Skógarverðir myrtir
Skógarvörður í Rúmeníu var nýlega skotinn til bana með veiðiriffli þegar hann var á leiðinni á vettvang til að kanna ólöglegt skógarhögg. Skógarvörðurinn er annar sem myrtur er í landinu á tveimur mánuðum í átökum vegna ólöglegs skógarhöggs.
Í Rúmeníu er að finna talsvert af ósnertum frumskógum og gömlum ræktuðum skógum sem eru mikilvægt búsvæði fyrir villt dýr eins og birni, úlfa og villta ketti. Skógarnir hafa í langan tíma verið helsta nytjasvæði ólöglegs skógarhöggs í Evrópu og gríðarlegt magn trjáa fellt ólöglega á hverju ári. Timbrið úr skógunum er selt um alla Evrópu og notað í húsbyggingar, húsgögn og til pappírsgerðar.
Skógarvörðurinn sem var skotinn til bana fór til að kanna sögusagnir um ólöglegt skógarhögg í fjalllendi í norðanverðu landinu. Fyrir um tveimur mánuðum fannst annar látinn skógarvörður skammt frá athafnasvæði ólöglegra skógarhöggsmanna. Sá maður hafði verið sleginn í höfuðið með öxi og lést vegna höfuðblæðinga.
Dauðsföllin hafa skiljanlega vakið talsverða athygli og orðið til þess að skógahöggsmenn í landinu hafa stigið fram og sagt frá margs konar árásum sem þeir hafa orðið fyrir vegna starfsins, bæði ofbeldi og hótunum.