Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Íslenskt haframjöl frá Sandhóli.
Íslenskt haframjöl frá Sandhóli.
Fréttir 6. apríl 2023

Reisa haframyllu á Suðurlandi

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Enginn tækjabúnaður er á Íslandi til að verka hafra til manneldis. Undanfarin ár hafa hafrar verið ræktaðir í talsverðu magni til þroska á Sandhóli í Meðallandinu. Senda hefur þurft uppskeruna með skipi til Jótlands í Danmörku til að láta verka þá og síðan til baka á Íslandsmarkað.

Á dögunum fóru Sandhólsbændur í leiðangur til Finnlands til að skoða vænlegar haframyllur og hafa nú látið hanna fyrir sig eina slíka, sem getur afkastað 1,5 til 3 tonnum á klukkustund.

„Við fórum til Finnlands í síðasta mánuði til að kanna möguleikana á því að kaupa myllu til verkunar á höfrunum okkar. Við höfum verið að rækta þá til þroska og manneldis í mörg ár og vildum athuga hvort það væri markaður fyrir þá hér á Íslandi, sem hefur svo heldur betur reynst vera, segir Örn Karlsson, framkvæmdastjóri Sandhóls.

„Þar sem enginn tækjabúnaður hefur verið hér á landi til að verka þá, höfum við þurft að senda þá með skipi til Árósa og til baka þegar búið er að vinna þá fyrir okkur – sem er auðvitað ekki góð staða.“

Örn Karlsson, framkvæmdastjóri Sandhóls.

Miklir vaxtarmöguleikar í ræktun hafra

„Viðtökurnar hafa bara verið þannig að við höfum verið að selja þetta í gámavís og svo má segja að vaxtarmöguleikarnir í ræktun hafra hér á landi séu einnig mjög miklir í því ljósi hversu mikið er flutt hingað inn. Við höfum verið að þreifa fyrir okkur með myllur en ekki fundið hingað til neina myllu sem hentaði okkar aðstæðum – fyrr en nú.

Þá vildi það þannig til að ég komst í kynni við finnska konu að nafni Remi Meres, sem er nú starfsmaður finnsku bændasamtakanna, en var hér á Íslandi í tvö ár í vinnu og talar góða íslensku. Hún vissi um einmitt þessa gerð af myllu sem okkur vantaði hér og með hennar hjálp þá fundum við réttu tegundina af myllum,“ segir Örn.

Í Finnlandsferðinni komust þeir að því að það eru í það minnsta tveir framleiðendur sem framleiða þessa tegund og eftir viðræður við þá voru báðir aðilar beðnir um að hanna og teikna þannig myllu, sem Sandhólsbændur vonast eftir að geta reist á Suðurlandi, en slík mylla getur afkastað 150 til 300 tonnum á klukkustund.

Eini alvöru ræktandinn

Örn er spenntur fyrir áformum um eflingu kornræktar á Íslandi og væntir þess að góður stuðningur komi frá stjórnvöldum í kjölfar þeirrar vinnu. „Ég sé fyrir mér að það verði sett upp svona mylla hérna á Suðurlandi, ekki langt frá Þjóðvegi 1. Það gæti mögulega verið á Hvolsvelli, Hellu eða einfaldlega hér á Sandhóli – það fer í raun eftir því hverjir kæmu að verkefninu.

Eins og er þá skoðum við þetta á okkar forsendum en auðvitað væri betra að það væru frekar fleiri en færri í þessu með okkur,“ segir Örn og telur að Sandhóll sé í raun eini alvöru ræktandi hafra til þroska í dag.

Hafraþresking.

Bændur þurfa hvata

Í skýrslunni „Bleikir akrar – aðgerðaráætlun um aukna kornrækt“, sem skilað var til matvælaráðherra fyrir skemmstu, kemur fram að ræktun hafra á Íslandi sé fremur einföld og örugg. Markaður fyrir hafra til manneldis og fóðurs er þar metinn 417 tonn á ári – og er þar vísað til heimilda frá Hagstofunni um innflutning á sekkjuðum höfrum. Þar fyrir utan eru hafravörur sem fluttar eru inn í pakkningum eingöngu til manneldis; tröllhafrar, haframjöl og haframjólkurvörur.

„Ég þekki til bænda sem eru áhugasamir, en það þarf ákveðna hvata fyrir þá. Bændur vilja auðvitað bara hafa virkan markað og með tilkomu svona myllu til landsins – og svo betri stuðningi stjórnvalda – þá opnast tækifæri fyrir fleiri. Svo held ég að besta stuðningfyrirkomulagið við þessa grein til uppbyggingar, sé að koma á fjárfestingastyrkjum. Ekki að bæta við jarðræktarstyrkina, eða að styrkja land, heldur til uppbyggingar að megninu til.

Miðað við innflutning í dag þá eru heilmiklir möguleikar – held það sé ekkert óvarlegt að áætla að sala á höfrum í verslunum á Íslandi hlaupi á tonnum í hverri viku – og það er meira og minna allt innflutt nema okkar. Við framleiðum yfir tvö hundruð tonn af höfrum á ári, sem fer að mestu til framleiðslu á tröllhöfrum og haframjöli – en það er bara lítill hluti af markaðshlutdeildinni.“

Dýr og sérhæfður tækjabúnaður

Tækjabúnaðurinn er að sögn Arnar mjög dýr og sérhæfður, en sú mylla sem Sandhóll hefur augastað á er fær um að skila af sér þremur vörutegundum.

„Ferlið frá því að hafrarnir eru skornir og þar til þeir eru komnir í neytendaumbúðir eru í einföldu máli þannig að eftir að búið er að þreskja þá eru þeir þurrkaðir niður í svona 13 prósent rakainnihald, svo þeir mygli ekki í geymslu. Fyrir vinnslu eru þeir hreinsaðir fyrst, síðan afhýddir og veltur það á vörutegundinni hvað gert er næst.

Ef þú ætlar að gera haframjöl þá klippir þú hafrana í tvennt. Fyrir tröllhafra þarf að hita þá upp með gufu og mýkja, áður en þeir eru valsaðir. Það er gert í tromlu þar sem þeir eru flattir út. Enn önnur vinnsluaðferð er að dufta þá, þá eru þeir settir beint í gegnum hamarmyllu. Hafrar sem búið er að vinna í duft, eru til dæmis notaðir til að baka úr.“

Skylt efni: kornrækt | hafrar

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...