Skagfirðingar gagnrýna tillögu um nýja búsetutengda skatta
„Því miður er svo víða á landsbyggðinni að fólk hefur ekki val um hvort það notar bíl eður ei og nýtur ekki þeirra valkosta sem höfuðborgarsvæðið hefur með fjölbreyttari samgöngumáta,“ segir í umsögn Sveitarfélagsins Skagafjarðar við þingsályktunartillögu um heimild sveitarfélaga til að innheimta umhverfisgjöld.
Fram kemur í bókun sem samþykkt var á fundi Sveitarfélagsins Skagafjarðar að sumar fjölskyldur þurfi jafnvel tvo bíla til að geta sinnt vinnu og sótt þjónustu.
„Þetta er því tillaga um nýja búsetutengda skatta sem munu leggjast með mestum þunga á landsbyggðina. Nær væri að koma með tillögur um hvernig sé hægt að efla enn frekar almenningssamgöngur á landsbyggðinni svo færri séu háðir því að eiga og nota bíla.“