Segjast verða sjálfum sér nægir um landbúnaðarvörur 2020
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Stjórnvöld í Rússlandi lýstu því yfir í nóvember að þau hafi unnið viðskiptabannsstríðið við Vesturlönd. Það hafi leitt til stóraukinnar landbúnaðarframleiðslu í Rússlandi og minni þörf á innflutningi.
Viðskiptabann var sett á Rússa af hálfu Evrópusambandsins og Natoríkja eftir að þeir hertóku Krímskagann í átökunum um Úkraínu og innlimuðu inn í Rússland. Rússar svöruðu í sömu mynt og hættu kaupum á matvælum frá Vestur-Evrópulöndum og þar á meðal frá Íslandi.
Tæpum tveimur árum seinna lýstu rússnesk stjórnvöld því yfir að þetta viðskiptabann hafi fætt af sér nýja kynslóð af svokölluðum „Stakhanovite“-bændum sem knýi nú aðgerðir sem miða að því að Rússland verði sjálfu sér nægt um landbúnaðarafurðir árið 2020. Áður hafði landbúnaðarráðherrann Alexander Tkachyov gefið það út að þessu marki yrði náð 2025. Hvort ártalið sem er gæti þetta þýtt að fjöldi bænda, m.a. í Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi og víðar um Evrópu muni endanlega tapa geysiverðmætum markaði fyrir sínar framleiðsluvörur. Viðskiptabannið mun þannig koma illilega í bakið á þeim.
Stakhanovite-hreyfingin endurvakin
„Stakhanovite“ er endurvakning á hreyfingu sem sett var í gang af kommúnistaflokki Sovétríkjanna sálugu til að hvetja verkafólk og bændur til að auka framleiðsluna. Sérstök orða var gerð til að heiðra þá duglegustu. Nafnið „Stakhanovite“ er fengið frá kolanámumanninum Aleksei Grigorievich Stakhanov sem afrekaði það 31. ágúst 1935 að skila 102 tonnum af kolum á innan við 6 klukkustundum. Var það 14 faldur sá kvóti sem honum var ætlað að skila. Stjórnvöldum tókst vel að virkja kapp verkamanna með hvatningum og orðuveitingum og ekki leið á löngu þar til met Stakhanovs var slegið. Þann 1. febrúar 1936 var tilkynnt að Nikita Izotov hafi skilað heilum 640 tonnum af kolum á einni vakt. Hvort stjórnvöldum í Rússlandi auðnast að hvetja bændur með sama árangri í dag skal ósagt látið. Hitt er víst að ólíkt Stalín sem verðlaunaði þá bestu en fangelsaði verkamenn og bændur sem voru ekki að standa sig, þá hvetur Pútín menn nú áfram með því að gefa mönnum fyrirheit um góðan hagnað ef vel tekst til. Þetta hefur leitt til þess að rússneskir fjárfestar hafa stokkið á vagninn hjá Pútín.
Drifið áfram af rússneskum milljarðamæringum
Síðastliðið sumar greindi fréttastofa Bloomberg frá gríðarlegri uppbyggingu í rússneskum landbúnaði. Þessi uppbyging sé drifin áfram af rússneskum milljarðamæringum eins og Evushenkov sem fær í staðinn skattaafslátt. Með þessu átaki hafi Rússum t.d. tekist það á síðastliðnu sumri að fara fram úr Bandaríkjamönnum sem útflytjandi á hveiti. Það er þrátt fyrir að Pútín hafi fyrirskipað bann við ræktun á erfðabreyttum afbrigðum.
Rússar framúr Bandaríkjamönnum
Samkvæmt tölum World Wheat Production nú í desember var ársframleiðslan 2016 áætluð rúmlega 751 milljón tonn. Er það 2,14% aukning á heimsframleiðslunni á milli ára. Þar af er Rússland með 72.000.000 tonn og Bandaríkin með 62.859.000 tonn. Þess má geta að hveitiframleiðsla Rússa þegar viðskiptabannið var sett á 2014 var 59.700.00 tonn og hefur því aukist um nærri 8,3% síðan. Bæði Rússland og Bandaríkin hafa flutt út stóran hluta af sinni hveitiframleiðslu.
Til samanburðar þá voru ESB-ríkin 27 með samanlagt 143.974.000 tonn af heimsframleiðslunni 2016. Þau voru með 157.200.000 tonn árið 2014 og er því um 8,4% samdrátt að ræða á tveim árum. Stærsta einstaka framleiðslulandið 2016 var þó Kína með 128.850.000 tonn og Indland kom þar á eftir með 90.000.000 tonn.
Reisa risavasið gróðurhús fyrir tómatarækt
Í grein Bloomberg kemur fram að mitt inni í Kákasus sé nú að verða til risavaxinn gróðurhúsabúgarður (Yuzhny Agricultural Complex) sem er í eigu Evushenkov. Þar á að rækta svokallað T-34 afbrigði af tómötum undir þaki sem gæti rúmað 2.300 knattspyrnuvelli. Þessi ræktun nýtir vatn sem upprunnið er í jöklum á Elbrus-fjalli. Athyglisvert er að nafn á þessu tómataafbrigði er fengið frá tegundarheiti á skriðdrekum sem Rússar notuðu við að hrekja hersveitir Hitlers af höndum sér.
Sagt vera áróður en tölur sýna innflutningssamdrátt og framleiðsluaukningu
Því hefur þó líka verið haldið fram á Vesturlöndum að þetta kokhreysti stjórnvalda í Kreml sé aðeins áróðurstal. Fullyrt er að matvælaverð hafi stórhækkað í Rússlandi og rússnesk heimili þyrftu nú að eyða sem svarar yfir þriðjungi, eða 35,5% af tekjum sínum, í mat. Til samanburðar er nefnt að Bretar eyði um 11% af tekjum sínum í mat. Rússar hafi flutt inn 36% af fæðuþörf sinni fyrir viðskiptabannið. Tölur virðast þó benda til að eitthvað kunni að vera til í fullyrðingum Rússa, því innflutningur þeirra á matvælum var kominn niður í 22% á öðrum ársfjórðungi síðasta árs. Í sumum geirum eru þeir þó enn verulega háðir innflutningi, eins og varðandi ávexti.