Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Óveðurskýin hrannast upp yfir evruríkjunum
Fréttir 17. febrúar 2015

Óveðurskýin hrannast upp yfir evruríkjunum

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Kólguský hrannast nú upp yfir Evrópusambandinu og löndunum innan evrusvæðisins. Ætlun nýrra stjórnvalda Grikkja undir forystu Syriza-flokksins og Podémos að borga ekki brúsa einkabanka sem Evrópusambandið neyddi upp á þá hefur valdið miklum titringi í stjórnkerfi ESB. Vandséð er hvernig evrusvæðið kemst út úr þeim hremmingum sem við blasa, en neyðarfundur var haldinn um málið í gær.

Alexis Tsipras, leiðtogi Syriza, lofaði Grikkjum að hætta að borga af þessum  lánum ef hann kæmist til valda í kosningunum í janúar og það er nú að verða að veruleika. Svar Þjóðverja og annarra forysturíkja innan ESB er að gefa ekkert eftir gagnvart Grikkjum.

Klofningur í afstöðunni til vanda Grikkja

Kominn er upp klofningur meðal forysturíkja evrusvæðisins um stefnu gagnvart Grikkjum að því er fram kom í Finacial Times um síðustu helgi. Þjóðverjar vilja keyra skuldainnheimtu gagnvart Grikkjum áfram af fullri hörku en Frakkar vilja fara mildari leið. FT telur þó vafa leika á hvort hugur fylgi máli hjá Francois Hollande Frakklandsforseta um að liðsinna Grikkjum.

Þjóðverjar krefjast þess að Grikkir leggi fram nýtt greiðsluplan á sínum skuldum en Grikkir segjast ekki taka í mál að byggja slíkt plan á fyrri forsendum. Óttast ráðamenn ESB nú að sú afstaða Grikkja að neyta að borga skuldirnar fyrir gjaldþrota banka kunni að magna upp ágreiningsbylgju milli Suður-Evrópuríkja og ríkjanna í Norður-Evrópu. Þegar er t.d. farið að bera á óróa á Spáni.

Það kom fram í Wall Street Journal og eins í Financial Times í síðustu viku að Grikkland kæmist í þrot á næstu vikum. Ef Grikkjum takist ekki að tryggja sér lánsfé muni ríkið einfaldlega fara á hausinn.

Á fréttavef BBC er vitnað í Alan Greenspan, fyrrverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Hann spáir því að Grikkland muni hætta í evrusamstarfinu.

Í athugasemdadálkum bresku blaðanna eru ekki allir sem telja stöðuna vonlausa fyrir Grikki. Þar er m.a. bent á að Grikkir geti hæglega farið sömu leið og ESB og sett í gang prentvélar til að prenta nýjan eigin gjaldmiðil, allavega til heimabrúks. Nota hann síðan til að skipta út við landsmenn þeim evrum sem eru í umferð og ná þannig inn talsverðum galdeyri í ríkiskassann.

Wall Street Journal telur hættu á glundroða

The Wall Street Journal brýnir menn nú til að upphugsa leiðir til að bjarga sér undan evrukreppunni. Það varði t.d. fjármagnsflutninga yfir landamæri hjá fyrirtækjum sem eru með starfsemi í mörgum löndum. Brotthvarf einhvers ríkis úr myntsamstarfi evruríkjanna geti haft ófyrirséðar keðjuverkanir. Vandinn sem nú blasi við geti hæglega skrúfast upp yfir eina helgi. „Þá verður algjör glundroði,” segir blaðið.

Möguleg keðjuverkun ef Grikkir hverfa úr evrusamstarfinu

Dálkahöfundurinn Tim Worshall sagði í fjármálatímaritinu Forbes á dögunum að það væri rangur skilningur hjá Þjóðverjum að halda að evran geti lifað af brottför Grikkja úr evrusamstarfinu. Hann spáir því að eftir að rykið fari að setjast við brottför Grikkja úr evrusamstarfinu með tilheyrandi falli banka, muni efnahagslífið í landinu taka hratt við sér. Eftir um 12 mánaða strögl muni hagvöxtur í landinu aukast hratt næstu ár á eftir. Sú staða muni síðan hafa mikil áhrif á Ítali sem eru þegar komnir inn í skuldahringiðu. Hugsanlega muni þeir þá íhuga að fara sömu leið og Grikkir, kasta evrunni og taka upp gömlu líruna á ný. Þá setur hann spurningarmerki um Frakkland sem sé að nálgast svipaða stöðu og Ítalir. Eins sé Belgía þegar komin fram af hengifluginu.

