Óvissa meðal breskra bænda í kjölfar úrsagnarinnar úr ESB
Bretar samþykktu úrsögn úr Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var seint í júní. 52% þeirra kusu að segja sig úr ESB en 48% vildu vera áfram í sambandinu.
Árið 2015 fengu breskir bændur rúmlega 3 milljarða punda í beina styrki frá Evrópusambandinu. Auk þess sem búið var að eyrnamerkja rúmlega 5 milljarða punda sem átti að nota til að styrkja afskekktar byggðir á Bretlandseyjum til ársins 2020.
Óvissa hjá breskum bændum
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu bresku bændasamtakanna, NFU, fluttu Bretar inn tæplega 40 milljón tonn af landbúnaðarvörum árið 2014 frá löndum Evrópusambandsins sem er tvöfalt meira en þeir fluttu út til sömu landa.
Haft er eftir Meurig Raymond, formanni National Farmer‘s Union (NFU) og bónda í Pembrokeshire, á heimasíðu samtakanna að úrsögninni fylgi mikil óvissa fyrir breska bændur. Hann segir að samtökin munu vinna með breskum stjórnvöldum að því að leysa úr þeirri óvissu og taka þátt í vinnu við nýja samninga sem þarf að gera vegna úrsagnarinnar.
„Bændur munu að sjálfsögðu vilja vita hvaða áhrif úrsögnin mun hafa á starfsemi þeirra og það er okkar skylda að tryggja að réttur þeirra verði ekki skertur þegar kemur að nýjum samningum. Breskur landbúnaður er hornsteinn matvælaframleiðslu í landinu og það verður að standa vörð um hann.“
Markmiðið að tryggja bændum aðgengi að markaði
Raymond segir að markmið NFU verði meðal annars að tryggja sem bestan aðgang fyrir bresk matvæli að mörkuðum ESB. Jafnframt að tryggja aðgang að mörkuðum annars staðar í heiminum og tryggja að innflutt matvæli séu í háum gæðaflokki.
Tryggja þarf að bændur hafi nægan aðgang að vinnuafli árið um kring en talið er að ríflega 40 þúsund landbúnaðarverkamenn frá löndum Evrópusambandsins séu starfandi í Bretlandi.
Raymond segir að samtökin eigi að vera stefnumarkandi þegar kemur að aðlögun að nýjum aðstæðum og tryggja breskum bændum jafnræði á við bændur í Evrópusambandinu og annars staðar í heiminum.
Bresku bændasamtökin hafa sett á fót ráðgjafarmiðstöð sem ætlað er að vera bændum innan handar, svara spurningum um málefni sem snúa að úrsögninni og afleiðingum hennar.
Pólitískar sviptingar
Miklar sviptingar hafa verið í breskum stjórnmálum í kjölfar kosninganna. David Cameron, forsætisráðherra Breta, hvatti landa sína til að vera áfram innan ESB og er niðurstaðan talin mikill ósigur fyrir hann. Cameron sagði af sér embætti í kjölfar kosninganna.
Nigel Farage, leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins UKIP, hefur einnig sagt af sér embætti en hann var einn helsti talsmaður þess að Bretar segðu skilið við Evrópusambandið.
Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri London og einn helsti talsmaður úrsagnar Breta úr sambandinu, hefur lýst því yfir að hann ætli ekki að bjóða sig fram til formanns Íhaldsflokksins í Bretlandi eins og búist var við.
Fyrsta landið til að segja sig úr ESB
Bretland er fyrsta aðildarríki ESB, í 60 ára sögu þess, til að yfirgefa sambandið. Talið er að ferlið sem kosningunum fylgir muni taka að minnsta kosti tvö ár og hafa víðtæk áhrif á samninga Breta við önnur lönd og þar á meðal Ísland.
Haft er eftir Jean-Claude Juncker, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins, á BBC að aðildarlöndin 27 sem eftir eru muni halda sínu striki. Leiðtogar Þýskalands og Frakklands, Angela Merkel og Francois Hollande, segja úrsögn Breta mikið áfall fyrir ESB en að ríkin muni halda áfram samstarfi við Breta þrátt fyrir úrsögnina.
Samkvæmt því sem komið hefur fram á BBC fer andstaða gegn Evrópusambandinu vaxandi í Frakklandi og talið að þjóðaratkvæðagreiðsla verði eitt af stóru málunum í væntanlegum stjórnarkosningum þar í landi. Verði aðild að ESB hafnað í Frakklandi er talið að Holland muni fylgja í kjölfarið.
Þýskaland, Bretland og Frakkland eru þau lönd sem fram til þessa hafa greitt mest í sameiginlega sjóði Evrópusambandsins.
Gengi breska pundsins og hlutabréfa í Evrópu féll talsvert í kjölfar úrsagnarinnar. Pundið hefur haldið áfram að veikjast undanfarna daga.