Nautakjötsframleiðendur í mjög erfiðri rekstrarstöðu
Verulega kreppir að innlendri nautakjötsframleiðslu, sem virðist sú íslenska búgrein sem býr við einna verstu rekstrarskilyrðin þessi misserin. Þrír rekstrarþættir hafa þar afgerandi áhrif; lágt afurðaverð, hár breytilegur kostnaður og slæm samkeppnisstaða gagnvart innfluttu kjöti.
Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi á Egilsstöðum á Fljótsdalshéraði og formaður deildar nautgripabænda innan Bændasamtaka Íslands, samsinnir því að hljóðið sé mjög dauft í bændum í nautakjötsframleiðslu. „Greinin er enda í feikna erfiðri stöðu. Einhverjir hafa dregið úr framleiðslunni meðan önnur bú hafa einfaldlega ákveðið að hætta framleiðslu nautakjöts.“
Kúabændum fækkar líka
Rekstrarhorfur í mjólkurframleiðslunni hafa einnig versnað, eins og fram kom í úttekt Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins um stöðuna í greininni í febrúar síðastliðnum.
Einhver fækkun hefur orðið meðal kúabænda á undanförnum árum en þar hefur orðið samþjöppun á mjólkurkvóta og bú stækkað. Í þeirri grein á verðlagsnefnd búvöru að tryggja það að afurðaverð til bænda fylgi eftir almennu verðlagi og notar til þess tiltekinn verðlagsgrundvöll, sem Herdís hefur haft efasemdir um að þjóni tilgangi sínum nægilega vel í dag.
Herdís segir þó að samkvæmt upplýsingum frá Auðhumlu hafi þó ekki fækkað mikið að undanförnu í hópi kúabænda.
Verðhækkanir á kjarnfóðri vega þyngra fyrir kúabændur
Miklar verðhækkanir hafa orðið á undanförnum mánuðum á fóður
hráefnum á erlendum mörkuðum, sem hefur leitt til þess að tiltekin hráefni hafa hækkað um nærri 50 prósent frá síðasta hausti. Í byrjun árs þurftu bændur að takast á við allt að 120 prósenta áburðaverðshækkanir.
Herdís segir að í samantekt, sem deild kúabænda hefur unnið um áhrif verðhækkana á aðföngum á nautgripabændur, komi skýrt fram að áhrif kjarnfóðurhækkana vegi þyngra í mjólkurframleiðslunni en á móti vegi áburðarhækkanir meira í kjötframleiðslunni.
Fóðurkostnaður vegna innflutts fóðurs sé að meðaltali 37 prósent af breytilegum kostnaði mjólkurframleiðenda en að meðaltali 29 prósent á nautakjötsbúum.
Áburðarkostnaður sé að meðaltali 22 prósent af breytilegum kostnaði hjá nautakjötsframleiðendum en 14 prósent hjá mjólkurframleiðendum.
„Gríðarlegar aðfangahækkanir síðustu misseri reynast auðvitað öllum landbúnaðinum gríðarleg áskorun, sem greinarnar eru svo misvel í stakk búnar til að takast á við.
Staðan er ekki eins slæm í mjólkurframleiðslunni og nautakjötsframleiðslu en uggur er í kúabændum yfir stöðu mála,“ segir Herdís.