Lundaveiðar leyfðar
Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27. júlí til 11. ágúst.
Samkvæmt lögum er lundaveiði heimil frá 1. júlí til 15. ágúst. Umhverfis- og skipulagsráðið telur mikilvægt að stýring veiða taki mið af afkomu stofnsins. Reynsla síðastliðinna ára hafi sýnt að þeir fáu dagar sem lundaveiði er heimiluð séu nýttir til að viðhalda þeirri menningu sem fylgi veiðinni og úteyjalífi. Frá þessu er greint í fundargerð ráðsins.
Þar kemur fram að lundaveiðimenn hafi sýnt ábyrgð í veiðum undanfarin ár. Veiðifélögin eru jafnframt hvött til að standa vörð um sitt nytjasvæði og upplýsa sína félagsmenn um að ganga fram af hófsemi.
Í stofnmati kemur fram að samdráttur hafi verið í lundastofninum undanfarna tvo áratugi og að veiðar væru sennilega stofnvistfræðilega ósjálfbærar, en lundar fjölga sér hægt.