Samkaup skorar á ráðherra að auka grænmetisræktun á Íslandi
Samkaup hefur skorað á Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrra, að auka grænmetisræktun á Íslandi. Það var gert með bréfi til ráðherrans í gær.
Í bréfinu er hvatt til þess að ýtt verði undir innlenda grænmetisframleiðslu með opinberum ráðstöfunum vegna þess að framleiðsla á heimsvísu kunni að dragast saman vegna þess að framleiðendur ytra eigi erfitt með að starfsrækja fyrirtæki sín á fullum afköstum. Áhrifa sé þegar farið að gæta og verðhækkanir séu í kortunum.
„Stjórnvöld geta hvatt til þess að innlend grænmetisframleiðsla verði aukin og fylgt því eftir með hagrænum hvötum og stuðningsaðgerðum. Þær einstöku aðstæður sem við er að glíma um þessar mundir kalla á að gripið sé til framleiðsluhvetjandi aðgerða eins og til að mynda niðurgreiðslna á raforkuverði til grænmetisbænda, aukinna beingreiðslna eða sölutryggingar af einhverju tagi. Samkaup beina því til ráðherra að stjórnvöld og aðrir opinberir aðilar geri sitt til þess að innlendir framleiðendur geti sem best annað spurn eftir grænmeti á Íslandi,“ segir í bréfinu.