Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Skilar öllu affallsvatni og skólpi tandurhreinu út í holræsakerfið
Mynd / HKr.
Fréttir 1. nóvember 2017

Skilar öllu affallsvatni og skólpi tandurhreinu út í holræsakerfið

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Coca-Cola á Íslandi, sem er 75 ára á þesssu ári, tilheyrir núna Coca-Cola European Partners samsteypunni, sem er stærsta sjálfstæða átöppunarfyrirtæki í heiminum eftir veltu og starfar í 13 löndum í Evrópu, en ekki eins og áður var þegar Coca-Cola var framleitt hér á landi undir hatti Vífilfells.
 
Nú heitir félagið Coca-Cola European Partners Ísland eða CCEP Ísland. Hefur fyrirtækið innleitt umhverfisstefnu The Coca-Cola Company og vinnur markvisst að aukinni sjálfbærni fyrirtækisins. Viðamesti og dýrasti þátturinn fólst þó í byggingu á afkastamikilli vatnshreinsistöð 2011 sem hreinsar allt affallsvatn og skólp frá verksmiðjunni. 
 
Vinsældir Coca-Cola drykkjarins má ekki síst rekja til afar sterkrar ímyndar sem tókst að byggja upp um þennan þjóðardrykk Bandaríkjamanna. Á síðari árum hefur álit almennings á þessari vöru og öðrum sambærilegum breyst mikið, sér í lagi eftir að farið var að ræða af krafti um skaðsemi neyslu á sykri sem mikið er af í gosdrykkjum af öllu tagi. Vöruframboð fyrirtækisins hefur þróast í takt við tíðarandann og býður fyrirtækið ekki eingöngu upp á Coca-Cola heldur selur breiða vörulínu drykkja, s.s vatnsdrykki, ávaxtasafa, íþrótta- og orkudrykki, sojadrykki og íslenska próteindrykkinn Hámark, sem unninn er úr mjólk frá íslenskum bændum, auk þess sem fyrirtækið starfrækir Víking Brugghús á Akureyri og flytur inn breytt úrval af áfengi. 
 
Í dag leggja forsvarsmenn CCEP Ísland mikla áherslu á að fyrirtækið sýni samfélagslega ábyrgð m.a. í umhverfismálum. Þar hefur fyrirtækið, sem staðsett er á Stuðlahálsi í Reykjavík, sýnt það í verki m.a. með byggingu á hreinsistöð fyrir allt affallsvatn og skólp sem frá þeim fer út í frárennsliskerfið. Er þetta eina hreinsistöð sinnar tegundar á Íslandi og skilar hún eingöngu tandurhreinu vatni út í skolpræsakerfi borgarinnar. 
 
Reistu hreinsistöð í samræmi við breytingu á stöðlum Coca-Cola
 
Tíðindamaður Bændablaðsins fór á dögunum og kynnti sér starfsemi fyrirtækisins og hvernig hreinsistöðin virkar. Stefán Magnússon markaðsstjóri segir að stöðin, sem er tveggja þrepa og byggða á búnaði frá Deisa og HydroThane, hafi verið reist 2011 í samræmi við breytingu á stöðlum Coca-Cola. Þá kom VEG verkfræðistofa ehf. ásamt verktakafyrirtækjunum Eykt og Hamri einnig að byggingu stöðvarinnar. Stöðin er nú rekin af starfsmönnum CCEP en ráðgjafarfyrirtækið ReSource International ehf., sem er með aðsetur í Kópavogi og hefur m.a. komið að málum er varða endurvinnslu á plasti hérlendis, sá á tímabili um rekstur stöðvarinnar fyrir félagið.  
 
Hreinsistöðin er um 1.000 fermetrar að stærð og tankarnir eru átta talsins og rúma samtals yfir 1.400 rúmmetra. 
 
„Meðhöndlun frárennslis verður að skila vatni aftur til náttúrunnar þannig að það styðji við lífríki sjávar, jafnvel þótt yfirvöld á staðnum geri ekki þá kröfu,“ segir Stefán. Hann segir að þegar ákveðið var að fyrirtækið reisti sjálft sína hreinsistöð hafi staðan verið þannig að fyrirtækið gat ekki tengst neinni fullnægjandi hreinsistöð á Íslandi til að mæta kröfum Coca-Cola.
 
Þær skolphreinsistöðvar sem stærsti hluti af skolpi á höfuðborgarsvæðinu rennur í gegnum eru það sem kallað er eins þrepa stöðvar með mjög takmarkaða síun á grófu efni úr skólpinu áður en því er dælt um útrásir sem liggja nokkra kílómetra út í Faxaflóa. Í þessum dælustöðvum fer því ekki fram niðurbrot á lífrænu efni í skólpinu.  
 
Krafa Coca-Cola er að allt affallsvatn úr fyrirtækinu fari í gegnum hreinsun sem skili því það hreinu að fiskar geti lifað í því. Í hreinsistöðinni á Stuðlahálsi er því haft fiskabúr til að sannreyna vatnsgæðin áður en vatninu er dælt út í skólpkerfi borgarinnar. 
 