Svissneskur gullkaupmaður spáir gjaldeyrisstríði

Það eru fleiri sem hafa ekki spáð vel fyrir evrunni. Á vefsíðunni King World News má lesa spá svissneska stóreignamannsins og gullkaupmannsins Egon von Greyerz sem á m.a. Gold Switzerland og Matterhorn Asset Management AG. Hann spáði því þann 1. desember sl. að evran myndi falla mikið á næstu vikum og allt gekk það eftir. Nú spáir hann hreinlega gjaldeyrisstríði á komandi mánuðum, þar sem eigendur peninga muni reyna allt til að tryggja þá með einhverjum hætti t.d. í gulli eða silfri.

Spáir hann því gríðarlegum verðhækkunum á þessum eðalmálmum á næstu mánuðum og að sama skapi falli gjaldmiðla. Egon von Greyerz segir líka að staðan hjá Swiss National Bank sé nú mjög alvarleg sökum gríðarlegra innistæðna í ótryggum gjaldeyri. Nær útilokað sé annað en að bankinn tapi stórt.

The Economist – Vandinn liggur í vaxtainnheimtunni

Í grein Button Wood í The Economist síðastliðinn laugar­dag segir hann að baráttan um skulda­málin á milli Grikkja og ESB snúist um siðferði í skulda­málum og hagstjórn þar sem innheimtir séu vextir af skuldum. Þetta sé málefni sem tekist hafi verið á um í þúsundir ára. Um þetta hefur reyndar verið talsvert fjallað í Bændablaðinu undanfarin ár.

„Hugmyndin um að innheimta vexti af skuldum kom upp þegar Hammurabi réði yfir Babylon um 1800 árum fyrir Krist. Hann setti reglur um að mest mætti innheimta 33,3% vexti fyrir lán á korni og 20% vexti fyrir lán á silfri,“ segir Button Wood.

„Það var talsverð áhersla á hvað væri sanngjarnt. Sá sem lánaði nágranna sínum nautgrip átti rétt á að fá alla kálfa sem kæmu undir í framhaldi af því láni. Sumerska orðið fyrir vexti er einmitt mas sem þýðir kálfur. Aristole færði þá rök fyrir því að ekki ætti að heimta vexti af hráefni sem ekki bæri ávöxt, eins og af silfri.“

„Hættið að þvinga Syriza“

Staðan á evrusvæðinu er tvísýn. Gripið var til þess ráðs af hálfu stjórnvalda í Brussel og Seðlabanka Evrópu að beita Grikki þvingunum, skrúfa fyrir samvinnu og niðurlægja þá eins og hægt er. Í breskum fjölmiðlum var varpað upp þeirri spurningu um síðustu helgi hvort þessi aðferðafræði myndi ekki springa í andlitið á evruríkjunum.

The Guardian sagði í fyrirsögn; „Hættið að þvinga Syriza. Við höfum ekki efni á öðrum röngum snúningi í Evrópu.“

Hefur evrusvæðið brugðist almenningi í Grikklandi?

Blaðið segir að flestir viðurkenni að Grikkir hafi gert mistök í efnahagsmálum, forystumenn Syriza viðurkenni það líka.

„Það er kominn tími til að íhuga hvort evrusvæðið hafi ekki líka brugðist almenningi í Grikklandi.“

Allt snýst þetta um svokallað „Troika-imposed bailout“ þar sem evrulöndin veittu Grikkjum  risalán til að greiða skuldir vegna áhættufjárfestinga við evrópska banka, einkum þýskra og franskra. Í stað þess að bankarnir væru hreinlega settir á hausinn fyrir eigin glappaskot var gríska ríkið látið ábyrgjast lántökurnar með skelfilegum afleiðingum fyrir almenning í Grikklandi.

„Grikkir eiga skilið að þeim verði sagður sannleikurinn í málinu,“ segir Guardian. „Syriza, frekar en nokkur annar, hefur þó allavega komið heiðarlega fram og sagt fólki hvað hafi farið úrskeiðis. Tilraunir til að kæfa rödd Syriza mun aðeins magna upp and-evrópsk öfl sem mun hafa skelfilegar afleiðingar fyrir evrusvæðið.“ Segir Guardian að eina skynsamlega lausnin í málinu nú sé að gera málamiðlun og semja við Grikki.

