Sala á kindakjöti í maí jókst um 3,1% milli ára
Sala á kindakjöti var 3,1% meiri í maí á þessu ári en í fyrra samkvæmt tölum Búnaðarstofu Matvælastofnunar.
Sala á kindakjöti í maí sl. nam um 485 tonnum. Þá var ársfjórðungssalan á kindakjöti frá afurðastöðvum til verslana rúmlega 1.504 tonn, sem er 1,9% minni sala en á sama tímabili 2018. Heildarsalan á kindakjöti, þ.e. bæði af dilkum og fullorðnum ám, veturgömlum og hrútum nam á síðasta ári rúmlega 6.077 tonnum.
Miklar sveiflur hafa verið á milli mánaða í sölu á kindakjöti. Þannig dróst salan í apríl saman um 10,2% frá því sem hún var í sama mánuði 2018. Greinilegt er að gott grillveður á sunnan og vestanverðu landinu í maí hefur haft í för með sér viðsnúning í sölu á kindakjöti. Fróðlegt gæti því orðið að sjá tölur fyrir júní sem var afar sólríkur á vesturhluta landsins, en þær munu ekki liggja fyrir fyrr en undir lok júlí.