Er allt ferli fyrirtækisins gæðavottað samkvæmt ISO gæðastöðlum. Þar er um að ræða ISO 14001 umhverfis­stjórn­unar­kerfi sem innleitt var 2011. ISO 9001 er altækt gæðastjórnunarkerfi sem einnig var innleitt 2011. Þá er ISO/OSHAS 19001 öryggisstjórnunarkerfi sem innleitt var 2013 og ISO 22000 matvælaöryggiskerfis sem líka var innleitt 2013. 
 
Nákvæmar mælingar gerðar í hreinsunarferlinu
 
Axel Tamzok fylgist með öllum mælingum og tekur prufur til að sannreyna hvort hreinsiferlið sé að virka rétt. Hann segir að öllu frárennsli frá fyrirtækinu, að undanskildu rigningarvatni sem rennur af þökum bygginganna, sé veitt eftir grófsíun í gríðarstóra tanka í hreinsistöðinni. Þar er frárennslinu dælt í tank, sem í eru örverur, og hefst þá vinna örveranna í súrefnissnauðu umhverfi við að brjóta niður lífrænt efni sem í frárennslinu er. Við þetta niðurbrot myndast mikið af metangasi sem að hluta er veitt í kyndistöð verksmiðjunnar til að hita upp vatn fyrir starfsemina. Það sem ekki nýtist í kyndistöðinni er brennt í sérstökum brennara utanhúss til að lágmarka loftmengun en metangas er mjög kröftug gróðurhúsalofttegund og mun áhrifameiri en koltvísýringur CO2.
 
Draumurinn að geta metanvætt bílaflotann
 
Axel segir að draumurinn sé að hreinsa þetta vetni og setja á tanka þannig að hægt verði að keyra bílaflota fyrirtækisins á mjög vistvænu eldsneyti sem verður til við hreinsun á affallsvatni. Með slíku væri jafnframt hægt að auka sjálfbærni fyrirtækisins verulega. 
 
Í seinna þrepi vatnshreinsunarinnar er affallinu dælt í annan stóran tank þar sem niðurbrot heldur áfram í súrefnismettuðu umhverfi. Við það fellur hlutlaust fast snefilefni til botns sem örverur  nýttu áður til að búa til metangas. Þetta botnfall er seyra sem fyrirtækið sendir síðan  til áframvinnslu hjá Íslenska gámafélaginu þar sem hún er notuð við moltugerð. 
 
Eftir þessa seinni örverumeðferð er vatnið orðið ansi tært, en eigi að síður er því veitt þaðan í gegnum sandfiltersíun áður en því er veitt ansi tæru og hreinu út í holræsakerfi Reykjavíkur.
 
Víða erlendis er farið að hreinsa vatnið enn frekar í þriggja þrepa hreinsistöðvum þannig að nýta megi affallsvatn og skólp til áveitu og jafnvel að nýju sem neysluvatn.  
 
Mögulegt að tengja fleiri fyrirtæki við hreinsistöðina
 
Stefán Magnússon markaðsstjóri segir að hreinsistöðin sé í raun mun afkastameiri en þörf sé á fyrir verksmiðjuna. Því hafi menn íhugað að tengja önnur fyrirtæki inn á stöðina og hreinsa fyrir þau affallsvatn svo þau geti líka bætt sitt umhverfisfótspor. Þetta mun þó enn sem komið er bara vera á hugmyndastigi. Stefán vísar líka til metnaðarfullrar umhverfisstefnu fyrirtækisins, en í henni segir:
 
CCEP mun leitast við að vernda og bæta umhverfið með því að:
  • Þekkja, skrá og meta þau umhverfisáhrif sem af starfsemi félagsins leiðir
  • Uppfylla viðeigandi kröfur stjórnvalda og samstarfsaðila í umhverfismálum
  • Vinna að stöðugum umbótum í umhverfismálum í samvinnu við almenning, viðskiptavini og stjórnvöld
  • Lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið með aðgerðum sem;
    • draga úr mengun og losun úrgangs
    • stuðla að aukinni endurvinnslu
    • auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa í starfseminni
CCEP telur að virðing starfsfólks fyrir náttúru og umhverfi sé lykill að árangursríku umhverfisstarfi og mun því hvetja, beint og óbeint, til hollrar útivistar og ábyrgrar hegðunar gagnvart umhverfinu.
 
Vörumerkið Coca-Cola er vissulega á meðal þekktustu vörumerkja í heiminum. Sama má segja um hina sérstæðu Coca-Cola flösku sem þróuð var til að aðgreina drykkinn frá öðrum gosdrykkjum og kom á markað 1915. Fyrstu árin var Coca-Cola einungis framleitt í þessari flösku. Það var ekki fyrr en um miðja síðustu öld að Coca-Cola varð fáanlegt í stærri glerflöskum og dósum. Í dag er Coca-Cola einnig selt á plastflöskum. 
 
Í ljósi mikillar umræðu um vaxandi plastmengun í heiminum, þá voru fulltrúar fyrirtækisins líka spurðir út í umbúðamál fyrirtækisins. 
 
