Sameiginleg afurðaverðskrá fyrir Norðlenska og SAH Afurðir: grunnverð hækkar um 5,5 prósent
Afurðastöðvarnar Norðlenska og SAH Afurðir hafa fengið heimild til að sameinast og gefa því út sameiginlega afurðaverðskrá í fyrsta sinn fyrir komandi sláturtíð.
Samkvæmt upplýsingum frá Ágústi Torfa Haukssyni, framkvæmdastjóra Norðlenska, er grunnverð í nýju verðskránni 5,5 prósentum hærra að meðaltali fyrir dilka en grunnverð í verðskrá Norðlenska var á síðasta ári.
Greitt hærra fyrir fituflokk 3 en fituflokk 2
Annars eru breytingarnar á verðskránum helstar þær að álagi á verðskrá í upphafi sláturtíðar verður breytt eilítið og samræmt milli félaganna.
Notast er við sömu hlutföll milli gerðar og fituflokka og voru í verðskrá Norðlenska árið 2020. Hlutföllin eru svolítið frábrugðin þeim sem voru í verðskrá SAH Afurða í fyrra og er helsti munurinn sá að greitt er hærra verð fyrir fituflokk 3 en fituflokk 2. Ágúst Torfi segir að verðskráin endurspegli þannig hvaða vörur skila besta virðinu inn í vinnslu og sölu.
Verðskráin er aðgengileg á vefsvæðum félaganna; sahun.is og nordlenska.is.