Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Smuga 465 í Ytri-Hofdölum var nythæst allra kúa á landinu á árinu 2020 með 14.565 kg í ársafurðir. 
Smuga 465 í Ytri-Hofdölum var nythæst allra kúa á landinu á árinu 2020 með 14.565 kg í ársafurðir. 
Mynd / Þórdís Halldórsdóttir
Fréttir 5. febrúar 2021

Skilaði tæpum 14,6 tonnum og hefur mjólkað nærri 68 tonnum yfir ævina

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Nythæsta kýrin á landinu árið 2020 var Smuga 1464861-0465 í Ytri-Hofdölum í Viðvíkursveit í Skagafirði. Hún mjólkaði 14.565 kg með 4,89% fitu og 3,34% próteini að því er fram kemur í skýrsluhaldi Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, RML.


Smuga bar sínum sjötta kálfi 3. nóvember 2019. Hæsta dagsnyt Smugu á nýliðnu ári var 52 kg og var hún í yfir 40 kg dagsnyt fram á sumar eða til loka júnímánaðar. 

Smuga er fædd á Skúfsstöðum í Hjaltadal í maí 2011 en flutti sig um set rétt fyrir fyrsta burð sem var hinn 3. ágúst 2013. Skráðar æviafurðir hennar voru 67.865 kg um síðustu áramót en á yfirstandandi mjólkurskeiði er hún komin í 17.322 kg mjólkur.

Önnur í röðinni árið 2020 var Ösp 1280 í Birtingaholti 4 í Hruna-mannahreppi sem mjólkaði 14.062 kg á nýliðnu ári. Mjólkin var með 4,54% fitu og 3,61% próteini. Ösp bar sínum fjórða kálfi þann 29. janúar 2020. Hún fór hæst í 53,7 kg dagsnyt á árinu 2020 en skráðar æviafurðir hennar eru 36.477 kg. 

Þriðja nythæsta kýrin var Merlin 2268 í Lambhaga á Rangárvöllum. Nyt hennar á árinu var 13.898 kg með 4,19% fitu og 3,50% próteini. Hún bar sínum öðrum kálfi 28. nóvember 2019 og fór hæst í 50,0 kg dagsnyt. Skráðar æviafurðir hennar eru 20.370 kg. 

Flækja 376 í Viðborðsseli með mestar æviafurðir

Af núlifandi kúm stendur Flækja 376 í Viðborðsseli á Mýrum í Hornafirði efst allra í æviafurðum. Flækja er fædd í Árbæ í sömu sveit í desember 2006 en flutti sig um set í byrjun síðasta árs. Hún hafði nú um áramótin mjólkað 91.803 kg á 11 mjólkurskeiðum en fyrst bar hún 28. október 2008 og síðast þann 1. desember 2019. Flækja er glæsikýr en hún hlaut á sínum tíma 89 stig í útlitsdómi. 

Skammt á hæla Flækju kemur Gullbrá 357 á Hóli við Dalvík en hún er fædd á Hrafnsstöðum í Svarfaðardal í apríl 2004. Flækja var seld að Hóli sem smákálfur. Gullbrá bar fyrst í október 2006 og síðast nú í desember síðastliðnum en hefur á ævi sinni, nú komin á 10. mjólkurskeiðið, náð að mjólka 89.471 kg.

Afrekskýrin Jana felld í fyrra

Afrekskýrin Jana 432 á Ölkeldu 2 í Staðarsveit á Snæfellsnesi var felld á síðastliðnu ári eftir ákaflega farsælan feril. Hún komst í hóp þeirra örfáu íslenskra kúa sem rofið hafa 100 tonna múrinn í æviafurðum undir lok ársins 2019. Jana 432 var fædd 8. mars 2005, stórættaður gripur verandi dóttir Stígs 97010 og móðurfaðir hennar var Kaðall 94017. 

Jana bar sínum fyrsta kálfi þann 18. september 2007 og níu sinnum eftir það, síðast 28. desember 2017. Mestum afurðum á einu ári náði Jana árið 2013 þegar hún mjólkaði 10.372 kg en æviafurðir hennar enduðu í 101.359 kg. Að lokum fór svo að Jana festi ekki fang og var felld vegna elli þann 13. maí síðastliðinn. Afkomendur Jönu eru fjölmargir víða um land en hún skilaði nauti á stöð sem fékk dóm til framhaldsnotkunar sem reynt naut. Þar er um að ræða Öllara 11066 en faðir hans var Ófeigur 02016.

Íslandsmet Mókollu frá Kirkjulæk stendur enn, eða 114.635 kg

Núverandi Íslandsmet í æviafurðum á Mókolla 230, dóttir Snarfara 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 114.635 kg. 

Mestar meðalafurðir voru á Búrfelli í Svarfaðardal

Mest meðalnyt eftir árskú á ný-liðnu ári, 2020, var, eins og greint var frá í síðasta blaði, hjá Guðrúnu Marinósdóttur og Gunnari Þór Þórissyni á Búrfelli í Svarfaðardal. Nyt eftir árskú reyndist 8.579 kg sem er aukning um 602 kg frá fyrra ári. 

Á Búrfelli er að finna legu-bása-fjós með mjaltaþjóni sem tekið var í notkun vorið 2018. Kýrnar á búinu kunna greinilega vel að meta aðstöðubreytinguna en frá því að fjósið kom til notkunar hafa afurðir aukist um 1.500–1.600 kg/árskú og voru þó ekki litlar fyrir.

Sjá nánar um skýrsluhaldið í mjólkurframleiðslunni 2020 á bls. 40 og 41 í nýjasta Bændablaðinu

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...