Minni sala á sumarblómum
Sala á sumarblómum og garðplöntum er að stærstum hluta árstíðabundin og háð því að tíðin sé góð. Á sólardögum flykkist fólk út í garð og í gróðrarstöðvar til að kaupa blóm. Seljendur garðplantna sunnan- og vestanlands eru sammála um að salan hafi farið hægt af stað í sumar og að hún sé minni en oft áður það sem af er sumri.
Vernharður Gunnarsson, formaður Félags garðplöntuframleiðenda, segist ekki hafa neinar tölulegar upplýsingar um sölu sumarblóma það sem af er sumri.
„Salan er misskipt milli landshluta og hún hefur verið betri norðanlands og austan en á Suður- og Vesturlandi. Tíðin sunnanlands og vestan hefur verið blaut og maímánuður var kaldur og stúrinn en laus við næturfrost þannig að ræktunin sem slík bar ekki skaða af.
Þrátt fyrir að salan á sumarblómum og öðrum garðplöntum hafi verið minni í ár en á síðasta ári hefur hún samt verið þokkaleg. Margir eru þó að bíða eftir að tíðin lagist og að það komi almennilegt sumar til að planta út.
Yfirleitt byrjar sumarblómasalan um miðjan maí en salan í maí í ár var dræm. Júní var með eindæmum votviðrasamur og fólk veigraði sér við að kaupa mikið af blómum vegna þess. Ætli garðplöntuseljendur og garðeigendur sunnanlands og vestan verði ekki bara að taka Pollýönnu á þetta og vonast til að júlí og ágúst verði góðir sólarmánuðir.“
Vernharður bendir á að votviðri eins og verið hefur sé að mörgu leyti tilvalið til að setja niður blóm. Jarðvegurinn er rakur og margar harðgerðar norrænar tegundir eins og stjúpur, fjólur og bellis þrífast vel í svona tíð og endast betur við lágt hitastig. „Við megum ekki heldur gleyma því að haustið er mjög góður tími til að gróðursetja tré.“
Fólk þyrsti í sumar
Berglind Bjarnarsdóttir, rekstrarstjóri Blómavals, segir að auðvitað hafi veðrið áhrif á sölu sumarblóma og garðplantna. „Útlitið var fremur dapurlegt framan af en síðast þegar ég fór yfir sölutölur voru þær ekki eins slæmar og ég óttaðist. Sala til þessa er minni en á sama tíma í fyrra og hún fór líka seinna af stað og hasarinn var minni. Fólk er farið að þyrsta í sól og sumar og salan hefur verið áberandi best þá fáu daga sem sólin hefur látið sjá sig.“
Júlí verður blómamánuðurinn
„Mín upplifun er sú að sala á garðplöntum hafi aukist ár frá ári, segir Sædís Guðlaugsdóttir, eigandi gróðrarstöðvarinnar Gleym-mér-ei í Borgarfirði, og sennilegt að salan í ár verði í fyrsta sinn sem hún toppar sig ekki frá því að ég hóf rekstur fyrir 32 árum. Nema að júlí verði blómamánuðurinn og salan góð.“
Sædís segist finna fyrir því að hennar viðskiptavinir séu búnir að gefast upp við að bíða eftir sólinni og sumrinu og komi samt að kaupa blóm til að skreyta með í kringum sig. „Salan fór seinna af stað en hún er jafnari núna en oft áður og ég á von á að hún standi lengra fram eftir.“