Ragnheiður skipuð rektor LbhÍ á ný
Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir var áfram skipuð rektor Landbúnaðarháskóla Íslands til fimm ára frá 1. janúar 2024.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gaf út skipunarbréf þess efnis í september síðastliðnum.
Ragnheiður tók við stöðu rektors þann 1. janúar 2019 en skipað er í embættið til fimm ára í senn samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Samkvæmt lögum um opinbera háskóla er rektor formaður háskólaráðs. Hann er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum háskólans. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum einstakra skóla og stofnana. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Á milli funda háskólaráðs fer rektor með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.