Of mikið gras í Oregon
Kannabisframleiðendur í Oregon-ríki í Bandaríkjunum eru að komast í talsverð vandræði vegna offramleiðslu á kannabis. Talið er að um 500 tonn af uppskeru síðasta árs séu enn óseld.
Fyrstur til að benda á vandann var hampplönturæktandi sem selur öðrum ræktendum plöntur til framhaldsræktunar til kannabisframleiðslu. Að sögn bóndans seldi hann svo mikið af plöntum til áframræktunar á síðasta ári að augljóst var að um umfram framleiðslu yrða að ræða.
Vegna offramleiðslunnar hefur verð á kannabis lækkað í ríkinu og selst grammið á 4 dollara, eða rétt rúmar 400 krónur íslenskar.
Ræktun á kannabis var gefin frjáls í Oregon undir eftirliti árið 2016. Í dag hafa verið gefin út tæplega 2000 slík leyfi í ríkinu. Plantan sem kannabis er unnið úr dafnar vel utandyra í Oregon og þarf því lítið að hafa fyrir ræktuninni nema hvað þá að haustkuldar og haglél geta sett strik í reikninginn eins og í annarri ræktun. Auk þess sem myglusveppur hefur herjað á plönturnar.
Talið er að samdráttur verði í framleiðslunni á þessu ári miðað við fyrra ár.