Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Úr Þverárrétt.
Úr Þverárrétt.
Mynd / MÞÞ
Fréttir 11. febrúar 2022

Skilaboð út á markaðinn um hækkun á lambakjöti

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Ég fagna því að verðið komi fram svo snemma, þetta er nokkuð sem við sauðfjárbændur höfum lengi barist fyrir. Það sem ég les út úr þessu er að fyrirtækið er að boða hækkun út á markaðinn og það er í takt við þær verðhækkanir á matvælum sem verslunin hefur boðað að séu í vændum,“ segir Birgir Arason, formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar og bóndi á Gullbrekku í Eyjafjarðarsveit.

Kjarnafæði Norðlenska hefur ákveðið að greiða 3% uppbót á innlagt dilkakjöt árið 2021 og verður hún greidd út í byrjun maí næstkomandi. Samhliða ákvörðun um uppbótargreiðslur var jafnframt gefið út að verð á dilkakjöti haustið 2022 hækki að lágmarki um 10% frá endanlegu verði fyrir dilkakjöt á liðnu ári. Fram kemur í tilkynningu á vefsíðu fyrirtækisins að vonir standi til þess að markaðsaðstæður verði með þeim hætti að unnt verði að hækka innlegg næsta haust umfram þessi 10%.

Skilaboð út á markaðinn

Birgir segir skilaboðin þau að lambakjöt muni hækka um að minnsta kosti 10% næsta haust, eðlilegt sé að kjötið hækki enda fyrirsjáanlegt að verð á matvöru muni hækka mikið á komandi mánuðum.

„Það virðist sem við sem erum í frumframleiðslunni sitjum eftir eina ferðina enn, það er vissulega hækkun í kortunum og 10% hækkun á verði til okkar þýðir að bændur fá ríflega 600 krónur fyrir kílóið af kjöti. Staðreyndin er sú að til að hafa upp í framleiðslukostnað þurfa þeir um 850 krónur,“ segir hann.

Bændur þyrftu 60% hækkun

Birgir segir að 20% hækkun út á markaðinn væri nær lagi, en þörf bænda væri þó enn mun meiri eða um 60% hækkun frá því verði sem í boði er. Liggja þurfi fyrir hvað kostar að framleiða kjötið og hvort við viljum halda framleiðslunni áfram á því verði sem þarf. Bændur hafi ekki mikið svigrúm sjálfir til að hagræða í sínum rekstri, þeir standi frammi fyrir kröfum um aðbúnað dýra, skýrsluhald kringum búin sé mikið og þannig mætti lengi telja.

„Það er í raun fátt sem við getum skorið niður,“ segir hann og bætir við að taka þurfi samtalið um hvort framleiða eigi lambakjöt og bjóða á því verði sem kostar að framleiða það. Markaðurinn myndi án efa dragast saman. Þá bendir hann á að ekki sé alltaf hægt að elta allar neyslubreytingar sem verði
í samfélaginu.

Birgir nefnir einnig dæmi um að sauðfjárbú, með 500 kindum greiði nú í ár um 6 milljónir króna fyrir áburð, ríflega helmingi meira en í fyrra.

„Þeir peningar eru ekki til, bændur draga þá ekki undan koddanum.“ Framlag ríkisins til að mæta auknum útgjöldum sé vissulega þakkarvert, en einungis plástur á sárið, það leysi engan vanda til frambúðar.

Glórulaus akstur

Bendir Birgir á að sláturleyfishafar gætu frekar en bændur hagrætt hjá sér og nefnir í því sambandi flutningskostnað, en fé sé iðulega ekið um langan veg og jafnvel fram hjá sláturhúsum til að fara í annað. Dæmi séu um flutninga fram hjá sláturhúsi á Húsavík og þá sé fé flutt af Suðurlandi og til Sauðárkróks.

„Þetta er alveg glórulaust og kostar mikinn pening,“ segir hann en eftir því sem hann kemst næst liggi kostnaður við sauðfjárflutninga ekki fyrir. Til sé 10 ára gömul skýrsla sem leiði í ljós að spara hefði mátt um 120 milljónir króna með því að hagræða í akstri.

Hann bendir einnig á að sauðfé hafi fækkað um 100 þúsund fjár frá árinu 2016, en það jafngildir nánast því sem sláturhúsin á norðanverðu landinu slátri að jafnaði á hverju hausti. „Fækkunin nemur einu sláturhúsi, en samt er enn verið að slátra í öllum húsunum fyrir norðan.“ 

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...

Bjart er yfir Miðfirði
Fréttir 19. desember 2024

Bjart er yfir Miðfirði

Bændurnir á bæjunum Bergsstöðum og Urriðaá í Miðfirði fengu heimild til að kaupa...

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum
Fréttir 18. desember 2024

Reykhólahreppur tekur þátt í Brothættum byggðum

Nýverið var samningur um byggðaþróunarverkefni Brothættra byggða undirritaður mi...

Mánaðarleg upplýsingagjöf
Fréttir 18. desember 2024

Mánaðarleg upplýsingagjöf

Hagstofa Íslands hyggst frá næstu áramótum birta mánaðarlega upplýsingar um fjöl...