Munu heiðra Bjarna
Bjarni Guðmundsson, fyrrverandi prófessor á Hvanneyri, fagnar 80 ára afmæli í sumar.
Af því tilefni munu Landbúnaðarsafn Íslands og Landbúnaðarháskólinn heiðra hann með málþingi á Hvanneyri þann 31. ágúst.
Bjarni varði stórum hluta síns starfsferils við varðveislu landbúnaðarsögu Íslands. Hann á stóran þátt í því að Landbúnaðarsafn Íslands er til í þeirri mynd sem það er í dag. Bjarni hefur enn fremur gefið út fjölda bóka, þar sem þróun íslenskra búhátta eru gerð skil.
Bjarni segir að Ragnhildur Helga Jónsdóttir og Anna Heiða Baldursdóttir, starfsmenn safnsins, eigi allan heiðurinn að skipulagningu viðburðarins. „Mín viðbrögð eru fyrst og fremst þakklæti.“
Tengsl safns og skóla
„Þær stöllur fengu þessa hugmynd og voru svo vinsamlegar að spyrja mig hvort ég kærði mig um þetta. Mér fannst málefnið sem þær ætluðu að fjalla um vera áhugavert, þannig að ég sagði já,“ segir Bjarni. Á þinginu verður fjallað um hvernig hægt er að miðla landbúnaðartengdum fróðleik í gegnum safn og skóla og hvernig þessar tvær stofnanir tengjast.
Bjarni segist túlka viðfangsefnið þannig að skólastofnanir horfi ekki bara fram, heldur minnast þær líka þess sem hefur gengið á undan. Bjarni segir söfn geta gefið þarflegt innlegg til framtíðarinnar, sama hvers eðlis söfnin eru.
Sagan mikilvæg
„Á þessum breytingatímum sem við lifum núna, þá verður maður var við að tengslin við það sem er liðið eru losaralegri en þau hafa verið oft áður. Ekki það að við eigum alltaf að vera að horfa í baksýnisspegilinn, en það getur verið gagnlegt að horfa á þróunina svo maður átti sig betur hvað bíður í framtíðinni,“ segir Bjarni.
Hann telur að fáar atvinnugreinar hafi breyst jafn mikið og land' búnaðurinn. Bændur voru mjög snemma að byrja að nýta sér það sem í dag er kallað tölvutækni. „Þetta hefur létt feikilega mikið og við njótum þess núna, hvort sem það er sjálfstýring í traktor, mjöltun, fóðrun eða gagnaöflun.
Ef þú heyrir tikkið í mjaltaþjóni og sérð kusuna labba þarna inn, lausa við mislyndan fjósamann, og allar upplýsingar eru færðar nákvæmlega inn, þá er ekki annað hægt en að dást að þessari tækni, sem á rætur í handvirkri skráningu í byrjun síðustu aldar. Þessi þróun er í raun alveg stórkostleg,“ segir Bjarni Guðmundsson.
Viðburðurinn er ókeypis og öllum opinn.