Mismunur bændum í óhag
Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðlagsgrundvelli kúabús. Á meðan fá bændur 198,4 krónur fyrir þennan lítra í formi afurðatekna og opinberra greiðslna.
Nýr verðlagsgrundvöllur var kynntur félagsmönnum Bændasamtakanna (BÍ) fimmtudaginn 28. nóvember sl. en verðlagsnefnd búvara samþykkti hinn nýja grunn á fundi sínum 29. október sl. Fram til þessa hefur verið byggt á yfir 20 ára gömlum grunni.
Verðlagsgrundvöllurinn þjónar tvenns konar tilgangi; vera grunnur útreikninga fyrir afurðaverð til kúabænda annars vegar og á heildsöluverði mjólkur og mjólkurvara hins vegar, sem verðlagsnefnd búvöru ákveður.
Verðlagsgrundvellinum er skipt upp í fjóra kostnaðarliði; breytilegan kostnað, fastan kostnað, fjármagnsliði og laun og launatengd gjöld. Samkvæmt nýjum grunni hækkar kostnaður við framleiðslu eins lítra af mjólk, miðað við stöðuna í september 2024, um rúma eina krónu og er áætlaður kostnaður nú 306 krónur á lítra.
Tímabær uppfærsla
Fyrri grunnur miðar við meðalbú árið 2001 svo uppfærslan var afar tímabær, að sögn Reynis Þórs Jónssonar, sem átti sæti í verðlagsnefnd fyrir hönd BÍ. „Allt hefst þetta í nóvember 2022 þegar nefndin ákveður og samþykkir að nýr grunnur verði gerður. Þess má geta að í fundargerðum allt til ársins 2008 má finna beiðnir, frá bændum aðallega, um að uppfæra þennan grunn,“ sagði Reynir í framsögu sinni á fundinum.
Þannig miðuðu forsendur eldri grunns við 40 árskýr í básafjósi með mjaltabás þar sem ársframleiðslan var 188.000 lítrar og framleiðsla á hvern grip 4.700 lítrar. Nýr grunnur miðar við 61 árskú í fjósi með mjaltaþjóni þar sem ársframleiðslan er 377.991 lítri og framleiðsla á hvern grip 6.197 lítrar.
Núverandi forsendur eru fengnar úr rekstrarverkefni Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) árið 2022, en í því má finna lokauppgjör 176 kúabúa á landinu sem stóðu undir 45 prósent af heildarframleiðslu þess árs.
Lækkun launaliðar endurspeglar hagræðingu
Nýr verðlagsgrunnur var unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem söfnuðu gögnum og lögðu fram sínar hugmyndir að verðlagsgrundvelli í apríl sl. Verðlagsnefndin hafi þó ákveðið að tiltekna þætti þyrfti að skoða betur og ákvað að vinna þá þætti. „Það voru einkum launaliðir og fjármagnsliðir sem ekki var hægt að sætta sig við,“ sagði Reynir í sinni framsögu.
Samkvæmt nýjum grunni lækkar þó launaliðurinn hlutfallslega frá 45,5 prósentum niður í 37,5 prósent af heildarkostnaði verðlagsgrunnsins sem endurspeglar hagræðingu í framleiðslunni.
Laun leiðrétt
Í nýjum verðlagsgrundvelli er heildarvinnuframlag á viðmiðunarbúi áætlað 73 klukkustundir á bak við hvern grip á ári.
Þegar útreiknuð eru laun á kúabúi er miðað við að 80 prósent starfshlutfall sé reiknað út frá launaflokki starfa iðnaðarmanna og sérhæfðs iðnaðarverkafólks en 20 prósent miðað við launaflokk yfirmanna framleiðslu og rekstrardeilda í iðnaði samkvæmt launaflokkum Hagstofu Íslands.
Niðurstöður launaliðar voru samþykktar eftir að BÍ gerði athugasemd við vinnuálag kúabænda. Þar bentu þau á að launþegi hjá iðnaðarfyrirtæki bæri ekki sömu ábyrgð og bændur á eigin búi, auk þess að vinna að jafnaði ekki jafnlengi samkvæmt könnun Hagfræðistofnunar. Tekið var tillit til þess.
Fimmtán milljarðar
Þegar reiknaðar eru heildarafurðatekjur fyrir mjólk, kjöt og fleira, eins og sölu á lífgripum, ásamt opinberum greiðslum, reiknast heildarafurðatekjur bænda á viðmiðunarbúinu 198,4 krónur á lítra. Því er bilið milli framleiðslukostnaðar og heildarafurðatekna samtals 108 krónur á lítra.
Þegar sú tala er margfölduð með heildarframleiðslu á landinu virðist vanta yfir 15 milljarða króna til að standa undir framleiðslukostnaði.
Fjármagnskostnaður vanmetinn
Guðrún Björg Egilsdóttir, sérfræðingur hjá BÍ, útskýrði útreikningana á kynningarfundinum. Hún nefndi að þrátt fyrir að gamli grunnurinn hafi verið orðinm úreltur og margir kostnaðarliðir væru mjög skakkir innbyrðis, muni aðeins einni krónu á kostnaði við framleiðslu á einum lítra milli nýja grunnsins og hins gamla, miðað við stöðuna í september 2024. Því beri þó að taka með fyrirvara.
„Breytingar á vísitölum eru ekki eins í fóðri og breyting á vísitölum í tryggingum, því viljum við hafa breytingarnar á réttum stöðum,“ sagði hún á kynningunni. Þannig hafi áburðarliðurinn og rekstur búvéla lækkað á meðan sáðvöruliður og rekstrarvörur hafi hækkað. Breytilegur kostnaður í heild væri hins vegar svipaður milli grunna.
Eins væri ekki stórkostlegur munur á föstum kostnaði í heild en innan hans hafa þó laun og launatengd gjöld lækkað verulega á meðan fjármagnskostnaður, það er afskriftir og vextir, hækkuðu töluvert á milli grunna. „Það sést hversu vanmetin stærð þetta var í gamla grunninum.“ Afskriftirnar hækkuðu um 49% og vextir um 59% milli grunna,“ sagði Guðrún Björg á kynningunni.
Hún bendir á að ef vextir í september 2024 hefðu verið sjö prósent en ekki rúm tólf prósent eins og reyndin var þá hefði framleiðslukostnaðurinn verið 10,4 kr. lægri fyrir hvern lítra. Ef vextir væru fimm prósent væri framleiðslukostnaður 14,2 kr. lægri.
Óska eftir fundi með ráðuneytinu
Rafn Bergsson, formaður búgreinadeildar nautgripabænda hjá BÍ, sagði í kynningunni að næsta skref yrði að óska eftir fundi í matvælaráðuneytinu og kynna niðurstöður útreikninganna.
„Hluti af stöðunni er hversu mikið ríkisstuðningur hefur þynnst út síðustu ár, hann hefur ekki fylgt síauknu framleiðslumagni. Það er óhjákvæmilegt að iðnaður og neytendur þurfi að taka eitthvað á sig og svo bændur sjálfir,“ sagði Rafn á kynningunni. Hann sagði þó að miðað við nýjan grunn væru fjármagnsliðir stærri en í fyrri grunni og að með betra vaxtastigi í landinu myndi sá þáttur kostnaðar við framleiðslu minnka.
„Nú höfum við fersk og góð gögn sem búið er að vinna og leggjum fram og nú munum við sjá hvað ný stjórnvöld leggja til við að mæta okkur.“