Nemendur vilja betri hádegismat
Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórnarfundi á dögunum.
Þau Dalrós Guðnadóttir, Júlíana Líf Halldórsdóttir og Andri Berg Jóhannsson, auk æskulýðs- og tómstundafulltrúa sveitarfélagsins, mættu til fundar sveitarstjórnar til að vekja athygli á því að skólamáltíðir í Víkurskóla uppfylltu ekki væntingar nemenda. „Skólamaturinn eins og hann er í dag uppfyllir ekki
næringarráðleggingar frá Embætti landlæknis og maturinn er vondur og bragðlaus,“ segir m.a. í erindi ungmennaráðs.
Þá er óskað eftir því að settur verði upp salatbar og að meðlæti með máltíðum verði fjölbreyttara. Sveitarstjórn tók vel í erindi og ábendingar ungmennaráðsins og var sveitarstjóra falið að taka upp málið á fundi skólastjórnenda og matráðs.