Sápur og egg til sölu
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
„Það gengur mjög vel, sápurnar seljast eins og heitar lummur og fólk er mjög ánægt með þær. Þetta eru handgerðar sápur, sem ég bý til, sem innihalda tólg úr heimabyggð, auk lífrænna jurta og ilmkjarnaolíur,“ segir Maja Siska á bænum Skinnhúfu í Holtum í Rangárvallasýslu.
Sápurnar selur hún í minnstu sápubúð Íslands, sem staðsett er í ísskáp á afleggjaranum heim til hennar. Í skápnum eru líka seld egg frá Judith og Sverri í Gíslholti, sem gengur líka mjög vel að selja. Maja segir að sápurnar hennar innihaldi engin kemísk gerviefni og mýkja húðina á sama tíma og þær hreinsa. „Svo veitir ekki af á COVID-19 tímanum að vera aðeins lengur að þvo sér um hendurnar. Maður þarf að nudda sápustykkið aðeins og það hjálpar til að hreinsa hendurnar, frekar en að ýta á takka og fá fljótandi sápu sem er oft skolað strax af,“ bætir Maja við. Sápurnar hennar heita „Húð og hár“ og fást í margnota ferðaöskjum í ísskápnum og heima hjá henni.