Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Þórunn Júlíusdóttir og Erlendur Björnsson eru kát með fyrsta starfsár sláturhússins í Seglbúðum.
Þórunn Júlíusdóttir og Erlendur Björnsson eru kát með fyrsta starfsár sláturhússins í Seglbúðum.
Mynd / smh
Fréttir 4. nóvember 2015

Sjálfbær sauðfjárrækt í Skaftárhreppi

Höfundur: smh
Fyrir rúmlega ári síðan var lítið sláturhús tekið í notkun í Seglbúðum í Landbrotinu. Þar búa þau Þórunn Júlíusdóttir og Erlendur Björnsson og eru sauðfjárbændur með meiru. Þau segja að þau hafi í raun horft til þess að setja á fót þetta sláturhús alveg síðan Sláturfélag Suðurlands hætti rekstri hússins sem var á Kirkjubæjarklaustri fyrir rúmum tíu árum. Frá þeim tíma hafi þau þurft að fara 200 kílómetra í næsta sláturhús með sitt sláturfé.
 
Leyfi er fyrir slátrun á 100 sauðfjárgripum á dag og slátrað er þrjá daga vikunnar. Algeng dagslátrun er á bilinu 50 til 80 fjár. 
 
„Það hefur tekið dágóðan tíma að koma þessu á fót og við höfum reynt að sýna ráðdeild og sparsemi í öllum kostnaðarliðum,“ segir Erlendur. „Til dæmis eru innréttingarnar að miklu leyti endurunnar. Þá hefur eingöngu þurft að fríska upp á þær og breyta eftir þörfum. Sumt höfum við fengið fyrir lítið, annað ókeypis og sumt áttum við fyrir. Í þetta verk hefur farið mikil eigin vinna á mörgum árum, styrkir frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Bændasamtökum Íslands, Framleiðnisjóði og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu svo eitthvað sé nefnt,“ segir Erlendur um fjármögnunarhliðina.
 
Gott handverk landsliðsmanna 
 
Erlendur þakkar einkum góðu starfsfólki það hversu vel hafi gengið á þessu fyrsta starfsári. „Það er margt sem hefur orðið til þess að þetta hefur allt gengið vel. Fyrst verð ég þó að nefna að við erum með landsliðsmenn hér í öllum stöðum á sláturlínunni okkar, í innanúrtöku og fláningu. Þetta er ástæðan fyrir því að handverkið er svona fínt hér. Bæði voru þeir reynslumiklir frá því að sláturhúsið var starfandi hér á Kirkjubæjarklaustri, en sömuleiðis fengu þeir kennslu frá tveimur starfsmönnum gamla sláturhússins á Króksfjarðarnesi sem segja má að hafi verið í alveg sama stíl og þetta er. Það eru sex starfsmenn starfandi hér við sláturlínuna og fimm þeirra voru starfsmenn á Kirkjubæjarklaustri.  Þetta eru allt sauðfjárbændur hér í sveitinni. Svo er það misjafnt eftir fjölda lamba sem er slátrað hversu margir eru við línuna hverju sinni,“ segir Erlendur, en þegar blaðamann bar að garði var slátrun 50 lamba frá Borgarfelli nýlokið og höfðu þrír menn – auk Erlends – staðið þá vakt. „Svo er hér alltaf dýralæknir auðvitað, sem kemur frá Selfossi,“ bætir hann við og ekki laust við að honum finnist það skjóta skökku við, enda sé starfandi dýralæknir á Kirkjubæjarklaustri.
 
Langt ferli að baki
 
Eftir fimm ára baráttu hóf sláturhúsið  starfsemi þann 4. október í fyrra.  Að sögn Erlendar gekk ýmislegt á og hann telur, þegar hann horfir til baka á ferlið, að MAST hefði jafnvel mátt koma meira til móts við uppsetningu lítils sláturhúss frá grunni. „Við vorum búin að fara í ferðir til Svíþjóðar og Danmerkur að kynna okkur aðstæður og sáum þar hvernig regluverkið virtist vera töluvert rýmra fyrir lítil sláturhús en stærri.“
 
„Ég vona bara að allt þetta ferli skili einhverju uppbyggilegu,“ segir Erlendur, spurður um það hvað aðrir smáir áhugasamir aðilar geti lært af ferlinu hans. „Þegar ég fer af stað þá bið ég um regluverk fyrir lítið sláturhús, en það  var, og er, ekki til staðar og því þurftum við að vinna eftir sömu reglum og stærri aðilar. Það þarf ekki að vera svona þung og stíf umgjörð. Að mínu mati þarf nýtt regluverk, sem gæti þá gert það raunhæfara fyrir smærri hús að rísa. Þá er ég líka og jafnvel enn frekar að tala um smærri hús en okkar er og þá með minni kostnaði. Það væru margir staðir í dreifbýlinu sem það gæti átt um – ég sé fyrir mér einn til tveir bændur, bara með sitt fé sem selja inn á lítinn markað.“
 
