessu máli af stað því með hverju árinu sem líður versnar ástandið til muna. Kofar verða ónýtir, heiðargirðing á lokastigi, komið að viðhaldi á nokkrum aðhöldum og Ósrétt þarfnast verulegs viðhalds innan fjögurra ára. Ef sveitarstjórn hefur aðra tillögu um hvernig hægt er að útfæra fjallskilasjóð þá óskar landbúnaðarnefnd eftir upplýsingum um þá tillögu sem allra fyrst,“ segir í bókun nefndarinnar.