Reynt að draga Íslendinga út í evrufenið

Út í þetta botnlausa fen hafa forystumenn ákveðins stjórnmálaafls á Íslandi verið að reyna að draga íslensku þjóðina forspurða og af fullkomnu ábyrgðarleysi. Það er því kaldhæðnislegt að á sama tíma vex andstaðan við ESB víða í Evrópu og ekki síst í Bretlandi sem býr nú að því að hafa ekki álpast inn í myntsamstarf evruríkjanna með upptöku evru.

Hefur hörðum áróðri fyrir inngöngi í ESB verið óspart beitt og reynt að skrúfa upp múgsefjun hér á landi um málið. Ýmsum miður geðslegum meðulum hefur þar verið beitt. Varla hefur t.d. farið fram hjá nokkrum manni sú aðför sem gerð hefur verið að íslenskum landbúnaði og forystu Bændasamtaka Íslands. Það hefur verið fyrir það eitt að BÍ reynir að standa í lappirnar við að verja íslenskan landbúnað og fjölda starfa í greininni gagnvart ESB. Sömuleiðis hafa íslenskir útgerðarmenn fengið að finna til tevatnsins, en þar á bæ hafa menn einmitt óttast að Íslendingar geti við aðild að ESB misst yfirstjórn eigin fiskimiða í hendur ESB.

Mun hugsanlega brjóta evrusvæðið á bak aftur

Í grein Guardian síðastliðinn föstudag segir að sú stefna forysturíkja ESB að beita Grikki hörðum þvingunum kunni að vera kornið sem fylli mælinn og brjóti evrusvæðið á bak aftur. Pólitískt svigrúm innan evrusvæðisins hafi minnkað svo mikið að líklega sé orðið ómögulegt að koma þar á skynsamlegri fjármálastefnu. „Hvaða mistök gerðum við?“ spyr blaðið. „Hvernig eigum við að taka skynsamlega ákvörðun í þetta skiptið?“

Vandinn er að forystumenn innan ESB neyddu seðlabanka sína í aðgerðir til að bjarga bönkum á kostnað evrópskra skattgreiðenda. Hafa þeir reyndar verið harðlega gagnrýndir fyrir þetta, en á móti hafa þeir reynt að þvo hendur sínar með því að gera lítið úr Grikkjum og segja þá bæði lata og eyðslusama. 

Bendir blaðið á Íra sem eitt af þessum mjög vafasömu dæmum.
„Írland hefur af heimsku tryggt sína gjaldþrota banka og var svo bannað af Seðlabanka Evrópu að afskrifa eina einustu evru af inneignum skuldabréfaeigenda. Skuldir einkabanka og fjármálamanna voru fluttar yfir á  almenning sem nú er látinn borga brúsann.“  

Skylt efni: Evrópusambandið | Evra

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar
Fréttir 29. október 2024

Útrunnið hráefni til diskósúpugerðar

Slow Food Reykjavík hélt hátíð í garðskála Grasagarðs Reykjavíkur dagana 18. og ...

Dagur sauðkindarinnar
Fréttir 29. október 2024

Dagur sauðkindarinnar

Þann 12. október síðastliðinn var dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu haldi...

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins
Fréttir 29. október 2024

Nýr formaður Lífeyrissjóðsins

Vala Valtýsdóttir er nýr formaður stjórnar Lífeyrissjóðs bænda. Aukaaðalfundur s...

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar
Fréttir 28. október 2024

Vindorkugarður á borð Skipulagsstofnunar

Skipulagsstofnun birti þann 18. október til umsagnar matsáætlun fyrir mat á umhv...

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu
Fréttir 28. október 2024

Stjórnvöld þurfi að styðja aukna matvælaframleiðslu

Auka þarf innlenda matvælaframleiðslu um 45–55 prósent næstu þrjátíu árin til að...

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé
Fréttir 28. október 2024

Vel gengur að rækta riðuþolið sauðfé

Innleiðing á verndandi og mögulega verndandi arfgerðum gegn riðu í sauðfé gengur...

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju
Fréttir 25. október 2024

Umsóknum fækkaði um jarðræktarstyrki í garðyrkju

Umsóknum um styrki vegna útiræktunar grænmetis fækkaði um fimm frá fyrra ári.

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast
Fréttir 25. október 2024

Sláturhús Hellu og Esja gæðafæði sameinast

Kennitala Sláturhússins á Hellu hefur verið afskráð og verður reksturinn færður ...