Afurðastöðin í Seglbúðum með hágæðavöru
 
„Við rekum kjötvinnslu samhliða sláturhúsinu og vinnum líka afurðir úr lömbum sem við kaupum af bændunum sem hér láta slátra.  Við kaupum væn lömb af þeim, gjarnan beint af fjalli og borgum eins hátt verð fyrir og við mögulega ráðum við. Með því að vinna vel úr vörunni  og lítilli skuldsetningu fáum við þann virðisauka að við teljum okkur geta gert frekar vel við starfsmenn okkar. Við reynum enn fremur að hámarka gæði afurðanna og einn liður í því er til dæmis að láta skrokkana hanga hér í þrjá sólarhringa. Samkvæmt ráðleggingum Matís er það ákjósanlegur meyrnunartími íslensks lambakjöts, því eftir þann tíma fer kjötið að rýrna.“
 
Þegar blaðamaður var staddur í Seglbúðum á dögunum voru hjónin nýkomin úr ævintýraferð til London, ásamt 13 öðrum smáframleiðendum, þar sem þau kynntu og seldu afurðir sínar á einum elsta og virtasta matarmarkaði í Evrópu, Borough Market. „Við erum smátt og smátt að vinna í því að byggja vörumerki upp og þátttaka í svona verkefnum er mikilvægur hluti þess,“ segir Erlendur. „Það er gaman að segja frá því að 4. október í fyrra hefjum við starfsemi hér í sláturhúsinu og kjötvinnslunni og svo 4. október í ár förum við með afurðirnar okkar út á þennan merkilega markað. En þetta snýst ekki eingöngu um að selja okkar afurðir í útlöndum, heldur er tengslamyndun mjög mikilvæg; bæði við matreiðslumenn og annað fólk í þessum geira, ekki síst aðra íslenska smáframleiðendur. Við höfum aldrei auglýst nokkuð, heldur höfum við fengið góða umfjöllun og aðstoð, svo ekki sé minnst á hjálp þeirra Eirnýjar [Sigurðardóttur] og Hlédísar [Sveinsdóttur] sem hafa dregið okkur með sér inn á þeirra kunnu matarmarkaði sem hafa verið haldnir á vegum Búrsins í Hörpu,“ segir Erlendur.
 
Heildarhugsun um sjálfbærni
 
„Við höfum verið að þróa okkur aðeins áfram í kjötvinnslu, erum með reykingu og þurrkun á kjöti og svo höfum við verið að prófa okkur dálítið áfram með pylsugerð úr ærkjöti. Bæði er það hluti af þeirri heildarhugsun um sjálfbærni á Seglbúðum sem við reynum að viðhafa í öllum okkar rekstri og eins hentar ærkjötið mjög vel til pylsugerðar,“ segir Þórunn sem nú hefur leyst Erlend af hólmi í viðtalinu. „Þá snýst þetta um að gera sem mest verðmæti úr ærkjötinu. Svo erum við auðvitað með ferskt vel hangið lambakjöt og ætlum aftur að vera með jólahangikjöt. Við erum með einstaklinga í föstum viðskiptum, en okkar stærsti viðskiptavinur hefur verið Icelandair-hótelið hér á Kirkjubæjarklaustri. Þeir auglýsa það líka sérstaklega að þeir bjóði upp á kjöt frá okkur og eru með annan staðbundinn mat; Klaustursbleikju og rófur úr héraði svo ég nefni eitthvað. 
 
Í okkar tilfelli var búið að leggja ákveðnar línur með verkefninu Sjálfbær sauðfjárrækt í Skaftárhreppi. Það gekk einfaldlega út á að nokkrir bændur hér í hreppnum vildu geta slátrað sínu fé á svæðinu í stað þess að þurfa að keyra með það tvö hundr­uð kílómetra á Selfoss. Það var lagt upp með að bændurnir hér myndu þá ýmist leggja hér inn í sláturhúsið eða taka það heim til eigin kjötvinnslu. Síðan hefðu þeir sjálfir atvinnu af starfsemi sláturhússins. Afurðirnar eru svo seldar hér í héraði á hótelum og veitingastöðum. Matís kom svo inn í myndina með úrvinnsluhlutann – hvernig mætti auka gæði og um leið verðmæti afurðanna. Þetta hefur nú orðið allt að veruleika, sem er frábært,“ segir Þórunn. 
 
Stórhuga en hógvær
 
Hjónin eru stórhuga en í senn hógvær og ætla að fara sér hægt. Þau ætla að halda áfram veg sjálfbærninnar og eru með verkefni í gangi, í samvinnu við Matís og Landbúnaðarháskóla Íslands, sem miðar að því að nýta allan úrgang og sleppa þannig við urðun. 
 
Þau eru komin með útflutningsleyfi og horfa til þess að geta einhvern tíma í framtíðinni farið að flytja út. Raunar eru þau nú þegar komin í samband við danskan matreiðslumeistara sem hefur hug á að nota Seglbúðarlamb á veisluborðum sínum. Þá ætla þau sér að taka stórgripalínu í sláturhúsinu fljótlega á næsta ári með það fyrir augum að geta farið að þjóna nágrönnum sínum á nálægum nautgripabúum og auk þess farið að geta boðið upp á bæði hágæða nauta- og lambakjöt, sérstaklega merkt Seglbúðum. 

9 myndir:

Skylt efni: sláturhús | Seglbúðir

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...