Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Fréttir 1. mars 2019
Mikilvægt veganesti fyrir okkur inn í framtíðina
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir / Hörður Kristjánsson
Niðurstaða er fengin í atkvæðagreiðslu mjólkurframleiðenda um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu. Mikill meirihluti, eða 89,41%, vill ekki afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu.
„Þessi skýra niðurstaða er gott og mikilvægt veganesti fyrir okkur inn í framtíðina,“ sagði Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda, þegar niðurstöður lágu fyrir.
88,35% innleggjenda greiddu atkvæði
Atkvæðagreiðslan var rafræn og stóð yfir í eina viku, en lauk í dag kl. 12.00. Hún fór fram í samræmi við ákvæði gildandi samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Hver mjólkurframleiðandi hafði eitt atkvæði án tillits til fjölda aðstandenda að búinu, aðildar að Bændasamtökum Íslands eða Landssambandi kúabænda.
Á kjörskrá voru 558 innleggjendur og alls greiddu 493 atkvæði, eða 88,35%. Atkvæði féllu þannig:
-
50 eða 10,14% sögðu: Já, ég vil afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu
-
441 eða 89,41% sögðu: Nei, ég vil ekki afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu
-
2 eða 0,41% völdu að taka ekki afstöðu.
Niðurstaðan er stefnumarkandi fyrir fulltrúa bænda við endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar sem fram fer síðar á þessu ári. Nú verða áherslur mótaðar í ljósi þessarar niðurstöðu og stefnumörkunar um aðra þætti samningsins sem koma þurfa til endurskoðunar.
Niðurstaðan kom formanni þægilega á óvart
Arnar Árnason.
„Það kom mér þægilega á óvart hversu góð þátttakan var, hún er okkur mjög mikilvæg, ekki síður en sá eindregni vilji sem fram kemur meðal bænda. Það er gott fyrir okkur sem stöndum í brúnni að sjá þessa miklu samstöðu í greininni og kemur sérlega vel að hafa þetta sterka bakland þegar samningaviðræður hefjast við ríkisvaldið,“ sagði Arnar Árnason.
Stefnumarkandi niðurstaða
Niðurstaðan er stefnumarkandi við endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar sem fram fer síðar á þessu ári.