Sex Anguskálfar í Stóra- Ármóti komnir í 9 mánaða einangrun
Nýlega voru þeir sex Anguskálfar sem fæddust í sumar á Einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti í Flóahreppi teknir undan kúnum og settir í einangrun þar sem þeir verða næstu níu mánuðina.
Kálfarnir eru rúmlega þriggja mánaða en þeir eru undan Emil av Lillebakken 74028, sem er eitt besta Angusnautið í Noregi í dag. Kvígurnar eru 3 og heita Emelía, Endurbót og Etna. Nautin eru líka þrjú og heita Emmi, Erpur og Eðall. Þetta kemur m.a. fram á vefsíðu Búnaðarsambands Suðurlands. Þar kemur líka fram að sú nýbreytni verður tekin upp að kálfarnir verða viðraðir af og til í útigerði á þessum níu mánuðum.