Risarottur á Salómonseyjum
DNA greining staðfestir að hauskúpa af nagdýri sem fannst á einni af Salómonseyjum í Kyrrahafi sé af áður óþekktri tegund af risarottu.
Risarotturnar eru sagðar lifa í þéttum skógum og eru fullorðnir einstaklingar af tegundinni sagðir nógu stórir til að naga gat á kókoshnetur með framtönnunum.
Sögur um risarottur hafa lengi verið á kreiki meðal innfæddra á eyjunum og kalla þeir þær vika og segja þær lifa í og undir trjám.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að fanga risarottu í gildru eða á mynd hefur slíkt misheppnast og það næsta sem dýrafræðingar hafa komist þeim er að finna skít úr einni slíkri árið 2011.
Í fyrra rofaði til fyrir dýrafræðingum þegar var verið að fella tré og ein af risarottunum féll til jarðar úr trénu og til jarðar. Kvikindið drapst í fallinu og innfæddir staðfestu að um væri að ræða dýr sem þeir kölluðu vika.
Var hálft kíló að þyngd og með 45 sentímetra skott
Með greiningu DNA úr hauskúpu risarottunnar sem féll úr trénu hefur nú verið staðfest að um áður óþekkta tegund rotta sé að ræða. Dýrið er sagt vega um hálft kíló og vera með skott sem er 45 sentímetrar að lengd.
Risarotturnar hafa fengið latínuheitið Uromys vika og nú þegar verið sett á lista yfir sjaldgæf spendýr i útrýmingarhættu.