Mótmæli bænda bera árangur
Bændur hafa mótmælt starfsskilyrðum sínum víða um Evrópu undanfarnar vikur og haft töluverð áhrif á umferð um borgir og sett mark sitt á umfjöllun fjölmiðla. Virðast mótmælin að einhverju leyti vera að skila árangri.
Íþyngjandi reglugerðir Evrópusambandsins hafa vakið ugg meðal bænda. Sambandið hefur bæði boðað, og tekið í gildi, reglur sem miða að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda í nafni Græna samfélagssáttmála álfunnar (e. The European Green Deal), sem hefur það að markmiði að umbreyta Evrópusambandinu í loftslagshlutlaust hagkerfi árið 2050. Meðal þeirra reglubreytinga sem koma munu niður á starfsemi bænda í Evrópu eru niðurfelling skattaívilnana fyrir landbúnaðartæki, bönn á tilteknum plöntuvarnarefnum og skömmtunarskattar á vatnsnotkun.
Hlustað í Brussel
Víðtæk og fjölmenn mótmæli hafa meðal annars farið fram í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Ítalíu, Póllandi og Rúmeníu. Hafa bændur tafið umferð, dreift mykju, kveikt í heyi, aftrað flutningi búvara frá samkeppnislöndum og hent afurðum sínum, svo eitthvað sé nefnt.
Bændur létu ófriðlega kringum leiðtogafund Evrópusambandsins sem fram fór í Brussel í Belgíu í síðustu viku og kröfðust áheyrnar leiðtoga sambandsins. Höfðu þeir erindi sem erfiði þar sem Emmanuel Macron, forseti Frakklands, og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evópusambandsins, hlýddu á kröfur mótmælenda að leiðtogafundi loknum. Þá mun fríverslunarsamningur sem Evrópusambandið hugðist gera við nokkur ríki Suður-Ameríku, kenndur við Mercosur, hafa verið settur á ís. Var það meðal annars gert vegna óánægjuradda bænda sem kröfðust þess að leyfi innflutnings búvara frá löndunum yrðu háð sömu framleiðslukröfum og þeirra framleiðsla lýtur.
Slíka óánægju er einnig að finna meðal bænda í Frakklandi sem telja ódýran innflutning búvara frá Spáni gera innlendri framleiðslu erfitt fyrir. Telja þeir spænsku vörurnar ekki framleiddar undir sömu skilyrðum og þær frönsku. Brugðu þeir meðal annars á það ráð að stöðva flutning búvara á landamærunum, hella niður víni og olíu og eyðileggja ávexti og grænmeti. Bændur í Póllandi og Rúmeníu gerðu tollfrjálsa innflutning landbúnaðarafurða frá Úkraínu að umkvörtun í sínum mótmælum. Við þeim mótmælum hefur verið brugðist. Þótt Evrópusambandið hafi framlengt tollaívilnun vara frá Úkraínu um annað ár eru takmarkanir settar á tilteknar búvörur sem framleiddar eru í Evrópu, s.s. á kjúkling og egg.
Veltir fyrir sér stöðu íslenskra bænda
Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, hefur fylgst með mótmælum bænda á liðnum vikum.
„Mótmælin eiga það sammerkt að þeir sem stunda landbúnaðarframleiðslu eru að fá minna greitt fyrir framleiðslu sína á meðan álögur frá stjórnvöldum, kostnaður vegna aðfanga og vextir eru í hæstu hæðum. Í Evrópu eiga menn einnig við hátt orkuverð að etja. Sé litið sérstaklega á stöðuna í Þýskalandi, þá úrskurðaði þýski stjórnlagadómstóllinn að tillaga ríkisstjórnarinnar að fjárlögum fyrir árið 2024 væri ólögmæt þar sem tekið var á ríkishallanum með því að hækka skatta á eldsneyti á bændur um hátt í milljarð evra, næstum 3.000 evrur á hverja bújörð. Þetta var kornið sem fyllti mælinn hjá þýskum bændum.Í þessu samhengi hef ég velt því fyrir mér hvort sú staðreynd að þegar Bændasamtökin kynntu stöðumat íslensks landbúnaðar fyrir atvinnuveganefnd og fjárlaganefnd á vordögum síðasta árs þegar fjármálaáætlun 2024–2028 var til umræðu, en þar hafði ráðherra ekki lagt til að auka fjármagn inn í samningana, gangi hreinlega upp þegar bændum á Íslandi ber lögum samkvæmt að framleiða búvörur sem séu í samræmi við þarfir þjóðarinnar og stjórnvöldum ber að tryggja að kjör þeirra sem landbúnað stunda séu í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta,“ segir Vigdís.
Innleiðing regluverks háð rauntölum um losun
„Svo ég haldi áfram, þá má benda á álögur sem þingið samþykkti á síðasta ári, um hækkun á úrvinnslugjaldi rúlluplasts, sem hafði bein áhrif á bændur með hækkun á smásöluverði sem nemur um 100–120 millj. kr. á ársgrundvelli. Hvaða gat voru stjórnvöld að fylla í þarna og eiga bændur einir að bera þá hækkun?
Líkt og í Evrópu eiga matvælaframleiðendur hér á landi undir högg að sækja, það þarf að fylgja því hagkvæmni að framleiða mat og tekjur bænda verða að hækka,“ segir Vigdís jafnframt.
Undir þetta tekur Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna. „Það er líka áhugavert að fylgjast með Dönum sem segja að þeir séu betur undirbúnir varðandi loftslagsmálin þar sem þeir hafa verið að taka á þessum málum undanfarin fimm ár eða svo. Það verður fróðlegt að fylgjast með þegar kolefnisskattur verður innleiddur í Danmörku þar sem það verður væntanleg fyrirmynd annarra ríkja, allavega í Skandinavíu.
Ég tel að ef við vöndum okkur í innleiðingu á regluverkinu og forsendumælingum á losun frá landbúnaði þá sé það eitthvað sem við ráðum við. En það er háð því að við fáum rauntölur um losun frá íslenskum landbúnaði.
Svo er það innflutningurinn, þar getum við tekið undir með bændum í Evrópu um að það sé gerð meiri krafa á innanlandsframleiðsluna en það sem flutt er inn, þetta höfum við ítrekað bent á en það er eins og það sé bara alltaf á tali,“ segir Gunnar.