Mögulega skortur á hrognum
Svo gæti farið að skortur verði á grásleppuhrognum á þessu ári, þar sem margt bendir til þess að ekki takist að veiða það magn sem markaðurinn kallar eftir.
Í frétt á vef Landssambands smábátaeigenda segir að komið hafi bakslag í grásleppuveiðar við Grænland og að veiðar í maí hafi gengið illa og því allt útlit fyrir minni heildarafla en gert var ráð fyrir. Í Noregi hafa veiðar hins vegar gengið mun betur en undanfarin ár sem hafa verið afspyrnuléleg.
Aflinn hér er kominn yfir 3.000 tonn, sem er 15–16% meira en á sama tíma í fyrra. Búast má við að vertíðin skili 9 til 10 þúsund tunnum, en ráðgjöf Hafró jafngildir rúmum 10 þúsund tunnum, eða 5.487 tonnum af grásleppu.