Sala sýklalyfja dregst saman
Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli áranna 2022 og 2021 samkvæmt skýrslu Lyfjastofnunar Evrópu, en þrettánda skýrsla ESVAC um sölu sýklalyfja fyrir dýr í álfunni kom nýlega út.
Þegar horft er til allra landanna þá nam sala sýklalyfja að meðaltali 73,9 mg/PCU en var árið 2021 alls 84,4 mg/PCU. Notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði er enn sem áður með því allra minnsta meðal Evrópulanda. Ísland mælist með 4,4 mg/PCU sem er það næstlægsta á eftir Noregi sem mælist með 2,1 mg/ PCU.
Kýpur er skráð með langmestu sölu sýklalyfja, alls 254,7 mg/PCU og Pólland með 196 mg/PCU. Heildarsala sýklalyfja er mjög misjöfn milli landa sem orsakast meðal annars af mismunandi samsetningu dýrastofns landanna, mismunandi framleiðslukerfum og
tíðni sjúkdóma. Sýklalyf til inntöku um munn eru söluhæsta vöruform lyfjanna og nam 63,4% af heildarsölu sýklalyfja fyrir búfénað. Algengasti sýklalyfjaflokkurinn var penicillín (32,7%) og tetrasýklín (23,5%).
Markmið Evrópusambandsins í sjónmáli
Skýrsla Lyfjastofnunar Evrópu nær til 31 lands heimsálfunnar og hefur komið út árlega síðastliðin þrettán ár.
Í maí árið 2020 innleiddi Evrópusambandið áætlun kennda við „Farm to fork“ sem er heildstæð stefna er miðar að sjálfbærari matvælaframleiðslu.
Eitt af markmiðum stefnunnar er að draga úr heildsölu aðildarríkja á sýklalyfjum fyrir búfé og í fiskeldi um helming milli áranna 2018 og 2030. Ákvarðað meðalheildsölumarkmið var sett við 59,2 mg/PCU. Í skýrslunni kemur fram að sambandsríkin séu komin hálfa leið að takmarkinu aðeins fjórum árum eftir að það var sett, þar sem meðalheildsala þeirra ríkja sem stefnan tekur til sé við 84,8 mg/PCU en var 118,3 mg/PCU árið 2018. Ef um 5% af árlegum samdrætti í sölu sé viðhaldið muni markmið nást fyrir árið 2030.
Misræmi milli talna frá Noregi
Bent hefur verið á að mikið fiskeldi í Noregi skekki þá mynd sem landið fær sem hreint búfjárræktarland. Þannig sér Norska dýralæknastofnunin ástæðu til að sýna notkun sýklalyfja í búfénaði, utan fiskeldis, í sinni ársskýrslu en þar er niðurstaðan 6 mg/PCU og tekur það til nautgripa, sauðfjár, svína, geita og alifugla.
Aukin notkun á Íslandi vegna sýklalyfjagjafar í landeldi
Misræmis gætir einnig í tölum Íslands. Í skýrslu Landlæknis um sýklalyfjanotkun og sýklalyfjaónæmi baktería í mönnum og dýrum á Íslandi 2022 kemur fram að heildarsala sýklalyfja fyrir dýr hafi aukist hérlendis um 31% milli áranna 2021 og 2022. Ástæða þess er notkun á sýklalyfjum við meðhöndlun á bleikju í landeldi gegn bakteríunni kýlaveikibróður sem blossaði upp í einni strandeldisstöð.
Ef sala sýklalyfja vegna þessarar meðhöndlunar er hins vegar dregin frá heildarsölunni hefur salan dregist saman. Mælieiningar í skýrslu landlæknis miða hins vegar við tonn af sýklalyfjum og ekki er tekið með í reikninginn breytingar á stærð búfjárstofna.
Stærsta heilsufarsógn samtímans
Sýklalyfjaónæmi er ein helsta heilsufarsógn samtímans samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnun- inni (WHO) en Evrópusambandið hefur gefið það út að um 33.000 Evrópubúar deyi árlega að völdum kvilla sem sýklalyf ráða ekki við. Vandinn eykst ár frá ári og því hefur verið slegið fram að árið 2050 muni sýklalyfjaónæmi verða 10 milljónum manna að aldurtila árlega.
Fjölónæmar bakteríur geta borist með ferskum matvælum og hráum búvörum frá framleiðslulöndum þar sem sýklalyfjanotkun er mikil. Breiðvirk sýklalyf brotna afar hægt niður í náttúrunni og mengaður búfjáráburður sem notaður er á ræktað land getur því smitað út frá sér fjölónæmum bakteríum, á grænmeti og jafnvel í grunnvatn. Mikil verðmæti felast því í takmarkaðri notkun sýklalyfja í landbúnaði.
Hvað er mg/PCU?
Mælieining þróuð af Lyfjastofnun Evrópu til þess að fylgjast með sýklalyfjanotkun og sölu um Evrópu. PCU vísar til „Population Correction Unit“ sem tekur tillit til áætlaðrar meðalþyngdar þeirra dýra sem meðhöndluð og staðlar þar með heildarmagn virkra efna sem selt eru út frá samsetningu dýrastofnsins í hverju landi fyrir sig. PCU tekur til búfénaðar, sem notaður er í matvælaframleiðslu, að meðtöldum hrossum og eldisfiskum en horft er fram hjá gæludýrum á borð við hunda og ketti í útreikningunum. Sem dæmi þýðir 1 mg/PC að á ársgrundvelli hefur 1 milligramm af sýklalyfjum verið notað fyrir hvert kíló af áætlaðri þyngd dýra sem nýtt eru í matvælaframleiðslu.