Sigurður nýr framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
Sigurður Líndal Þórisson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Selaseturs Íslands á Hvammstanga.
Síðastliðin 4 ár vann Sigurður við gæða- og verkefnastjórnun hjá Expedia Inc., einu stærsta ferðaþjónustu- og tæknifyrirtæki heims. Þar á undan starfaði Sigurður m.a. við leikhússtjórnun, sem sjálfstætt starfandi leikstjóri með á sjötta tug leikverka að baki, og sem kennari við marga virtustu leiklistarskóla Lundúna.
Sigurður er með MA-gráðu í listastefnu og -stjórnun frá Birkbeck College, leikarapróf frá Arts Educational London School of Drama og kennarapróf frá Strode's College. Sigurður er nú að flytja á heimaslóðirnar í Húnaþingi vestra eftir 20 ára veru í Lundúnum.
Selasetur Íslands var stofnað árið 2005 með það að markmiði að standa að eflingu náttúrutengdrar ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, vinna að eflingu selaskoðunar á svæðinu og standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um seli við Ísland.
Öflugt rannsóknastarf
Við Selasetur Íslands eru starfrækt tvö öflug rannsóknasvið. Annars vegar líffræðirannsóknasvið, sem hefur það meginverkefni að rannsaka selastofninn við Ísland. Meðal annars vöktun á stofnstærðum útsels og landsels við Ísland og ferðum annarra selastofna til Íslands og íslenskra stofna til nágrannalandanna.
Fæðuöflun sela, ásamt áhrifum sela á fiskstofna við landið, þar á meðal áhrif á laxa við ósasvæði og á laxveiði. Sviðinu stýrir Sandra Magdalena Granquist, dýraatferlisfræðingur og doktorsnemi. Hins vegar er ferðamálarannsóknasvið. Markmið þess er að rannsaka náttúrutengda ferðaþjónustu á Íslandi í sem víðustum skilningi, með sjálfbæra þróun greinarinnar að leiðarljósi. Sviðinu er stýrt af Leah Burns, doktor í ferðamálafræðum.
Selasetur Íslands rekur safn sem hefur það að markmiði að miðla upplýsingum um lífshætti sela, líkamsbyggingu, kæpingu, fæðuöflun o.fl. Auk sögulegs yfirlits um hlunnindi, selveiðar og nýtingu sels á Íslandi. Á safninu er einnig upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn sem gegnir veigamiklu hlutverki í þjónustu við ferðamenn á Norðurlandi vestra. Undanfarin ár hefur fjöldi gesta í Selasetrinu aukist hratt. Á þessu ári hafa komið yfir 27 þúsund manns í upplýsingamiðstöðina, miðað við rúmlega 19 þúsund gesti í fyrra.