Seglbúðir byrja ekki aftur
Forsvarsmenn handverksslátur -- hússins að Seglbúðum í Landbroti munu ekki hefja slátrun og vinnslu kjöts í haust, þrátt fyrir að hætt hafi verið við gjaldskrárhækkun Matvælastofnunar (MAST).
Fyrirhuguð verðhækkun á þjónustu dýralækna var blásin af of seint, eins og greint var frá á forsíðu síðasta tölublaðs Bændablaðsin.
Þá höfðu forsvarsmenn sláturhússins í Seglbúðum gefið út yfirlýsingu þess efnis að ekkert yrði af slátrun og kjötvinnslu hjá þeim í haust vegna fyrirhugaðra verðhækkana á dýralæknaþjónustu MAST. Í samtali við Bændablaðið á þeim tíma sagði Þórunn allar forsendur þurfa að breytast til að starfsemin yrði tekin upp að nýju.
Matvælaráðuneytið féll frá áðurnefndum hækkunum skömmu eftir útgáfu síðasta tölublaðs Bændablaðsins, en Þórunn segir það engu breyta, enda kom ákvörðunin of seint. Allir bændur sem þau hafa þjónustað þurftu að senda sláturhúsunum áætlun um fjölda sláturlamba fyrir miðjan ágúst. Þórunn segir þetta lélega stjórnsýslu, en hún vill ekki skrifa þetta alfarið á MAST, heldur sé ákvörðunin frá ráðuneytinu. Þórunn segir matvælaráðuneytið ekki hafa svarað umsögn sem þau sendu inn, eða verið í neinu sambandi út af þessu máli.
Vantar farveg fyrir sorpið
Aðspurð segir Þórunn mögulegt að þau taki upp þráðinn næsta haust, enda er húsnæðið til staðar og þau eru með öll leyfi. Þau þurfi hins vegar að fá svör við fjölmörgum spurningum um förgun á sláturúrgangi, þar sem ekki má urða lífrænan úrgang lengur. „Okkur hafa ekki verið kynntar neinar leiðir í þeim málum.“
Enginn sjáanleg lausn
Hingað til hafi þau borgað fyrir flutning á sorpinu tíu kílómetra að Stjórnarsandi, þar sem sveitarfélagið sá um förgun. Nú sé enginn sjáanlegur farvegur fyrir almennan sláturúrgang, nema kjötmjölsverksmiðjan í Heiðar- gerði í Flóahreppi. Þangað eru 200 kílómetrar og er flutningurinn dýr, þar sem gæta þarf sérstakrar varúðar með úrgang af þessu tagi. Þórunn kallar eftir farvegi fyrir lífrænan úrgang heima í héraði.
Þórunn segir leiðinlegt að sjá eftir þessum rekstri fara svona. „Þetta var þjónusta sem fólk var almennt ánægt með, en við getum ekki endalaust borgað með þessu.“