Lagt upp úr að minnka kolefnissporið vegna umbúðaflutninga
 
Stefán sagði að í umhverfisstefnu fyrirtækisins væri lögð mikil áhersla á endurvinnslu umbúða. Þar hefði náðst yfir 90% árangur bæði í endurheimt og endurvinnslu á plastflöskum og áldósum. Þá sagði hann að plasflöskurnar sem koma til landsins sem örlítil hylki væru síðan þanin út með heitu lofti áður en tappað er á þær. Þar sem lítið færi fyrir þessum hylkjum og þyngd þeirra væri lítil væru þau hagkvæm í flutningum milli landa. Það dragi síðan úr kolefnisspori vegna innflutnings á umbúðum m.a. í samanburði við gler og jafnvel ál þrátt fyrir hvað álið sé líka mjög hagkvæmt í flutningum og endurvinnslu. 
 
Gler sem til fellur er aftur  á móti þungt í flutningum þó búið sé að létta glerflöskur Coca-Cola mikið með nýrri hönnun. Vegna þunga glersins borgar sig ekki að taka það til baka til hreinsunar og endurvinnslu auk þess sem hráefnið í glerið sem er kvartssandur er ódýrt og auðfengið. Glerið sem fellur til hér á Íslandi hjá Coca-Cola og öðrum fyrirtækjum er því malað og urðað eins og hver önnur steinefni. 
 
Þar sem fyrirtækið er nú hluti af fyrirtækjakeðju Coca-Cola European Partners  í Evrópu er að sögn Stefáns reynt að beita samlegðaráhrifum til að hámarka hagkvæmni í vinnslu og tryggja bestu nýtingu á tækjabúnaði sem völ er á. Þess vegna eru litlu Coca-Cola flöskurnar ekki fluttar tómar til Íslands, heldur er tappað á þær í verksmiðjum fyrirtækisins í Svíþjóð. Rúmtakið í flutningum til landsins er það sama hvort sem þær koma tómar eða fullar.    
 
Komnir í bein tengsl við íslenskan landbúnað
 
Auk þessa framleiðir CCEP Ísland umtalsvert af mjólkurvörum í pappafernum. Þar er um að ræða próteindrykkinn Hámark. Mjólkina í þennan drykk kaupir fyrirtækið af Mjólkursamsölunni (MS). Þannig eru orðin bein tengsl á milli Coca-Cola og íslensks landbúnaðar. 
 
Löng saga Coca-Cola og tengingin við Íslands
 
Coca-Cola á sér langa sögu og hún hófst árið 1886 þegar bandarískur lyfjafræðingur, dr. John Styth Pemberton, blandaði gosdrykk sem nefndur var Coca-Cola. Drykkur þessi varð þjóðardrykkur í Bandaríkjunum og öðlaðist fljótt einnig miklar vinsældir annars staðar og er nú seldur í flestum löndum heims. 
 
Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar gerði Björn Ólafsson stórkaupmaður samning við The Coca-Cola Company um stofnun verksmiðju á Íslandi, og 1. júní 1942 tók verksmiðjan Vífilfell til starfa að Haga við Hofsvallagötu í Reykjavík. 
 
Árið 1973 urðu tímamót er framleiðslan flutti í nýtt og stærra húsnæði að Stuðlahálsi 1. Nýja verksmiðjan að Stuðlahálsi var búin nýtískuvélum frá Crown Baele sem gátu framleitt allt að 140.000 flöskur á dagvakt. Fram til ársins 1974 var eingöngu fyllt á 0,19 og 0,3 lítra glerflöskur en árið 1975 kom 1 lítra glerflaskan, eða „risinn“ eins og hún var oft kölluð á markað og jókst þá salan umtalsvert.
 
Mestu breytingar í langan tíma áttu sér stað sumarið 1985 en þá hófst áfylling á 1,5 lítra plastflöskum og síðan 0,5 lítra og 2 lítra plastflöskum. 
 
Árið 2001 sameinaðist fyrirtækið Sól Víking og þá hóf fyrirtækið að framleiða bjór sem í dag er allur framleiddur í verksmiðjunni á Akureyri.
 
2011 urðu breytingar á eignarhaldi Vífilfells þegar Cobega, spænskur drykkjavöruframleiðandi, keypti fyrirtækið. Cobega er stærsti framleiðandi Coca-Cola á Spáni og er hluti af fyrirtækjasamstæðunni Cobega Group.
 
Árið 2016 sameinaðist Vífilfell Coca-Cola European Partners (CCEP), stærsta átöppunarfyrirtæki Coca-Cola í heiminum og leiðandi fyrirtæki á markaði með neytendavörur í Evrópu. CCEP er með starfsemi í 13 löndum í Vestur-Evrópu og dreifir og markaðssetur nokkur af vinsælustu drykkjarvörumerkjum heims til yfir 300 milljón neytenda í Vestur-Evrópu. 
 
Undir lok árs 2016 tók svo Vífilfell upp nafn CCEP og ber nú nafnið Coca-Cola European Partners Ísland. 

10 myndir:

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...