Nýta „vanskapaðar“ matjurtir
Samtök á Spáni sem kallast Espigoladors og hafa að markmiði að aðstoða þá sem minna mega sín í samfélaginu hafa fengið til liðs við sig sjálfboðaliða sem safna ávöxtum og grænmeti sem ekki er talið hafa rétta lögun til að fara á markað.
Á hverju ári leggst til gríðarlegt magn af plöntuafurðum í landbúnaði sem ekki er sett á markað vegna þess að lögun þeirra er ekki talin markaðsvæn. Neytendur hafa verið vandir á að agúrkur, gulrætur, kartöflur og epli, svo dæmi séu tekin, eigi að hafa ákveðna staðlaða lögun og mikil vinna hefur verið lögð í kynbætur til að svo sé. Hér er því um eins konar útlitsdýrkun á matjurtum að ræða.
Á Spáni er talið að um 7,7 milljón tonn af matjurtum sé hent á ári vegna þess að þær standast ekki kröfur um útlit þrátt fyrir að vera fullkomlega í lagi að öðru leyti.
Umrædd samtök á Spáni telja rétt að nýta matjurtirnar þrátt fyrir útlitsgallann og hafa fengið leyfi margra framleiðenda til að fara inn á akra þeirra og safna grænmeti og fá gefins það sem fellur frá í gróðurhúsaframleiðslu. Matjurtunum er síðan dreift til fólks sem á erfitt með að ná endum saman.